Bjöguð sjálfsmynd

Theodóra S. Þorsteinsdóttir

Einn stærsti þátturinn í sjálfsmynd Sjálfstæðisflokksins er sú hugmynd að „ábyrg fjármálastjórn“ sé sérsvið hans. Engu máli virðist skipta þó við hin höfum horft upp á flokkinn stýra þjóðarskútunni inn í efnahagshrunið eða hinum ýmsu sveitarfélögum í ósjálfbæra skuldasöfnun. Alltaf telja Sjálfstæðismenn sig umgangast sameiginlega sjóði af ábyrgð. Sannfæring flokksins um eigið ágæti á þessu sviði hefur tekið á sig áhugaverðar en ákaflega bjagaðar myndir, eins og nýlegt dæmi úr Kópavogsbæ sýnir.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur nú samþykkt að ganga til samninga við fyrirtæki um þróun á þjónustuappi fyrir Kópavogsbæ. Forritið er eitt kosningaloforða Sjálfstæðisflokksins og á það meðal annars að auðvelda íbúum að senda inn ábendingar um nærumhverfi sitt og nálgast upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

Komist hjá útboði
Eftir umfjöllun bæjarráðs í febrúar síðastliðnum tóku samningsdrögin breytingum. Ákveðnir eiginleikar appsins voru teknir út úr fyrstu útgáfu þess og ekki formlega gert ráð fyrir þátttöku annarra sveitarfélaga, þó enn sé stefnt að því óformlega. Þannig fór áætlaður kostnaður við verkið úr 34 milljónum í tæpar 6,3 milljónir. Einhverjum kann að þykja það ágætt en ekki er allt sem sýnist. Opinberir aðilar, þar með talinn Kópavogsbær, eiga lögum samkvæmt að bjóða út öll innkaup yfir 15,5 milljónum króna. Óheimilt er að búta verk niður þannig að innkaupin verði undir viðmiðunarfjárhæðinni. Það var engu að síður gert í tilfelli appsins.

Sé upphæðin undir 15,5 milljónum ber opinberum aðilum þrátt fyrir allt að viðhafa samkeppni við innkaupin, til dæmis með verðkönnun. Það var ekki gert í tilfelli appsins, heldur gekk meirihlutinn til samninga án þess að uppfylla þessa skyldu Kópavogsbæjar. Í þessu felst tvöfalt klúður.
Innkaup Kópavogsbæjar eru stór hluti af hagkerfi okkar Kópavogsbúa. Heildarumfangið er talið í milljörðum og því mikilvægt að huga að því hvernig innkaupamætti er beitt. Í ljósi umfangsins eru miklir hagsmunir tengdir opinberum innkaupum sem eru mikilvægt stjórntæki í rekstri sveitarfélagsins. Innkaup gegna einnig hlutverki í mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja á almennum markaði. Þess vegna hefur ofuráhersla verið lögð á að stofna nýtt fjármálasvið og innkaupadeild hjá Kópavogsbæ. Opinber innkaup verður að vanda. Meginreglur um jafnræði milli fyrirtækja, gagnsæi og hlíting laga og reglna ætti að teljast sjálfsögð vinnubrögð sveitarfélaga.

Við undirritaðar, kjörnir fulltrúar í Kópavogi, tökum það hlutverk okkar alvarlega.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi BF Viðreisnar

Burðarmynd PhotoMIX Company frá Pexels

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar