Fjör á sumarlestrargleði

Gunnar Helgason rithöfundur kíkti við á Bókasafn Kópavogs í sumarlestrargleði safnsins. Var gleðin haldin í tilefni af upphafi sumarlesturs. Las hann upp úr nýrri bók sinni, Hanni granni dansari sem er sjötta bókin í sagnaflokknum um Stellu og fjölskyldu hennar. Lofar bókin góðu ef marka má viðbrögð áheyrenda sem lýstu ánægju sinni með upplesturinn með flissi og hlátri. Vildu þau ólm að Gunnar myndi halda lestrinum áfram þar sem upplesturinn endaði á mjög spennandi stað og eru án efa nokkur börn þegar búin að kíkja í bókabúðina til að fá bókina strax í hendur.

Undanfarið hafa einnig fyrstu bekkingar sótt safnið heim í kynningu á safninu og á sumarlestrinum og hefur sannarlega verið mikið líf og fjör í kringum brosandi og útitekin 6 ára börn. Aðalsafn og Lindasafn eru opin í allt sumar og starfsfólk safnanna alltaf boðið og búið til að aðstoða notendur við að finna réttu bókina. Sjá má allar upplýsingar um sumarlesturinn á heimasíðu bókasafnsins og á Facebook-síðunni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar