Þetta er kraftmikið og töff lag sem býður upp á mikinn dans og orku

Garðbæingurinn Anita Rós Þorsteins-dóttir eða ANITA, söngkona og dansari tekur þátt í undankeppni Söngvakep-pnar RÚV á laugardaginn, 17. febrúar þar sem hún flytur lagið Stingum af, en Anita gekk í gegnum alla skólagönguna í Garðabæ. Hún tók þátt í söngleikjum í FG og hefur m.a. starfað í Hofsstaða- og Garðaskóla.

Anita þekkir vel að koma fram á sviði því sem barn lék hún reglulega í söngleikjum bæði í Þjóðleikhúsinu og í Borgarleikhúsinu og svo söng hún og dansaði í söngleiknum Chicago sem var sýndur á Akureyri sl. vetur. Anita er búin með nám í kennslufræðum og er núna í mastersnámi í hagnýtri menningarmiðlun.

Byrjaði að æfa dans hjá mömmu

Móðir Anitu er Garðbæingum sjálfsagt að flestum kunn, en það er Birna Björnsdóttir, eigandi og danskennari í Dansskóla Birnu Björnsdóttur. Garðapósturinn heyrði hljóðið í Anitu og byrjaði á því að spyrja hana í gamni hvort hún hafi ekki haft neitt val þegar hún var yngri, lá leiðin alltaf í dansinn og sönginn? ,,Ég byrjaði að æfa dans hjá mömmu þegar ég var um fimm ára gömul og hefur dansinn fylgt mér allar götur síðan. Ég æfði einnig ballett í mörg ár en heillaðist meira að öðrum stílum. Ég varð fljótt mjög hrifin af skemmtanaiðnaði og framkomu. Bæði hér heima og erlendis sótti ég í jazz, commercial, musical theatre, hip hop, contemporary og fleiri dansstíla. Í dag finnst mér skemmtilegast að blanda þessu öllu saman.”

Ein skemmtilegasta lífsreynslan hingað til

Og hefur þú nánast verið á sviði allt þitt líf? ,,Já, ég fékk hlutverk ung að aldri í söngleikjunum Gosa í Borgarleikhúsinu og Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu. Æfði svo í mörg ár hjá Sönglist sem setti upp fjölda sýninga í Iðnó og Borgarleikhúsinu. Hjá Dansskóla Birnu Björns tók ég þátt í öllum danssýningum frá því ég byrjaði og í gegnum dansnámið þar tók ég þátt í ýmsum verkefnum á sviði og í sjónvarpi,” segir hún og heldur áfram: ,,Ég fór að starfa meira sem dansari á unglingsárum, en ég dansaði t.d. fyrir Latabæ (Lazy-town) í nokkur ár, bæði í sjónvarpsseríum og á skemmtunum víða um landið. Í dag starfa ég töluvert meira við dansinn, er danshöfundur og kem einnig fram sjálf. Í dag vinn ég að mjög fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum, jafnvel verkefnum sem ég átti aldrei von á að landa. Ég fékk hlutverk í söngleiknum Chicago hjá Leikfélagi Akureyrar sem var algjör draumur. Þá fékk ég einnig stöðu danskapteins undir stjórn Lee Proud. Þetta hefur verið ein skemmtilegasta lífsreynslan hingað til. Önnur nýleg verkefni eru á borð við; dansstjórn Áramótaskaupsins og Krakkaskaupsins, Stórtónleikar Fiskidagsins Mikla, Rocketman söngleikur Nemó í Verzló og Eurovision tónleikar í Háskólabíó. Ég vinn mikið með tónlistarfólki í dag en kem reglulega fram með Selmu Björns, Júlí Heiðari, Jóhönnu Guðrúnu og fleiri listamönnum á hinum ýmsu viðburðum.”

Fékk svo mikinn sviðsskrekk að ég jarmaði gjarnan bara í hljóðnemann

Hvenær kom svo söngurinn inn í þetta hjá þér og ertu búin að læra söng? ,,Ég hef alltaf haft gaman af því að syngja. Ég hef ekki sótt söngnám en stefni á að skoða það betur. Ég hef alltaf haft dálæti af söngleikjum og tónlist almennt, söng og dansaði hverja stund frá því ég var barn. Mér fannst ég þó ekkert sérlega góð söng-kona, en fór svo aðeins að þora að leyfa fólki að heyra meira í mér á unglingsárum. Ég átti þó alltaf virkilega erfitt með það, fékk svo mikinn sviðsskrekk að ég jarmaði gjarnan bara í hljóðnemann,” segir hún brosandi.

Risa stórt skref fyrir mig

En hvernig kom það til að þú ákvaðst að vera með í undankeppni Söngva- keppninnar í ár og hefur þú fylgst með keppninni í gegnum árin? ,,Ég hef fylgst með Söngvakeppninni frá því ég man eftir mér. Hef alltaf verið mikill aðdáandi og tekið þátt í keppninni tvisvar sem dansari. Ég fékk símtal frá Ásdísi Maríu Viðarsdóttur, sem er höfundur lagsins ,,Stingum af“ þar sem hún segist vera leita að söngkonu og hafi fengið ábendingu um mig. Ég sendi henni myndbönd af mér að syngja og dansa, og eftir spjall fram og til baka var mér boðið að taka þátt í Söngvakeppninni. Þetta er risa stórt skref fyrir mig sem ég er virkilega spennt að taka.”

Ég gæti ekki verið heppnari með teymi

Og þú ætlar að syngja lagið Stingum af – hvernig lag er það og hvernig verður atriðið þitt, tekurðu létt dansspor með? ,,Lagið Stingum af er mjög kraftmikið og töff lag sem býður upp á mikinn dans og orku. Ég verð með fjóra dansara á sviðinu með mér undir stjórn Baldvins Alan. Ég gæti ekki verið heppnari með teymi. Ég mun svo að sjálfsögðu taka nokkur spor með þeim,” segir Anita.

Allt að smella saman

Þú stígur á svið á laugardaginn, er allt klárt og ertu orðin spennt fyrir kvöldinu? ,,Ég er virkilega spennt fyrir kvöldinu. Það er allt að smella saman og erum við að leggja lokahönd á smáatriðin. Ég er búin að næla mér í einhverja skítapest sem þarf helst að snáfa burt fyrir laugardaginn, þá erum við í góðum málum,” segir Anita.

Það er svo fallegt að sjá hvað fólk er tilbúið að taka manni eins og maður er og halda með manni í lífinu

Og þú stefnir sjálfsagt á að komast í úrslitakvöldið og jafnvel að sigra, en þá þarftu eðlilega góðan stuðning? ,,Heldur betur og hann hef ég svo sannarlega fengið. Bæði frá mínu nánasta fólki og öðrum sem hafa tekið sig til að styðja, hrósa og peppa mig og teymið. Ég er svo innilega þakklát. Það er svo fallegt að sjá hvað fólk er tilbúið að taka manni eins og maður er og halda með manni í lífinu, það er virkilega dýrmætt. Svo á ég svo duglegt og hjálpsamt fólk í kringum mig sem eru á fullu að gera og græja til að létta á álaginu, en Andrea Sigurðardóttir frænka mín á skilið orðu fyrir alla aðstoðina.”

Nýlega greind með ADHD sem útskýrir afskaplega margt

En komast einhver önnur áhugamál að hjá Anitu Rós en dans og söngur? ,,Ég er nýlega greind með ADHD sem útskýrir afskaplega margt, því ég er með allt of mörg áhugamál. Sinni þeim hinsvegar mismikið. En ég elska að fara í leikhús bæði hér heima og erlendis, finnst gaman að ferðast, er mikill matgæðingur, er hrifin af allskyns list og menningu og er mikil keppnismanneskja í spilum.”

Er fiðrildi, skapandi og metnaðarfull

Og svona að lokum, þú ert útskrifuð úr kennslufræðum og ert núna í mastersnámi. Á hvað stefnir Anita Rós í framtíðinni? ,,Ég stefni á að einblína meira á tónlistina, koma mér á framfæri þar og vonandi starfa við það að einhverju leiti. Að sjálfsögðu mun dansinn og sviðsframkoman seint víkja frá svo ég mun halda áfram að byggja þann feril upp. Ég elska að gera allskonar, ég er fiðrildi, skapandi og metnaðarfull. Mér finnst gaman að vera með nokkra bolta á lofti og ekki festa mig við eitthvað eitt. En ég mun klárlega leggja fyrir mig kennsluna einhvern tímann aftur, hef ofboðslega gaman af því að vinna með ungu fólki,” segir Anita Rós að lokum og spennandi verður að fylgjast með henni á sviðunu á laugardaginn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar