Erum mjög ánægð að stíga þetta fyrsta skref

Kópavogur er fyrst sveitarfélaga á landinu til að bjóða upp á helgaropnun í félagsmiðstöðvum eldri borgara sem er vel, en fyrsta opnunin var sl. laugardag í Gullsmára.

Svara ákallinu

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi er ánægð með að þetta verkefni sé komið af stað og að Kópavogsbær sé fyrst sveitarfélaga til að taka þetta skref? ,,Við erum mjög ánægð með að stíga þetta skref og teljum þörf á. Þegar ég heimsótti félagsmiðstöðvar fyrr í vetur heyrði ég svo sterkt ákall þess efnis að bjóða uppá einhverja þjónustu um helgar til að draga úr einmannaleika. Við eru að svara því ákalli,” segir Ásdís.

Er mikill kostnaður að hafa félagsmiðstöðvarnar opnar um helgar eða borgar þetta sig starx til baka með bættri andlegri heilsu eldri borgara? ,,Ef vel tekst til og við sjáum bætta andlega og líkamlega heilsu þá er kostnaðurinn óverulegur í því samhengi. Við erum fyrst og fremst að stíga skrefið til að bæta líðan eldri bæjarbúa.”

Og þetta er tilraunaverkefni enda Kópavogur fyrst sveitarfélaga til að opna dyrnar að félagsmiðstöðvum bæjarins um helgar. Kemur til greina ef vel gengur að bjóða upp á fleiri opnanir um helgar? ,,Við ákváðum að fara af stað með tilraunaverkefni og bjóða uppá einn laugardag í hverri félagsmiðstöð á mánuði. Mögulega getum við farið í samstarf með félag eldri borgara í Kópavogi eða eldra fólk í Kópavogi í náinni framtíð og boðið uppá fleiri viðburði.”

Og það geta allir eldri borgara í Kópavogi nýtt sér þessa helgaropnuna sama hvaða félagsmiðstöðvar þeir sækja dags daglega og hvar þeir búa í Kópavogi? ,,Já félagsmiðstöðvar eru opnar fyrir alla. Þeir sem hafa heilsu til geta því mætt í félagsmiðstöðvar okkar þrjá laugardaga í mánuði í Boðaþingi, Gullsmára og Gjábakka.”

Að sjálfsögðu tóku menn upp spilin í Gullsmára sl. laugardag

Áfram lögð rækt við að efla enn frekar þjónustuna er snýr að andlegri og líkamlegri heilsu eldra fólks í Kópavogi

Er eitthvað fleira í farvatninu hjá Kópavogsbæ er kemur að eldri borgurum? ,,Við erum afskaplega stolt af þeirri fjölbreyttu þjónustu sem er í boði fyrir eldra fólk í Kópavogi. Virkni og vellíðan líkamsræktarverkefnið okkar hefur tekist afskaplega vel og við heyrum ekki betur en að þátttakendur séu mjög ánægðir. Þá er auðvitað frábært að sjá hversu miklum árangri þátttakendur eru að ná sem sækja námskeiðin. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að útvíkka verkefnið en við höfum meðal annars boðið upp á Virkni og vellíðan í félagsmiðstöðvunum. Þá er sundleikfimin á sínum stað og í hverri viku ýmiss konar viðburðir í menningarhúsum okkar. Áfram munum við leggja rækt við að efla enn frekar þjónustu okkar er snýr að andlegri og líkamlegri heilsu eldra fólks í Kópavogi,” segir Ásdís í lokin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar