Hátíðarkveðja frá bæjarstjóra

Á dögunum sat ég og hlustaði á um 100 ungmenni ræða saman um málefni bæjarins.  „Hvernig get ég haft áhrif- hvernig getum við haft áhrif saman,“ var umræðuefni þeirra á ungmennaþingi. Þá hvarflaði að mér að við værum að ala af okkur kynslóð af kröfuhörðu en lausnamiðuðu ungu fólki sem myndi taka virkan þátt í því að gera Garðabæ sífellt betri. Ég hafði ekki efast áður, en þarna sannfærðist ég enn betur um að framtíðin er björt í Garðabæ.
 
Ég hef haft einstaklega gott og gaman að því að eiga í virku samtali við bæjarbúa á þessu ári. Ég hef lagt mikið upp úr því að skapa okkur vettvang til að „eiga samtalið“ eins og það kallast. Þetta höfum við gert á íbúafundum, á fundum með starfsfólki bæjarins og haghöfum, á hinum ýmsu viðburðum og svo framvegis. Þessi samskipti eru mér og mínu samstarfsfólki mjög mikilvæg og ekki síst þau samtöl sem ég hef átt við yngri kynslóð bæjarins um það hvernig þau sjá framtíðina í bænum fyrir sér hvort heldur sé á formlegum fundum eða t.d. við það að tendra ljósin á jólatrénu okkar á Garðatorgi. Ég er líka þakklátur fyrir kraftmikið samfélag eldri borgara í bænum, sem einkennist af miklu félagslífi, heilsueflandi áherslum og samkennd.  
 
Það hefur verið í mörg horn að líta á árinu – við höfum staðið í ströngu við endurbætur á skólahúsnæðinu okkar og einnig staðið í mikilli uppbyggingu á skólahúsnæði í Urriðaholti. Við opnuðum nýjan glæsilegan búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Brekkuási og undanfarnar vikur hafa íbúar þar verið að koma sér fyrir, sem er einkar ánægjulegt. Við stöndum í metnaðarfullum breytingum á fyrirkomulagi leikskólamála sem mun auka öryggi og gæði í þjónustunni fyrir yngsta fólkið okkar. Dagdvalarrýmum á Ísafold verður fjölgað um 10 sem er langþráður áfangi. Þá verð ég að minnast á uppbyggingu nýrra hverfa og uppbyggingu í þeim eldri. Mjög vel hefur gengið að selja lóðir í Hnoðraholti og byggð er í þann mund að byrja að rísa þar og í Vetrarmýri. Þá bjóðum við velkomna nýja íbúa á Álftanes en þar fjölgar íbúum talsvert. Þar búum við svo vel að eiga sterka innviði en munum að sjálfsögð bæta við leik- og grunnskólaþjónustu eftir þörfum.
 
Að vanda hefur íþróttalíf bæjarins blómstrað. Mér hlotnaðist sá heiður að slá fyrsta höggið á Íslandsmótinu í golfi á Urriðavelli í sumar. Þetta er sennilega í síðasta skipti sem um það lágstemmda högg verður fjallað, en mótið var stórglæsilegt. Nú eigum við Garðbæingar tvö lið í efstu deild karla í körfubolta. Fyrsta „baráttan um bæinn“ var háð í Ásgarði þann 1. desember og fóru Álftnesingar með sigur af hólmi. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu í þessum rimmum. 
 
Ekki má gleyma því að við höfum átt fjölmargar góðar samverustundir í bænum okkar þar sem menning og mannlíf hafa blómstrað. Það mikil stemmning í frábæru Jazzþorpi í vor, Rökkvuhátíðin í haust var frábærlega heppnuð undir stjórn okkar unga og flotta listafólks. Aðventuhátíðin okkar núna í desember dró að sér fjölda fólks, þar blómstraði verslun á torginu og frábærir listviðburðir voru í boði. Það er ástæða til að nefna sérstaklega metnaðarfulla dagskrá á bókasafninu okkar þar sem yngsta fólkið okkar skemmti sér konunglega. Og nú fagnar Bókasafn Garðabæjar 55 ára afmæli og við óskum þeim og okkur til hamingju. Frábærir fulltrúar Garðabæjar og Garðaskóla kepptu með frábærum árangri fyrir hönd íslands í First Lego League keppninni í Danmörku. Þau stefna enn lengra og það er afskaplega gaman að fylgjast með þeim.
 
Við hefjum nýja árið af sama krafti, byrjum á því að heiðra íþróttafólk bæjarins og bryddum samhliða því upp á nýmæli, en frábær hugmynd barst til mín frá íbúa á dögunum. Sú lagði til að við myndum velja og heiðra góðan Garðbæing fyrir jákvætt framlag í hversdaginn okkar. Við höfum reglulega talað um félagsauðinn í Garðabæ, en hér búa og starfa fjölmargir sem gefa mikið af sér til samfélagsins og glæða það fallegum litum. Öll getum við haft áhrif til góðs á nærumhverfi okkar og með því að útnefna „Garðbæinginn okkar“ erum við að þakka fyrir það sem vel er gert, þakka einstaklingi fyrir sitt framlag, þeim sem eru til fyrirmyndar á einhvern hátt og minna okkur á að við getum öll haft jákvæð áhrif hvert á okkar hátt.
 
Kæri Garðbæingur, ég vona að nýja árið verði þér og okkur í bænum farsælt. Ég sendi þér og þínu fólki hlýjar hátíðarkveðjur og  hlakka til að halda samtalinu áfram á komandi ári.
 
Almar Guðmundsson
Bæjarstjóri Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar