Draumurinn orðinn að veruleika

Brynja Dan Gunnarsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins náði kjöri í bæjarstjórn Garðabæjar í kosningunum á laugardaginn, en þetta er í fyrsta skipti frá kosningunum 2002 sem Framsóknarflokkurinn nær inn manni í bæjarstjórn þegar flokkurinn býður fram undir eigin nafni.

Þú ert væntanlega ánægð með árangurinn? ,,Hvort ég er. Þetta var markmiðið og því er náð. Við settum allt okkar í þessa baráttu og erum gríðalega sátt með árangurinn,” segir Brynja Dan.

Var stefnan sett á að ná manni inn eða voruð þið að vonast eftir að ná Hlyni Bærings inn líka? ,,Komandi úr 3% í kosningunum 2018 var stefnan að ná manni inn, allt annað var plús. Auðvitað hefði það verið frábært en við vissum að þetta væri brekka hér í Garðabæ þar sem við höfum ekki átt mann inni lengi og því var markmiðið okkar að ná inn einum, sem við gerðum. Við erum þar af leiðandi komin með grunn til að byggja á og ég efast ekki um að Framsókn hér í Garðabæ mun bara stækka.”

En hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn nær nú inn manni í Garðabæ eftir mörg mögur ár? ,,Það er líklega samspil margra þátta. Framsókn á landsvísu hefur auðvitað verið á siglingu síðan í alþingiskosning-unum og sá meðbyr var ennþá sterkur fyrir þessar kosningar. Svo held ég að fólk kjósi alltaf meira og meira að vera á miðjunni. Að vera ekki með öfga til hægri eða til vinstri. Við erum flokkur sem getur unnið með öllum og við tölum fyrir skynsömum lausnum. Listinn okkar er algjörlega framúrskarandi og við settum allt okkar í þessa baráttu og erum að uppskera eftir því.”

Hvernig líst þér svo á að setjast í bæjarstjórn og hverjar verða helstu áherslur þínar? ,,Það var draumurinn og nú er hann orðinn að veruleika. Þetta er nýr starfsvettvangur sem ég hlakka mikið til kynnast og læra inná.
Við höfum talað mikið fyrir því að fjárfesta í fólki og gera Garðabæ að fjölskylduvænu samfélagi. Ég mun gera mitt allra besta til þess að koma þeim sjónarmiðum að og vinna í átt að því. Það er hagur okkar allra að hér geti allir blómstrað, að við hlúum enn betur að börnunum okkar og umhverfi þeirra,” segir Brynja.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar