Frábært boðhlaup í Kópavogi

Boðhlaup BYKO verður haldið í fyrsta sinn í Kópavogsdalnum 30. júní. Hlaupið er einn viðburður af fjórum í Íþróttaveislu UMFÍ og haldið í tilefni af 100 ára afmæli Ungmennasambands Kjalarnesþings. Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri sambandsins, hlakkar gríðarlega til hlaupsins sem á sér engan líka á Íslandi.

„Boðhlaup BYKO verður frábær byrjun á sumarfríinu hjá mörgum. Ég er með miklar væntingar til hlaupsins. Það verður feiknamikið fjör. Við erum búin að teikna upp mjög flott umhverfi fyrir allskonar hlaupara, bæði vana og óvana við Fífuna. Þarna verður heilmikið stuð, plötusnúður heldur fjörinu í gangi á meðan hlauparar spretta úr spori,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).
UMSK er sambandið yfir fjölmörgum íþrótta- og ungmennafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á emðal eru Stjarnan í Garðabæ, Afturelding í Mosfellsbæ, Grótta á Seltjarnarnesi, HK, Gerpla og Breiðablik. Félagið fagnar 100 ára afmæli á árinu og var því upplagt að halda upp á það með íþróttaveislu í samvinnu við Ungmennafélag Íslands. Boðhlaupið er fyrsti viðburðurinn og síðan koma hinir þrír, Drulluhlaup Krónunnar í Mosfellsbæ, Hundahlaup á Seltjarnarnesi og Forsetahlaup á Álftanesi.

Risastór hlaupaviðburður

Valdimar segir hugmyndina að boðhlaupinu hafa kviknað þegar hann var í Álaborg í Danmörku fyrir nokkrum árum. Hann var á gangi þar í borg og tók eftir gríðarlegum fjölda fólks í íþróttafötum safnast saman á einum stað. Hann fór að kanna málið og komst að raun um að þarna fór fram fyrirtækjaboðhlaup DHL sem hefur verið haldið í mörg ár.
„Stemningin var svakalega góð, allir að skemmta sér og hafa gaman af því að hreyfa sig. Þetta er einn stærsti almenningsíþróttaviðburðurinn í heimi og taka tugþúsunidir hlaupara þátt í honum. Þarna nýta margir vinnufélagar, vinahópar og hlaupahópar tækifærið til að hrista sig saman fyrir sumarið og hlaupa saman. Ég fór strax að leggja grunn að hlaupi eins og þessu á Íslandi,“ segir Valdimar sem leitaði til BYKO enda margir sem tengja það við Kópavog. Byko hefur auk þess stutt vel fyrir íþróttastarfið í bæjarfélaginu og þar er fólk á fullu að gera allt klárt fyrir hlaupið.
Útkoman er Boðhlaup BYKO sem verður í Kópavogi í lok júní. Það er á fínum tíma, eftir vinnu á fimmtudegi og lýkur um klukkan 21.

Hlaupaleiðin í boðhlaupinu merkt með bláu

Vísir að bæjarhátíð

„Í boðhlaupinu er áhersla á gleði og hlaupaánægju auk gleðinnar sem felst í því að vera í hópi,“ segir Valdimar og bendir á að fjórir hlauparar eru í hverjum hópi. Hver þeirra hleypur 4 kílómetra hring í Kópavogsdal með boðhaupskefli. Keflið þarf að afhenda næsta manni áður en hann getur farið af stað. Á meðan hlaupari er að spretta úr spori bíða vinir hans og vinkonur og skemmta sér við Fífuna en þar er bæði rás- og endamark hlaupsins. Nóg verður um að vera á meðan hlaupi stendur og eftir hlaupið. Plötusnúður heldur fjörinu upp og verða matarvagnar á svæðinu og boðið upp á allskonar hressandi veitingar. Hlauparar og stuðningsfólk getur skemmt sér saman í tjöldum sem verða á svæðinu og notið stundarinnar.
„Við sem stöndum að hlaupinu vonum að þetta verði reglulegur viðburður, mögulega haldið árlega og verði vísir að bæjarhátíð í Kópavogi,“ segir Valdimar Gunnarsson sem hlakkar til að sjá sem flesta í Boðhlaupi BYKO í lok júní.

Skráning er í fullum gangi á hlaup.is og þar má finna allar nánari upplýsingar um hlaupið á bodhlaup.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar