Einstakur áningarstaður

Vilji til að byggja 500 m2 veitinga- og kaffihús í Kópavogsdal

Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita fasteignafélags hf., eigendur Vistbyggðar ehf., Karl Sigfússon, Benedikt Ingi Tómasson og Norvik hf. ásamt Reyni bakara ehf. sem er í eigu Henrý Þórs Reynissonar hafa lagt fram erindi til bæjarráðs Kópavogs um uppbyggingu á nýjum áningarstað í Kópvogsdal, nánar tiltekið á lóðinni að Dalvegi 1, þegar Sorpa hverfur af lóðinni.

Flétta saman byggingu við náttúru dalsins
Ofangreindir aðilar hafa lýst yfir áhuga og vilja til samstarfs við við Kópavogsbæ um breytt skipulag og uppbyggingu á um 500 m2 veitinga- og kaffihúsi á lóð nr. 1 við Dalveg þegar starfsemi Sorpu verður færð eða eftir atvikum aflögð.

Unnar hafa verið frumtillögur að veitingahúsi á lóðinni í samstarfi við Alark arkitekta (sjá myndir). Í erindinu segir að tillagan gangi út á að skapa einstakan áningarstað í dalnum, með því að flétta saman byggingu við náttúru dalsins og að laga hana vandlega að staðháttum. Staðurinn yrði bræðingur af kaffihúsi og veitingastað með möguleika á veislusal/veisluþjónustu/félagsrými í meginsal eða garðskála á þaki byggingar. Gert er ráð fyrir að byggingin verði úr timbureiningum og hugað verði að vistvænni hönnun með áherslu á sjálfbærni og náttúru. Þá er gert ráð fyrir skjólgóðri verönd og leiksvæði í skjóli frá umferðarnið Dalvegar ásamt góðum tengingum við göngustígakerfi dalsins.

Megi flýta fyrir ákvörðun um brotthvarf Sorpu
Að baki verkefninu standa aðilar með áralanga reynslu af fasteignaþróun, byggingaframkvæmdum og rekstri og þeir vonast til að ofangreind áform verði kynnt fyrir bæjaryfirvöldum með það fyrir augum að lóðinni yrði úthlutað eða seld til Vistbyggðar ehf. þegar ljóst verður um afdrif Sorpu á lóðinni. ,,Jafnframt er vonast til að ofangreind hugmynd og áhugi megi verða til þess að flýta fyrir ákvörðun um brotthvarf Sorpu úr Kópavogsdalnum og að starfseminni verði fundin ný staðsetning enda flestum ljóst að umfang starfseminnar er fyrir löngu búin að sprengja utan af sér núverandi aðstöðu og er til ama fyrir íbúa í næsta nágrenni.”

Nýtist bæði íbúum og gestum
Að mati aðstandenda verkefnisins er hér um að ræða einstækt tækifæri til að breyta núverandi starfsemi á lóðinni, með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum, í eftirsóknarverðan áningarstað sem nýtist bæði íbúum og gestum Kópavogsdalsins sem nýtur síaukinna vinsælda sem afþreyingar og útivistarsvæði.
Bæjarráð hefur samþykkt að vísa málinu til umsagnar sviðsstjóra umhverfissviðs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar