Hæ, hó, jibbí jei…

Sjálfur þjóðhátíðardagurinn er á morgun þegar landsmenn skunda í skrúðgöngur niður á “torg” í sínum bæjarfélögum. Alveg frá því að ég flutti í bæinn fyrir rúmum 30 árum lá leiðin á Rútstún þar sem 17. júní gleðin fór fram. Þar hittust bæjarbúar, sátu í brekkunni við sundlaugina, spjölluðu og tóku þátt í hátíðarhöldunum. Á þessum tíma töldu bæjarbúar um 17 þúsund. Það fór vel um alla og í sól og blíðu var setið lengi, en í leiðindarveðri var húkt undir regnhlífinni og svo hlaupið heim eftir helstu skemmtiatriðin. Ekki fór mikið fyrir kaffihúsum í bænum á þeim tíma og því bauð tengdamamma í veglegt þjóðhátíðarboð þar sem stórfjölskyldan kom saman. Smátt og smátt stækkaði bærinn og plássið varð minna. Í dag eru íbúar í Kópavogi um 40 þúsund og því alveg ljóst að við þurftum að “stækka” hátíðarsvæðið.

Aftur á Rútstún

Undanfarin ár brást Kópavogsbær við heimsfaraldri og samkomutakmörkunum með því að fjölga hátíðarsvæðum í bænum og var hátíðinni dreift á fimm staði vítt og breytt um bæinn.  Rútstúninu var sleppt til að koma í veg fyrir “fjöldasamkomu”. Í ár ákvað Lista- og menningarráð að halda 17. júní á tveimur stöðum; aftur yrði snúið á Rútstún auk þess að bæta við svæðinu við Salalaug þar sem er frábær aðstaða til hátíðahalda. Rútstún er gott svæði og hentugt að vera í næsta nágrenni við menningarhús bæjarins og geta þannig nýtt stórgott útisvæðið við húsin. Þar verða ýmis leiktæki fyrir börnin. Svipuð hátíðarhöld verða svo við Salalaug og komum við þannig til móts við óskir íbúa að bjóða einnig upp á skemmtun austan Reykjanesbrautar, sem okkur er ljúft og skylt að gera. 

Hátíðarhöldin hefjast kl. 13.30 með skrúðgöngu frá Menntaskólanum í Kópavogi að Rútstúni með hinni frábæru Skólahljómsveit Kópavogs og Skátana í broddi fylkingar. Ekki má gleyma 17. júní hlaupinu um morguninn klukkan 10.00, og er ætlað börnum í 1.-6. bekk, þar sem allir fá viðurkenningarpening fyrir þátttökuna.

Gleðilega þjóðhátíð!

Elísabet Sveinsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður Lista- og menningaráðs Kópavogs

Mynd. Elísabet ásamt fjölskyldunni sinni árið 1992 að búa sig undir að taka þátt í 17. júní hátíðinni

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar