Betri samgöngur í Garðabæ

Við í Miðflokknum leggjum mikla áherslu á að auka flæði í umferðinni með betri vegtengingum. Þannig viljum við tryggja öryggi vegfarenda og gefa bæjarbúum betri möguleika á að ferðast með þeim samgöngumáta sem þeim hugnast hverju sinni. Markmið okkar er að fólk eyði minni tíma í umferðinni og fái meiri tíma með fjölskyldunni.

Tvö mál þola enga bið að okkar mati, þau tengjast úthverfum Garðabæjar og hafa því miður mætt afgangi hjá bæjarstjórn fram að þessu. Í fyrsta lagi eru það gatnamót Kauptúns og Urriðaholtsstrætis en þetta eru lang hættulegustu gatnamótin í Garðabæ. Gatnamótin eru sérlega varasöm fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en þau eru jafnframt óskilvirk fyrir bílaumferð. Aðgengi gangandi og hjólandi þarf að endurbæta tafarlaust með einföldum verklegum framkvæmdum við gatnamótin, sem og uppsetningu öryggishandriða á brúnni. Jafnframt viljum við setja upp lýsingu við gatnamótin þannig að göngubrautin og vegfarendur lýsist upp þegar græni kallinn birtist. Samhliða ætlum við að setja gagnkvæma endurhönnun gatnamótanna í forgang.

Í öðru lagi ætlum við að standa vörð um umferðaröryggi í Prýðahverfi og auðvelda íbúum Hleina að komast út úr sínu hverfi með einföldum og öruggum hætti. Gegnumstreymi umferðar í gegnum Prýðahverfi er mikið og algengt að hraði sé langt yfir hámarkshraða. Þetta er óásættanlegt og verður að stöðva áður en alvarleg slys verða á veginum. Miðflokkurinn vill tafarlaust setja upp fjarstýrt hlið og myndavél við lokunina til að stöðva gegnumstreymið. Samhliða verði undirbúnirngur hafinn á því að leggja Herjólfsbraut yfir að nýja Álftanesveginum. Sú vegatenging er forsenda þess að bæta aðgengi, auka umferðaröryggi og flýta fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu.

Miðflokkurinn mun beita sér fyrir því að Flóttamannaleiðin verði byggð upp á kjörtímabilinu með tilheyrandi undirgöngum við Maríuhella, Golfklúbbinn Odd og tengingu(m) við Urriðaholtið. Þessi vegur eykur öryggi íbúa, bætir flæði umferðar og gefur íbúum Urriðaholts aukinn aðgang að náttúrunni handan vegarins. Við sjáum fyrir okkur að vegurinn verði í svipuðum dúr og Ásvallavegur, nýji vegurinn milli Vallana og Setbergs í Hafnarfirði, en við hvetjum bæjarbúa til þess að keyra þann veg og ímynda sér hvernig Flóttamannaleiðin gæti litið út til framtíðar.

Undirritaður er faðir þriggja barna á aldrinum tíu til sautján ára, eiginmaður til sextán ára, ánægður nýbúi á Álftnesi. Ég hef víðtæka reynslu á sviði rekstraráðgjafar, fjármála og rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja, er lausnamiðaður og kýs að hugsa í lausnum frekar en í vandamálum. Þá legg ég áherslu á að efla einstaklinginn á jafnræðisgrunni án tillits til merkimiða.

Snorri Marteinsson, atvinnurekandi ( S: 8459944)
Frambjóðandi Miðflokksins, 3ja sæti.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar