Hafa lesið rúmlega 1200 bækur

Sumarið á Bókasafni Kópavogs hefur verið annasamt og skemmtilegt. Lánþegar hafa verið duglegir að sækja bækur fyrir alla fjölskylduna til þess að taka með í ferðalagið og líkt og síðasta sumar hafa íslensku ferðabækurnar verið vinsælar.

Á sumrin er mikið barnastarf í gangi og má þar nefna eitt og annað. Börn á leikjanámskeiðum hafa verið dugleg að koma í heimsókn og 336 börn hafa skráð sig í sumarlestrarátakið. Samtals hafa þau lesið rúmlega 1200 bækur. Vel gert, krakkar!

Bókasafnið hefur verið sem annað heimili ungmenna á námskeiðum á vegum Vinnuskólans og Gerðarsafns en hér voru haldnar smiðjur og námskeið um samtímalist. Krakkarnir horfðu á heimildarmyndir, unnu í hljóðfæra-, teikni- og bókasmiðjum, gerðu gjörninga og lærðu að laga föt með hjálp Ýrúrarí.

Sumarspírur Menningarhúsanna, smiðjur fyrir börn á grunnskólaaldri, voru í ár í samstarfi við Vatnsdropann sem er samstarfsverkefni Menningarhúsanna og annarra safna á Norðurlöndunum. Unnu börnin fjölbreytt starf ásamt leiðbeinendum og sköpuðu hljóðfæri, sögur og aðra list innblásna af sígildum barnabókum eftir Tove Jansson, H. C. Andersen og Astrid Lindgren og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Á fyrstu hæðinni hefur búningasýningin Þykjó verið vinsæl og hafa ófáir krakkarnir mátað sig við Ástarfuglinn og Feludýrið. Þar er einnig hægt að fræðast um og skoða innihald ungbarnakassans sem allir nýburar Finnlands fá að gjöf.

Prjóna- og handavinnufjörið er svo mikið hjá meðlimum Hannyrðaklúbbsins Kaðlín að þær hafa ekki tekið sér sumarfrí og halda áfram að hittast á safninu á hverjum miðvikudegi.   

Haustdagskráin verður á sínum stað og Menningarhúsin bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta viðburði sem endranær. Meðal þess sem boðið verður upp á er viðburðaröðin Menning á miðvikudögum. Má þar nefna hljóðgöngur, erindi um náttúruvísindi og listir, tónleika og samræður um sköpunarkraftinn. Listamenn, handverksfólk og vísindamenn í fremstu röð leiða viðburðina sem fara fram sitt á hvað á bókasafninu, Náttúrufræðistofu, Gerðarsafni eða í Salnum.

Eins og sjá má er Bókasafn Kópavogs vettvangur fjölbreytts menningar- og mannlífs. Hægt er að finna allar upplýsingar um viðburði á vef safnsins bokasafn.kopavogur.is sem og á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar