Hið margrómaða og glæsilega hátíðarkaffihlaðborð Kvenfélags Garðabæjar verður á sínum stað á þjóðhátíðardaginn, 17. júní nk., en eins og undanfarin ár verður kaffihlaðborðið haldið í Sveinatungu
á Garðatorgi 7.
Kaffihlaðborð kvenfélagsins er ómissandi þáttur af hátíðarhöldunum í Garðabæ enda hlaðborðið yfirfullt af fjölbreyttum tertum og brauðtertum.
Halldóra Björk Jónsdóttir er formaður Kvenfélags Garðabæjar og Garðapósturinn spurði hana hvort kvenfélagskonur væru byrjaðar að undirbúa hátíðarhlaðborðið? ,,Svo sannarlega enda er löng hefð fyrir kaffihlaðborðinu og félagskonur alvanar þegar kemur að slíku hátíðarborði. Við vinnum í góðu samstarfi við bæjarstarfsmenn sem leggja sitt af mörkum við undirbúninginn og við erum afar þakklátar fyrir,” segir hún.
Og það eru jafnvel einhverjar tertur komnar í bakaraofninn? ,,Það kæmi mér ekki á óvart að einhverjar séu byrj-aðar að vinna sér í haginn en sumt meðlæti eins og pönnukökur verður að baka stuttu áður.”
Um 20-25 konur vinna við hátíðarkaffihlaðborðið
Hvað eru margar konur sem koma að hlaðborðinu og hefurðu einhverja hugmynd hvað það eru margar tertur og brauðtertur bornar á borð? ,,Nú þegar hafa fjölmargar félagskonur bæði skráð sig til vinnu og með meðlæti og þær sem ekki komast til að vinna þennan dag, sjá til þess að meðlætið berist okkur. Það má gera ráð fyrir því að um 20-25 konur vinni við kaffið og brauðréttir, tertur, kleinur, pönnukökur og fleira góðgæti telur vel yfir 120 sem við vitum um og svo berst alltaf meira til okkar á sjálfan hátíðardaginn.”
Kvenfélag Garðabæjar er mannúðarfélag
Og kvenfélagskonur gera þetta allt í sjálfboðavinnu en hver er tilgangurinn? ,,Kvenfélag Garðabæjar er mannúðarfélag sem hefur í gegnum tíðina veitt styrki til samfélagsins og er hátíðarkaffið stærsta fjáröflun félagsins.”
Og hafa Garðbæingar verið duglegir að sækja hátíðarkaffið og styðja við ykkar frábæra starf? ,,Það er alveg greinilegt að Garðbæingar kunna vel að meta þessa hefð og eru duglegir að mæta enda mikil hátíðarstemmning að fá sér kaffi með fjölskyldunni og styðja þar með við góð málefni. Félagskonur finna fyrir miklum stuðningi íbúa sem er afar dýrmætt.”
Áhugasamir geta séð gjafa- og styrktarlista á heimasíðu félagsins, kvengb.is
Hvaða verkefni hafið þið helst verið að styðja við í gegnum árin og hvað hafið þið verið að veita í styrki? ,,Á þeim 70 árum sem Kvenfélag Garðabæjar hefur starfað þá hefur það m.a. staðið fyrir uppbyggingu leikvalla, styrkt skóla, sundlaug og menningarlíf, heilsugæslu, aldraða og við Styrktarsjóð Garðasóknar, einnig ýmis félagasamtök svo fátt eitt sé nefnt. Áhugasamir geta séð gjafa- og styrktarlista á heimasíðu félagsins, kvengb.is. Einnig vil ég benda á góða umfjöllun um kvenfélagið í nýjasta blaði Húsfreyjunnar í tilefni af 70 ára afmæli félagsins.”
Er rígur á milli kvenfélagskvenna er kemur að bakstrinum?
Og varðandi hátíðarkaffið, er ekki smá keppni og léttur rígur á milli kvenfélagskvenna þegar kemur að bakstrinum, bæði hver eigi flottustu og bestu kökuna og jafnvel fylgst með hvaða kökur klárast fyrst? ,,Félagskonur leggja metnað sinn í að bjóða upp á það besta og þá það sem þær vita að muni slá í gegn hjá gestum okkar. Við erum svo önnum kafnar við að framreiða, laga kaffi og sinna gestum okkar sem við gerum af mikilli vinnugleði og í góðu samstarfi þannig að við finnum ekki fyrir samkeppninni,” segir hún brosandi og bætir við: ,,Aðalatriðið er að gestir okkar eigi ánægjulega stund og fari glaðir frá borði og þá gerum við það líka.”
Svo má ekki gleyma því að þið leggið ávallt til skautbúning fyrir fjallkonuna ásamt Kvenfélagi Álftaness í samstarfi við Menningar- og safnanefnd Garðabæjar? ,,Já það er rétt, bæði kvenfélögin eiga skautbúning sem hefur verið notaður á 17. júní og þá á tvær fjallkonur sem Menningar- og safnanefnd Garðabæjar velur. Eins og ég gat um þá er mikið og gott samstarf á milli kvenfélagsins og starfsfólks bæjarins sem og á milli þessara tveggja kvenfélaga.”
Skemmtileg kaffihúsastemmning myndast á torginu
Og þið hvetjið að sjálfsögðu alla Garðbæinga til að koma við hjá ykkur og fagna þjóðhátíðardeginum með góðu kaffi og tertusneið? ,,Við tökum vel á móti Garðbæingum sem við hvetjum til að mæta í Sveinatungu eftir skrúðgönguna og fá sér kaffi og bakkelsi. Það hefur myndast skemmtileg kaffihúsa stemmning á torginu fyrir framan Sveinatungu og þar sem svæðið er með glerþaki yfir, þá munum við upplifa sannkallaða sumargleði á 17. júní milli kl. 13:30 og 15:30,” segir hún að lokum.