Tilbúinn að setjast í stól bæjarstjóra

Sjálfstæðisflokkurinn heldur meirihluta sínum í Garðabæ, en flokkurinn tapaði einum manni í sveitarstjórnar-kosningunum 11. maí sl. og er nú með sjö bæjarfulltrúa í stað átta.

Þú ert væntanlega ánægður með góðan sigur þrátt fyrir að flokkurinn hafi misst bæjar-fulltrúa og töluvert fylgi? ,,Já, við erum ánægð með þann trausta stuðning sem við hlutum og göngum inn í nýtt kjörtímabil með sjö öfluga bæjarfulltrúa, þar sem blandast vel saman reynsla og nýjar áherslur. Það er vissulega rétt að við missum einn mann og fylgið var meira 2018. Í gegnum tíðina hefur það verið þannig að fylgi Sjálfstæðisflokksins sveiflast milli kosninga eins og gengur og alltaf einhverjir sem greina ástæður fyrir því. Meginmálið er þó það að íbúar treysta okkur til góðra verka við stjórnun bæjarins eins og áður hefur verið. Nú er það okkar að rísa undir trausti og væntingum íbúanna. Það er spennandi verkefni,” segir Almar.

Erum heppin að eiga öflugt og gott starfsfólk

Nú er Gunnar bæjarstjóri að hætta og rætt var um það í prófkjöri ykkur í febrúar að ekki væri eingöngu kosið um oddvita flokksins heldur einnig um bæjarstjórefni hans. Munt þú setjast í stól bæjarstjóra Garðabæjar og ertu tilbúinn í það verkefni? ,,Nú er framundan fyrsti bæjarstjórnarfundur á nýju kjörtímabili þann 2. júní. Þar mun ný bæjarstjórn kjósa í embætti og tillaga um ráðningu í embætti bæjarstjóra verður tekin fyrir. Ég er tilbúinn að setjast í stól bæjarstjóra og tel mig hafa góða reynslu og breiða þekkingu til að takast á við það verkefni. Ég hlakka til að takast á við það en ég vil nálgast verkefnið af ábyrgð en um leið af auðmýkt. Það felst mikil ábyrgð í því að stýra stóru fyrirtæki eins og Garðabær er í raun og veru og sama má segja um að leiða langstærsta aflið í bæjarstjórn. Þetta snýst allt fyrst og fremst um að leiða fólk áfram í átt að markmiðum og að undirbyggja góða samvinnu um verkefnin. Við erum heppin að eiga mjög öflugt og traust starfsfólk hjá sveitarfélaginu og það skiptir miklu máli að þau séu ánægð og jákvæð í sínum störfum. Ég tel líka að Garðbæingar séu lánsamir með öfluga sveit bæjarfulltrúa, hvort sem þeir eru í meiri- eða minnihluta.”

Ekki allar fullyrðingar í takti við staðreyndir

En hvernig fannst þér kosningabaráttan vera í Garðabæ, góð og heiðarleg? ,,Það var mikill kraftur í kosningabaráttunni. Það voru fjögur framboð auk okkar og mér fannst heilt yfir meiri kraftur yfir baráttunni en síðustu tvennar kosningar á undan. Allir frambjóðendur vilja auðvitað ekkert annað en hið besta fyrir Garðabæ og þess vegna er ánægjulegt að framboðin voru mörg. Baráttan var í heild góð og heiðarleg, en á köflum bar svolítið á fullyrðingum sem voru ekki alveg í takti við staðreyndir. Það veldur hver á heldur í því. Ég tel reyndar að það sé þörf á því að efla upplýsingagjöf og miðlun til íbúa og mun leggja áherslu á það. Þannig ætti um-ræðan að eflast enn frekar og byggja betur á staðreyndum.”

Og hver verða nú fyrstu verkefni flokksins á komandi kjörtímabili, hvað er mest aðkallandi? ,,Við lögðum fram skýr fyrirheit um hverju við viljum koma í verk á tímabilinu. Við ætlum m.a. að leggja sérstaka áherslu á samgöngumál innan bæjarins með uppbyggingu stíga og vegtenginga milli bæjarhluta. Við munum halda áfram þeirri uppbyggingu sem á sér stað á leik- og grunnskólum og samfara því þarf að efla faglegt starf og tryggja mönnun. Það verður líka spennandi að vinna að endurbótum á miðbænum á Garðatorgi og ýta undir fjölbreyttara mannlíf í bænum. Við viljum efla samstarf við fjölbreytta flóru frjálsra félaga og svo mætti lengi telja. Það verður líka sérstök áhersla á að efla alla miðlun á upplýsingum til bæjarbúa og auðvitað að fjölga betur og nýta samtöl við bæjarbúa um áherslur og framgang mála,” segir verðandi bæjarstjóri Garðabæjar, Almar Guðmundsson.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar