Vitnisburður foreldra og fyrrum nemenda við Hjallastefnuskóla í Garðabæ

Börnin þurfa ekki að aðlagast skólanum, skólinn aðlagast börnunum

Árið 2003 byrjaði sonur okkar 18 mánaða gamall á Hjallastefnu leikskólanum Ásum í Garðabæ. Áhugi okkar á skólanum kviknaði fyrst vegna þess að hann var bara í næstu götu við heimili okkar, u.þ.b. 100 stutt skref frá. Þegar við fórum að skoða skólann varð okkur fljótt ljóst að þetta var enginn venjulegur leikskóli. Engin leikföng, engar rólur, kynjaskipting og skólaföt. Við vorum ekki viss hvort þetta hentaði okkur. Þetta vakti hins vegar forvitni okkar og við lásum allt efni sem við komumst yfir á þessum tíma um Hjallastefnuna, Margréti Pálu, Kynjanámsskrána o.s.frv.. Þegar upp var staðið fannst okkur þetta allt bara nokkuð vel ígrundað, rökrétt og skynsamlega útfært. Kærleikur, sköpun og lýðræði. Öllum börnum mætt eins og þau eru. Prófum þetta bara.

Skemmst er frá því að segja að drengurinn okkar var í Hjallastefnunni þar til hann byrjaði í Garðaskóla árið 2014. Og ekki nóg með það, systur hans tvær fylgdu í kjölfarið og sú yngsta er núna í 11 ára bekk í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum. Við erum sem sagt búin að vera með börn í Hjallastefnuskólum nánast samfleytt í meira en 20 ár.

Hvers vegna höldum við áfram að velja Hjallastefnuna fyrir börnin okkar ár eftir ár? Í sannleika sagt þá er það ekki bara vegna allra góðu gildanna sem Hjallastefnan stendur fyrir heldur kannski enn þá frekar vegna þess að kennararnir þeirra og skólastarfsfólk hafa ástríðu fyrir starfi sínu og brenna fyrir hagsmuni barnanna. Fólk sem velur sér að vinna í Hjallastefnunni gerir það ekki að ástæðulausu eða af hálfum hug. Kennararnir þeirra eru hluti af fjölskyldunni okkar og við erum hluti af skólanum. Það koma upp vandamál og við leysum þau saman. Börnin þurfa ekki að aðlagast skólanum, skólinn aðlagast börnunum. Kærleikur, sköpun og lýðræði. Samfélag, náttúra og jákvæðni.

Börnin okkar þrjú eru öll ólík, en þau hafa öll blómstrað í Hjallastefnunni. Þau halda því iðulega fram að þau séu ekkert að læra, enda fer mikið af kennslunni fer fram í leik utan kennslustofunnar, við Vífilstaðavatn, í hlíðum Gunnhildar, í Stóraskógi eða á Steinbrúnnni. Samt kunna þau bara allt í einu að lesa, reikna og skrifa, jafnvel tala tungum. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá veljum við Hjallastefnuna ár eftir ár eftir ár fyrir börnin okkar því þar líður þeim vel, þau eru hamingjusöm, þeim gengur vel að læra og þau koma vel undirbúin á næsta skólastig.

Frosti og Sigrún

Áhersla lögð á að börnin séu sjálfstæðir einstaklingar

Þegar við fluttum í Garðabæinn með drengina okkar tvo var leikskólinn Ásar sá leikskóli sem var næst okkur. Við höfðum heyrt góða hluti af Hjallastefnunni og var valið því ekki erfitt fyrir okkur. Frá þeim degi höfum við ekki hætt að dásama Hjallastefnuna fyrir þeirra frábæra starf og mælum með stefnunni við alla sem spyrja okkur álits. Fyrir okkur er Hjallastefnan skóli þar sem öllum börnum er mætt á þeim stað sem þau eru. Það er svo oft sem maður heyrir af því að samfélagið vilji að allir passi í sama kassann en sú er svo sannarlega ekki raunin í Hjallastefnunni. Við erum öll ólík og því er frábært að skólinn einstaklingsmiðar námið að hverjum og einum eftir allra bestu getu. Auk þess er mikil áhersla lögð á að börnin séu sjálfstæðir einstaklingar sem geta fótað sig í lífinu. Þetta er hægt í Hjallastefnunni þar sem þar eru hóparnir almennt minni en í almennu skólakerfi. Við eigum til dæmis tvo mjög ólíka drengi en stefnan hefur reynst þeim báðum mjög vel. Við elskum að drengirnir okkar geti notið náttúrunnar allt í kring um skólann sinn og geti nýtt hana bæði til hreyfingar og náms. 

Við höfum oft verið spurð út í skólafatnaðinn. Fyrir okkur, og þá sérstaklega pabbann, þá einfaldar fatnaðurinn okkur lífið. Það þarf aldrei að rífast yfir í hverju á að fara í, í skólann og aldrei að reyna að para saman einhver föt. 

Fyrir okkur er Hjallastefnan svo miklu meira en bara skóli fyrir drengina okkar. Þetta er samfélag þar sem allt starfsfólk þekkir drengina okkar og okkur, foreldrasamfélagið er sterkt og allir tilbúnir að leggja hönd á plóg þegar þess þarfnast. Svo er það enn ein sérstaða skólans, en á vorin er alltaf farið í vorferð þar sem börnin fara á nýjan stað og gista í tvær nætur, með starfsfólki sem það þekkir og öðlast það sjálfstæði að geta farið og eytt nóttinni í burtu frá fjölskyldu sinni. Það má segja að börnin stækki um nokkur númer við hverja vorferð. 
Hjallastefnan hefur reynst okkur svo ótrúlega vel og munum við ávallt vera þakklát fyrir þá tíma sem drengirnir okkar munu verja þar. 

Hjördís og Sævar

Þessir strákar halda enn hópinn

Við fjölskyldan völdum Hjallastefnuna vegna þess að foreldrar og börn í okkar nærumhverfi töluðu svo vel um stefnuna og starfsfólkið.

Það breytti miklu fyrir drengina okkar að vera partur af svona litlum hóp. Drengirnir kynnast betur. Í 10 til 15 drengja hópi sem er saman í hóp í 4-5 ár kynnast þeir vel. Þeir þekkja mannkosti hvors annars. Þeir mæta hvor öðrum á þeim stað sem þeir eru. Þeir eru einhvern veginn miklu tilfinningalega þroskaðri en maður var á þeirra aldri. 7- 8 árum eftir að þeir kvöddu Hjallastefnuna eru þessir strákar enn að halda hópinn og passa uppá hvern annan.

Reynsla okkar af skólafatnaði hefur verið mjög góð. Það er gott að tilheyra liði og þurfa ekki að rökræða í hverju á að fara í skólann. Minningarnar af skólafatnaði eru líka svo góðar að drengirnir okkar hafa ætlað að spila fótboltamót sem framhaldskólanemendur í Hjallafötum.

Að okkar mati þroskar Hjallastefnan og styrkir einstaklinga. Allir fá að vera nákvæmlega eins og þeir eru. Eftir nokkur ár saman í skólanum verður einhvern veginn til einstakt bræðralag milli þessara drengja sem heldur enn. Þrátt fyrir að þeir hafi farið í sitthvora áttina í námi og starfi.

Við mælum alltaf með Hjallastefnunni. Hún hefur reynst okkur einstaklega vel og kennararnir voru einstakar manneskjur með hjarta úr gulli.

Þorkell Máni Pétursson

Við fengum tækifæri til að rækta vináttu og samskipti í skólanum

Hjallastefnan fyrir okkur er öruggur staður. Við vorum mjög opnar og hressar þegar við vorum yngri, við vorum til að mynda alltaf með atriði á föstudags-fjöri ekki er endilega víst að við hefðum þorað því ef við værum í öðrum skóla.

Við fengum frelsi til að framkvæma það sem okkur datt í hug og var hlustað á okkur og okkar hugmyndir fengu alltaf góðan hljómgrunn kennara. Stundum gátum við framkvæmt þær og stundum fengum við svör um að það væri ekki hægt og þá alltaf útskýringar hvers vegna ekki. Okkur þótti mjög sjálfsagt að við hefðum rödd í skólasamfélaginu okkar sem við teljum að hafi, eftir á hyggja, gert okkur gott og eflt sjálfstæði okkar og því að þora að standa með hugmyndum okkar og skoðunum. 

Ásamt því að vera öruggur staður var Hjallastefnan staður vináttu. Allar í okkar bekk voru frábærar vinkonur. Einnig var kennarinn vinkona okkar samtímis þess að vera ábyrgur og traustur kennari sem leiðbeindi okkur af jákvæðni og kærleik.

Við fengum tækifæri til að rækta vináttu og samskipti í skólanum og ef eitthvað kom upp á þá vorum við látnar ræða málin og hafa skoðanir, sýna ábyrgð og biðjast afsökunar eða leiðrétta hegðun sem hefði betur verið gerð á annan hátt. 

Við vorum allar á leikskólanum Ásum og foreldrum okkar leist vel á stefnuna og var þá ákveðið að við myndum halda áfram í Hjallastefnunni. Þar sem allt starfsfólk sýndi okkur kærleik og umhyggju frá fyrsta degi og foreldrum okkar fannst þau vera með börnin sín í öruggum aðstæðum þar sem við fengum allar að blómstra og njóta okkar hver á sinn hátt. Við erum allar ólíkar en allar fengum við verkefni við hæfi og þar sem styrkleikum okkar var mætt. Þegar við hugsum 15 ár aftur í tímann er þetta svo dýrmætt og við búum að þessu enn í dag og sjáum hvað hver og ein okkar hefur fram að færa… við lærðum að enginn er eins en allir búa yfir styrkleikum sem nýtast alltaf innan hóps á einhverjum tímapunkti. 

Öll samskipti við alla sem störfuðu í skólanum, kennarar, skólastýrur, stuðningsfólk eða starfsfólk í eldhúsi voru þægileg og auðveld og það voru allir tilbúnir að aðstoða, leggja okkur lið og leiðbeina okkur.  Það hefur hugsanlega eitthvað með smæð skólans að gera.

Bekknum okkar var skipt í tvennt, við fengum alltaf næga athygli. En stundum í almennu skólakerfi er tilhneiging til þess að einstaklingar týnist inn á milli í fjöldanum og fái ekki sömu athygli og aðstoð.
Ef manni leið illa þá var aldrei spurning um að segja frá því, það var alltaf einhver sem tók eftir því og kom og hjálpaði manni.

Skólafatnaður sparaði tíma á morgnana. sérstaklega þegar stelpur eru farnar að skipta sér að útliti. Þetta eru skóla fötin og allir vita það. Fínt að hafa börn í skólafötum í skólanum þá eyðileggjast ekki fínu fötin. Skólaföt koma einnig í veg fyrir að börn beri sig saman og eru tákn um að allir eru jafnir.

Í Hjallastefnunni eru öll börn byggð upp sama hvaða styrkleika einstaklingur hefur og fjölbreytileikanum fagnað. Við kunnum einnig að meta það að læra í leikjum og náttúru, það gaf okkur sérstakt leyfi til þess að hafa frumkvæði og skapa eitthvað sem erfitt er að gera í gegnum námsbækur.

Við mælum 100% með Hjallastefnunni, alltaf, og hefðum ekki vilja missa af þeim tíma sem við áttum þar. 

Gabríela Ómarsdóttir
Sólrún Dís Valdimarsdóttir
Hanna Álfheiður Gunnarsdóttir
Emilía Ómarsdóttir
Klara Mist Karlsdóttir
Ásdís Frostadóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar