Ég vil vera rödd bæjarbúa,

Ég er söngvari og hef í mörg ár starfað við að þjálfa rödd mína og beita henni til þess að gleðja aðra. Ég þarf að hlúa að henni, æfa hana og hlusta á hana. Núna set ég markið á að verða bæjarfulltrúi Kópavogsbúa. Með því sé ég fyrir mér að verða rödd þeirra sem hér búa og eiga þátt í að efla þetta góða samfélag sem við viljum gera enn betra. Til að viðhalda góðri rödd þarf heyrnin að vera góð. Ég vil hlusta á bæjarbúa því það eru jú þeir sem eru best til þess fallnir að koma áleiðis hugmyndum og verkefnum sem geta komið bænum á kortið.

Með þessu er ég að segja að ég vil hlusta á ykkur, tala ykkar máli og verða raunverulegur þjónn fólksins líkt og ég tel þetta starf vera. Í bæjarstjórn eru aðeins 11 fulltrúar í nær 40 þúsund manna samfélagi. Verkefni öflugra bæjarfulltrúa er því mikið og fyrir því ber ég mikla virðingu og myndi auðmjúkur starfa við það næstu fjögur árin ef kjósendur sýndu vilja sinn til þess.

Eftir ákvörðunina um að fara í framboð og gerast þjónn fólksins fer ég um bæinn og lít á umhverfi og starfsemi hans allt öðrum augum en ég gerði áður. Ég velti fyrir mér á annan hátt holum í götum, rusli sem dreifist víða, sóðaskap, starfsumhverfi kennara og umönnun aldraðra. Hversdagslegir hlutir sem ég finn þörf fyrir að kynna mér betur. Það fylgir því sérstök tilfinning að bjóða sig fram og finna að samstundis knýjandi þörf um hvernig við getum gert betur.

En ég geri ekkert einn. Ég hef sagt að ég vil vera rödd bæjarbúa og ég vil hlusta á þá með bæði hjarta og hug, vera þeirra rödd. Með þessum stutta pistli langar mig til að leita til þín bæjarbúi um að hafa samband við mig, bjóða mér á vinnustaðinn eða bara heim í kaffi til þess að ræða bæjarmálin og hvað brennur á ykkur.

Ég er til þjónustu reiðubúinn og hlakka til að heyra frá ykkur og hitta. Netfangið mitt er [email protected] og síminn minn er 8440200

Setjum X við M, komum Kópavogi á kortið.

Geir Ólafsson,
höf er tónlistamaður og skipar annað sætið á lista Miðflokks og óháðra í Kópavogi. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar