Gleðilega hátíð 

Desember er mánuður samveru með fjölskyldu og vinum en um leið er í nógu að snúast áður en jólahátíðin gengur í garð. Það er einmitt ekki síst á jólum og áramótum sem við sköpum góðar minningar með ástvinum. Bærinn skartar sínu fegursta og jólaljósin um allan bæ lýsa upp skammdegið. Í ár bættum við enn í jóla- og skammdegislýsingu hjá Kópavogsbæ en bæjarbúar taka ekki síður þátt í að lýsa upp myrkrið með fallega skreyttum húsum. 

Árið 2023 var fyrsta heila árið mitt sem bæjarstjóri Kópavogs, árið hefur verið mjög viðburðaríkt, þó einnig krefjandi á köflum en umfram allt skemmtilegt. Ég er mjög stolt af þeim verkefnum sem við höfum þegar ýtt úr hlaði og sömuleiðis af þeim verkefnum sem við höfum haldið áfram að sinna af elju.  
Mikið af verkefnum sveitarfélaga eru lögbundin en áherslur eru þó ólíkar á milli bæjarfélaga. Hjá Kópavogsbæ er mikill metnaður lagður í leik- og grunnskóla, þjónustu við íbúa á öllum aldri og uppbyggingu innviða til að mæta þörfum bæjarbúa. Við höfum lagt mikinn metnað í umhverfið, græn svæði og gróður, með því eflum við lýðheilsu og vellíðan íbúa.

Þá höfum við gætt aðhalds í rekstri og lagt áherslu á að skila ábatanum í lægri álögum sem allir bæjarbúar njóta góðs af. Þannig munu fasteignaskattar lækka á næsta ári til að koma til móts við hækkandi fasteignaverð sem ella hefði skilað bæjarsjóði enn hærri skattheimtu með tilheyrandi kostnaði fyrir íbúa. 
Mikilvægt er að innviðir mæti þörfum bæjarbúa og eru umfangsmiklar framkvæmdir á vegum bæjarins áformaðar á næstu árum eins og í skólum og íþróttamannvirkjum. Þá verður lögð áhersla á viðhald mannvirkja en eins og dæmin sanna er mikilvægt að sinna þeim vel. Nýjasta hverfið í Kópavogi er Vatnsendahvarf en hafist verður handa við úthlutun lóða og uppbyggingu í hverfinu á næsta ári. 

Á árinu sem er senn að líða eru nokkur verkefni sem mig langar að tilgreina sérstaklega.  

Í leikskólunum settum við af stað starfshóp til að greina skipulag og starfsumhverfi leikskóla með það að markmiði að móta tillögur sem draga úr veikindum og manneklu sem hafa einkennt leikskólaumhverfið í alltof langan tíma. Niðurstaðan var að auka verulega sveigjanleika í dvalartíma barna, tekjutengja leikskólagjöld og bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir sex tíma eða styttri vistun barna.

Þessar breytingar hafa skilað góðum árangri, vistunartími barna hefur styst og mönnun gengur mun betur en undanfarin ár. Leikskólabörn upplifa minna álag og meiri stöðugleika í þjónustunni. Þá er ánægjulegt að segja frá því að frá því breytingarnar tóku gildi hefur ekki þurft að grípa til lokana á leikskólum bæjarins sökum veikinda starfsfólks en til samanburðar voru 212 lokunardagar í fyrravetur.  

Við þurfum að vera óhrædd við breytingar, við sem gegnum forystu í bænum höfum haft það að leiðarljósi í starfi okkar. 

Í menningarmálum bæjarins höfum við verið að endurskoða starfsemina með það að leiðarljósi að bjóða upp á nýja og spennandi valkosti sem uppfylla þarfir og væntingar bæjarbúa og annarra gesta. Áformað er að setja upp nýtt upplifunar- og fræðslurými á fyrstu hæð bókasafnsins en í vor var leitað samráðs við íbúa og komu fram margar skemmtilegar hugmyndir sem hefur verið unnið úr.

Áherslur í starfsemi Náttúrufræðistofu hafa jafnframt tekið breytingum og er nú unnið að gerð nýrrar grunnsýningar sem ætlað er að stuðla að auknu náttúrulæsi og tengja náttúruvísindi við ólík fræðasvið og listgreinar. Húsnæði Náttúrufræðistofu sem er á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs mun loka tímabundið meðan á framkvæmdum stendur en ég veit að íbúar og aðrir verða ekki sviknir af niðurstöðunni. 

Salurinn er eitt af örfáum húsum á landinu sem er byggt sérstaklega til tónlistarflutnings og mikil tækifæri til að efla enn frekar þann vettvang með fjölbreyttari viðburðum.  

Mikilvægt er að við hlúum áfram vel að andlegri og líkamlegri heilsu í bænum fyrir alla bæjarbúa á öllum aldurskeiðum. 

Verkefnið Virkni og vellíðan sem er heilsuefling eldri íbúa bæjarins hefur gengið vonum framar og mikil ánægja meðal þátttakenda. Þá hafa mælingar sýnt mikinn árangur í bættri líðan líkamlegri, andlegri og félagslegri. Á árinu var aukið fjármagn sett í verkefnið til að efla enn frekar starfsemina. Á afmælisdegi Kópavogsbæjar, 11.maí síðastliðinn, var efnt til fyrstu göngukeppni á Íslandi undir merkjum “Virkni og vellíðan.” Þátttakan var umfram væntingar og gaman að sjá bæjarbúar úr nærliggjandi sveitarfélögum mæta til leiks.  

Kópavogur er bær barnanna og fékk viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag árið 2021. Hagsmunir og réttindi barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa því verið hafðir að leiðarljósi í starfi okkar. Undanfarin ár hefur verið lögð sérstök rækt við verkefni sem tryggja að raddir barna heyrist og má þar nefna til dæmis Skólaþing og í framhaldinu Barnaþing og fund barna með bæjarstjórn.  

Þá er ekki síður mikilvægt að styðja við ungmenni okkar en breytingar voru gerðar á starfi Molans, miðstöðvar unga fólksins, á árinu. Lögð verður meiri áhersla á ráðgjöf og stuðning við aldurshópinn 16-25 auk viðburða, námskeiða og skapandi vinnu.  

Að lokum vil ég minnast þess að lokum að árið 2023 er árið sem Kópavogsbúar urðu 40.000. Það var einstaklega skemmtilegt að heilsa upp á nýfæddan íbúa í tilefni þessara tímamóta.

Árið er senn á enda og fram undan viðburðaríkt ár þar sem áfram verður á nægu að taka.

Ég sendi mínar bestu kveðjur um gleðilega jólahátíð og óskir um farsæld á nýju ári.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar