Anna Ólafsdóttir Björnsson er listamaður júnímánaðar í Bókasafni Garðabæjar

Anna Ólafsdóttir Björnsson er listamaður júnímánaðar 2022 í Bókasafni Garðabæjar, samstarfsverkefni bókasafnsins og myndlistarfélagsins Grósku í Garðabæ.

Anna verður með móttöku fimmtudaginn 2. júní 2022 kl. 17-19. Allir velkomnir.

Anna er fædd í Reykjavík 1952. Hún hefur nær eingöngu fengist við vatnslitamálun undanfarin þrjú ár, en vann áður einkum í olíu og grafík.

Hún hefur fjölbreytta menntun í myndlist, fór í Myndlista- og handíðaskólann að loknu stúdentsprófi en hætti þar eftir tveggja ára nám og ætlaði ekki að leggja myndlistina frekar fyrir sig. Það gekk ekki eftir og nokkrum árum síðar hóf hún nám við Myndlistarskólann í Reykjavík og nam meðal annars hjá Valgerði Bergsdóttur, Ingólfi Erni Arnarssyni, Hring Jóhannessyni, Sigrúnu Guðmundsdóttur og Helga Þorgils Friðjónssyni. Hún tók virkan þátt í starfi Dægradvalar á Álftanesi, sem stóð fyrir myndlistarsýningum og -námskeiðum um árabil. Hún er meðal stofnfélaga í Grósku í Garðabæ og Vatnslitafélagsins. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum.

Frá því Anna sneri sér alfarið að því að glíma við vatnslitatækni hefur hún verið virk í starfi Vatnslitafélagsins og unnið með vatnslitahópum innan þess. Hún hefur sótt námskeið hjá Keith Hornblower (2019) og Alvaro Castagnet (2022).

Anna er þess utan sagnfræðingur og tölvunarfræðingur að mennt og hefur lokið meistaraprófi í báðum greinum frá Háskóla Íslands. Hún er einnig með BA-gráðu í almennri bókmenntasögu og var með fastan bókmenntaþátt í útvarpi skömmu eftir að hún útskrifaðist. Hún fékkst einkum við blaðamennsku og útvarpsþáttagerð, sagnfræðirannsóknir og bókaskrif á sviði sagnfræði á fyrri hluta starfsævinnar og tók aftur upp þráðinn fyrir nokkrum árum. Meðal bóka sem hún ritaði var Álftaness saga (1996) og Tölvuvæðing í hálfa öld (2018). Hún sat á þingi fyrir Kvennalistann 1989-1995 og var í hreppsnefnd á Álftanesi 1986-1989. Á seinni hluta starfsævinnar söðlaði hún um og sneri sér að raungreinum. Hún hefur unnið við hugbúnaðargerð síðustu tvo áratugina auk þess að sinna myndlistinni. Þá hefur hún skrifað tvær glæpasögur og sú síðari ber sama nafn og þessi sýning, Óvissa, og kom út í maí síðastliðnum.

www.annabjo.com

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar