Freyja hefur átt sínar hæðir og lægðir

Kvenframsóknarfélagið Freyja fagnaði sextugsafmælinu þann 22. apríl síðastliðinn. Í raun varð félagið sextugt þann 5. apríl, en afmælinu var frestað vegna dymbilviku.

Hátíðargestur á fundinum var Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir þingkona og formaður Freyju, Ólöf P. Úlfarsdóttir flutti hátíðarræðu um félagið af þessu tilefni sem fer hér á eftir.

Freyjur vildu styðja betur við félagsstarfið í Kópavogi

,,Mér er það mikil ánægja og heiður að fá að segja frá Kvenframsóknarfélaginu Freyju sem er orðið 60. ára. Það hefur nú starfað í sextíu ár, sem er langur tími. Freyja hefur haft sínar hæðir og lægðir. Hæstu hæðir voru þegar Freyja var stofnuð þann 5.apríl 1963 af 54 konum, öllum búsettum í Kópavogi. Hvers vegna var Kvenfélagið Freyja stofnuð? Ein af ástæðunum skv. tímaritinu Birtu var að Freyjur vildu styðja betur við félagsstarfið í Kópavogi. Á þessum árum voru konur almennt heimavinnandi, þeirra vettvangur var heimilið. Því voru konur á þeim tíma ekki beinir þátttakendur í pólitísku starfi. Því var það liður í stofnun Freyju að tryggja jafnrétti kynjanna, skv. sömu heimild. Þáttur Freyjukvenna varð meiri og kom að því að árið 1969 var fyrsta konan kosin formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Kópavogi. Ef tala mætti um lægðir í starfi Freyju þá varð mikil breyting á högum kvenna er þær fóru út á vinnumarkaðinn. Að vinna utan heimilis og bera síðan ábyrgð á heim- ilinu hefur verið erfitt. Sem betur fer er breyting í samfélaginu og núna reyna öll kynin að leggja sig fram við heimilishaldið, uppeldi barna og þrif og innkaup. En þetta hefur skilað því að færri sjá sér fært að vera í kvenfélagi og starfa í sjálfboðavinnu og er það skiljanlegt í ljósi nútíma hraða. Samfélagsmiðlar hafa tekið við hinu félagslega hlutverki að hluta. En enginn getur tekið það frá félögum að það að hittast og hafa gaman saman er langmikilvægasti hlutinn. Kvenfélög úti á landi virðast dafna betur og vaxa heldur en kvenfélög í þéttbýlinu og væri gaman að það yrði rannsóknarefni.

Freyjur í Kópavogi áttu þátt í að stofna Kvenfélagasamband Kópavogs ásamt öðru kvenfélagi í Kópavogi, og starfar það Kvenfélagasamband fram á þennan dag. Með því er Kvenfélagið Freyja aðili að Kvenfélagasambandi Íslands eða KÍ. KÍ var stofnað til að kvenfélög landsins ættu sér samstarfsvettvang og málsvara. KÍ stendur fyrir fjölda námskeiða og ýmis konar fræðslu fyrir kvenfélögin og skemmtanir. Síðast en ekki síst hafa Freyjur tekið þátt í mæðrastyrksnefnd í Kópavogi sem sér um að úthluta mat og fatnaði til Kópavogsbúa sem á því þurfa að halda. Starfið er sjálfboðaliðastarf og vinna þær ásamt öðru kvenfélagi í Kópavogi mjög óeigingjarnt starf. Þarna er hægt að fyllta poka af fatnaði og mat. Allir geta allir gefið föt til mæðrastyrksnefndar en félagskonur flokka þau í sjálfboðavinnu. En ekki nóg með það heldur er Freyja í orlofsnefnd í Kópavogi í samstarfi við annað kvenfélag. Þær skipuleggja orlofsferðir fyrir kvenfélagskonur og aðrar sem vilja fara með. Þetta starf er líka sjálfboðaliðastarf og krefst mikils undirbúnings. Það er Kvenfélagasamband Kópavogs sem heldur utan um þessar tvær nefndir, mæðrastyrksnefnd og orlofsnefnd. Formaðurinn þar í dag er Freyjukonan, Þórunn Matthíasdóttir.

Stjórn Freyju 2023. F.v. Hulda Jóhannesdóttir (varamaður), Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir (varamaður), Sigrún Ingólfsdóttir (meðstjórnandi), Ólöf P. Úlfarsdóttir (formaður), Guðrún Viggósdóttir (ritari), Margrét Sigumdsdóttir (varaformaður), Svava H. Friðgeirsdóttir (gjaldkeri).

Freyjukonur hafa gegnum tíðina haldið marga fræðslufundi fyrir félaga og gesti þeirra og staðið fyrir mörgum viðburðum, jólagleði, góugleði, og ýmsum kynningum. Einnig tökum við þátt í ýmsum söfnunum hjá KÍ eins og átakinu „Gjöf til allra kvenna á Íslandi, til söfnunnar á tækjakostnaði til að stuðla að bættri heilsu kvenna um allt land.

Margar Freyjukonur hafa starfað í nefndum fyrir Kópavog og er svo enn í dag. Það er þörf fyrir kvenfélög í dag, því oft vilja konur taka þátt í ákvörðunum um umhverfi sitt og velferð í samfélaginu. Kvenfélagið Freyja heldur því áfram að vinna við góðgerðastörf og sinna sínu pólitíska hlutverki.”

Í dag sitja í stjórn: Ólöf P. Úlfarsdóttir formaður, Margrét Sigmundsdóttir varaformaður, Guðrún Viggósdóttir ritari, Svava Friðgeirsdóttir gjaldkeri og Sigrún Ingólfsdóttir meðstjórnandi. Varamenn eru Þórunn Matthíasdóttir og Hulda Jóhannsdóttir.

Forsíðumynd: Fyrsta stjórn Freyju. Fremri röð frá vinstri, Hólmfríður Gestsdóttir, ritari, Katrín Oddsdóttir, formaður, Kristín Ísleifsdóttir, gjaldkeri. Aftari röð frá vinstri, Ragnar Sigurðardóttir, Guðný Anna Eyjólfsdóttir, Birna Árnadóttir, Hansína Þorkelsdót-tir, sem allar voru meðstjórnendur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar