Sjúkraþjálfun Garðabæjar hefur fengið góðan liðsstyrk

Sjúkraþjálfun Garðabæjar á Garðatorgi hefur fengið öflugan liðsstyrk í Agli Atlasyni, sjúkraþjálfara, sem hóf störf á stofunni núna í ágúst. Egill hefur lokið 5 ára mastersnámi frá Háskóla Íslands og hann hefur fengið starfslöggildingu sem sjúkraþjálfari frá Embætti Landlæknis.

Með komu Egils hefur verið opnað fyrir biðlista á ný eftir lokun frá því sl. vor. ,,Við gátum því miður ekki séð fram á að sinna skjólstæðingum innan eðlilegs biðtíma til endurhæf-ingar, en horfum nú til bjartari tíma um sinn a.m.k. með tilkomu Egils,“ segir Halldór Víglundsson, sjúkraþjálfari á Sjúkraþjálfun Garðabæjar og formaður Félags MT sjúkraþjálfara á Íslandi.

Þarf að starfa utan greiðsluþátttökukerfis Sjúkratrygginga Íslands í tvö ár

Þar sem um fordæmalausa reglugerðarbreytingu hæstráðanda á okkar starfsvettvangi er að ræða frá síðustu áramótum verður að taka fram að Egill þarf að starfa utan greiðsluþátttökukerfis Sjúkratrygginga Íslands. Samkvæmt reglugerð þessari nær endurgreiðsla fyrir sjúkraþjálfun ekki til þeirra skjólstæðinga sem hann sinnir við endurhæfingu. ,,Ástæður þess eru að endurgreiðsla nær ekki til sjúkratryggðra sem fá endurhæfingarþjónustu þeirra sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem eru með minna en 2ja ára starfsreynslu,“ segir Halldór og bætir við: ,,Egill hefur alla faglega burði til að sinna endurhæfingu okkar skjólstæðinga vel með sjúkraþjálfun og er að auki með viðamikla þjálfunarþekkingu á íþróttafólki sem reynist oft dýrmæt við endurhæfingu stoðkerfisavandamála.“

En hvernig líst Agli á að hefja störf hjá Sjúkraþjálfun Garðabæjar og hvað vakti áhuga hans á að gerast sjúkraþjálfari? ,,Ég er mjög spenntur að vera kominn í starfshópinn hjá Sjúkraþjálfun Garðabæjar. Staðsetning, aðstaða og starfsfólk er til fyrirmyndar. Sjúkraþjálfun hafði lengi blundað í mér en afi minn rak á sínum tíma nuddstofu í Hátúni í Reykjavík. Þekkingin og áhuginn á hvernig líkaminn starfar hefur svo bara haldið áfram að þróast með árunum sem ég var sjálfur að stunda íþróttir og svo síðar sem þjálfari,” segir Egill.

Og eitthvað eitt svið sem þú einbeitir þér sérstaklega að eða fær í flestan sjó? ,,Ég
myndi kalla það alhliða sjúkraþjálfun, með aukinni áherslu á ganglimi. Mikil áhersla á fræðslu sem oftast leiðir til færri tíma í sjúkraþjálfun, þar sem einstaklingar öðlast meiri þekkingu á eigin vandamálum og hvernig eigi að draga úr einkennum og bæta líkamlega getu.”

Þú varst lengi í fótboltanum á efsta stigi. Sú reynsla mun sjálfsagt nýtast þér eitthvað í sjúkraþjálfuninni? ,,Ég hef blessunarlega kynnst mörgum af færustu sjúkraþjálfurum og læknum landsins í gegnum íþróttirnar, sú reynsla nýtist mér daglega í starfi sem og utan þess. Jákvæðni, hvatning og að vinna saman að markmiðum með einstaklingum eru klárlega eiginleikar sem ég tek með mér eftir rúma 25 ára reynslu úr íþróttaheiminum.”

Þú þarft að starfa utan greiðsluþátttökukerfis Sjúkratrygginga Íslands um tíma þar sem þig vantar frekari starfsreynslu. Er þetta ekki ósanngjörn reglugerð og hvað þýðir þetta fyrir skjólstæðinga þína, hvað þurfa þeir að greiða fyrir tímann? ,,Eðlilega þykir mér þessi staða ekki vera sanngjörn eftir 5 ára meistaranám og staðfestingu landlæknis um að ég sé fær um að sinna starfi mínu. Því miður virðast ráðandi aðilar ekki átta sig nógu vel á því að þetta bitnar fyrst of fremst á þeirra eigin kjósendum sem enda með að þurfa bíða þeim mun lengur eftir nauðsynlegri þjónustu.
Samkvæmt SÍ er markmiðið með greiðsluþátttökukefinu að lækka útgjöld þeirra einstakling sem þurfa mikið á heilbrigðis-þjónustu að halda og hafa greitt háar fjárhæðir fyrir þá þjónustu. Mínir skjólstæðingar geta bókað tíma án tilvísunar og kostnaðurinn er sambærinlegur annarra sjúkraþjálfara þegar einstaklingar eru ekki að þurfa nýta sér reglulega heilbrigðiskerfið.”

Biðlistinn virkjaður á ný

Eins og áður segir hefur biðlistinn verið virkjaður á ný með nýjum sjúkraþjálfara á stofunni og hægt er að hafa samband símleiðis til að fá tíma hjá Agli. Símanúmerið er 565-6970

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar