Gleymdist ekki eitthvað á Kársnesinu?

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Kársnesinu að undanförnu og það er vel. Svæðið iðar af lífi og margt spennandi í gangi, svo eftir er tekið og gróskan er mikil. Hvers vegna hefur slík uppbygging átt sér stað á Kársnesi? Jú vegna þess að fólki líður vel í þessum rótgróna og heillandi hluta bæjarins og þar af leiðandi er hér mikil fólksfjölgun. Ungt fólk sækir í hverfið og því ber að fagna. Flest okkar þekkja það af eigin raun hve góður kostur Kópavogur er fyrir fjölskyldur. Þar höfum við verið í fararbroddi og gefum okkur út fyrir að vera barnvænt samfélag. Þetta skiptir unga fólkið sem sækir í Kársnesið miklu máli og kemur til með að skipta næstu kynslóðir sömuleiðis máli.

Þess vegna þarf að hugsa jöfnuna til enda. Það má ekki gleyma að samhliða uppbyggingu og fjölgun fólks, þarf að tryggja uppbyggingu innviða. Þetta þarf að haldast í hendur. Það virðist þó ekki hafa gengið sem skyldi á Kársnesinu því við stöndum frammi fyrir því að leikskólarýmin eru á þrotum og biðlistarnir inn á leikskólana á Kársnesinu eru óeðlilega langir. Leikskólarnir á svæðinu ná varla að anna tveggja ár gömlum börnum þrátt fyrir að Kópavogur geti boðið átján mánaða gömlum börnum leikskólarými. Það er ekki hægt að bjóða börnunum upp á pláss í hverfinu þeirra. Er það svo barnvænt samfélag?

Hvernig stendur á því að svona er í pottinn búið? Ástæðan er einföld. Uppbygging þeirra leikskóla sem eru á skipulagi hefur ekki verið sett í viðeigandi forgang. Það á að vera algjört forgangsatriði að hugsa um börnin okkar í allri uppbyggingunni og endurnýjuninni á Kársnesi. Ferlið sjálft hefur tekið allt of langan tíma, þetta hefur farið hægt í gegnum kerfið og hindranir í ákvörðunum og framkvæmdum eru með öllu óskiljanlegar. Við þurfum snarlega að breyta þessu og setja þessa nauðsynlegu inniviði í forgang, svo bæjarfélagið geti byggst upp í takti við samfélagið.

Það að foreldrar geti fengið þessa þjónustu í sínu nærsamfélagi er algjör grunnforsenda fyrir því að Kársnesið geti haldið áfram að byggjast upp sem eftirsóknarverður kostur fyrir fjölskyldur. Það er ekki síður algjört lýðheilsumál að takmarka þann tíma sem foreldrar þurfa að verja í að skutlast með börnin í og úr leikskólanum. Í beinu framhaldi er lykilatriði að systkinaforgangur verði virkjaður aftur svo að foreldrar séu ekki að fara bæjarhluta á milli með börnin. Þetta er margþættur vandi sem leiðir af sér fjölmörg önnur vandamál á sviði samgöngu- og umhverfismála.

Hér þarf að grípa til aðgerða og það ætlar Framsókn að gera. Við viljum sjá skilvirkara kerfi, fjölskylduvænni stefnu sem stuðlar að því að virkilega sé hugað að uppbyggingu innviða í takt við það sem samfélagið þarf.

Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri og frambjóðandi Framsóknar í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar