Hátíðleg hátíðarhöld á 17. júní í Garðabæ

Á Garðatorgi verður líf og fjör á þjóðhátíðardaginn og dagskrá sem miðar að því að öll fjölskyldan geti notið saman. Dagskráin hefst með hefðbundinni skrúðgöngu sem fer frá Hofsstaðatúni klukkan 12:30. Það eru félagar úr Skátafélaginu Vífli og Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar sem leiða gönguna samkvæmt hefðinni. Þegar á Garðatorg er komið býður gesta dagskrá á sviði og hoppukastalar en kaffihlaðborð Kvenfélagsins verður einnig á sínum stað í Sveinatungu.

Skemmtiatriði á sviði og hoppukastalar og kaffisamsæti

Fjallkonan mun koma fram og fara með ljóð á sviði sem verður á göngugötunni, Garðatorgi 4. Þá koma Gunni og Felix fram og Pretty bojtjokko, töframaður og danspartý sem þau Friðrik Agni og Anna Claessen leiða. Dagskráin á sviðinu er miðuð að börnum á öllum aldri og hægt að njóta hvernig sem mun viðra á sjálfan 17. júní enda göngugatan yfirbyggð.

Skátafélagið Vífill mun standa vaktina í hoppukastölum en félagar úr skapandi sumarstörfum bjóða uppá andlitsmálningu og fánasmiðju á Garðatorgi 7.

Þeir gestir sem ekki vilja hoppa eða dansa geta spjallað og notið góðra veitinga í Sveinatungu þar sem hið árlega kvenfélagskaffi fer fram.

Bókasafn, Aftur til Hofsstaða og Hönnunarsafn opið gestum

Aðgangur á Hönnunarsafn Íslands verður ókeypis á 17. júní en þar stendur yfir sýningin Hönnunarsafnið sem heimili sem sýnir gripi úr safneign safnsins sem margir kannast við af heimilum í gegnum tíðina, Heimurinn heima sem er sýning á verkum 4. bekkinga í Garðabæ og Nærvera, sýning á endurunnum peysum Ýrúrarí.
Bókasafn Garðabæjar tekur einnig vel á móti gestum með rólegum þrautum og myndum til að lita en bókasafnið getur verið rólegur og notalegur staður til að dvelja á einmitt þegar mikið er um að vera eins og á 17. júní.
Margmiðlunarsýningin Aftur til Hofsstaða verður opin og skemmtileg verkefni liggja frammi en saga Garðabæjar frá landnámi til okkar daga er sögð á nýstárlegan hátt á sýningunni.

Klukkan 20 mun Gleðisveitin Mandólín flytja tónlist frá öllum heimshornum í sal Tónlistarskólans en tónleikarnir eru ókeypis og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir

Gleðisveitin Mandólín í sal Tónlistarskóla Garðabæjar

Klukkan 20 mun Gleðisveitin Mandólín flytja tónlist frá öllum heimshornum í sal Tónlistarskólans en tónleikarnir eru ókeypis og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir. Sveitina skipa Ástvaldur Traustason, harmonikka, Bjarni Bragi Kjartansson, kontrabassi, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, fiðla, Guðrún Árnadóttir, fiðla, Martin Kollmar, klarinett, Óskar Sturluson, gítar og bouzouki og Sigríður Ásta Árnadóttir, harmonikka.

Á efnisskránni er skemmtimúsík í bland við tregatóna frá ólíkum heimshornum en Mandólín sækir óspart í alls kyns menningarheima, syngur og trallar á ólíkum tungumálum, helst þeim sem hún kann ekkert í.
Finnskur tregatangó, líbönsk danssveifla, rússneskur vals og argentínskur tangó er á meðal þess sem sveitin framreiðir að sínum hætti. Að ógleymdu klezmerstuði, bíótónum og sígrænum ballöðum, gömlum og nýjum, sumum í sérstökum tyllidagabúningi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar