Breytt og bætt þjónusta við ungmenni í Kópavogi

Molinn – Miðstöð unga fólksins mun hafa það hlutverk að vinna að menntun, velferð og vellíðan ungs fólks á aldrinum 16 – 25 ára. Ungmennahúsið Molinn fær þannig nýtt og aukið hlutverk í þjónustu við ungmenni. 

Markmiðið með breytingunum er að efla verulega þjónustu við ungmenni í Kópavogi og auka fjölbreytileika hennar í þeim tilgangi að geta mætt betur þörfum ólíkra hópa ungmenna.  

Meðal annars er verið að styrkja stöðu ráðgjafa ungmenna í Molanum, sem og verður lögð áhersla á að auðvelda aðgengi ungmenna að lágþröskuldaþjónustu hjá viðurkenndum aðilum sem láta sér hagsmuni ungs fólks varða, og þannig komið á samstarfi við félagasamtök, menntastofnanir og aðra aðila sem vinna í þágu ungs fólks . 

„Okkur í Ungmennaráði Kópavogs líst mjög vel á að þjónusta við ungt fólk í Kópavogi verði styrkt. Sérstaklega erum við áhugasöm um að starf ráðgjafa og stuðningsþjónusta við ungmenni verði efld. Þá viljum að starfsemi verði kynnt vel þannig að þjónustan verði sýnilegri ungu fólki,“ segir Katrín Ýr Erlingsdóttur formaður Ungmennaráðs Kópavogs. 

Molinn – Miðstöð unga fólksins, mun auk þess áfram sinna því hlutverki að vera vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að styrkja félagsleg tengsl og sækja fræðslu og stuðning. Stuðlað verður enn frekar að því að auka tækifæri ungs fólks til skapandi vinnu, nýsköpunar, atvinnu – og starfsþjálfunar.

„Það eru spennandi breytingar framundan í þjónustu við ungmenni í Kópavogi. Við ætlum að auka aðgengi ungs fólks að viðeigandi stuðningi og ráðgjöf og fjölbreyttari þjónustu. Þetta er mikilvægt ekki síst í ljósi þess að með lögum um samþættingu í þágu farsældar barna, er meiri ábyrgð lögð á sveitarfélögin að fylgja betur eftir viðkvæmum hópi barna með stuðningi og ráðgjöf þegar grunnskóla lýkur eða allt til 18 ára aldurs. Upplýsingar gefa til kynna að sá hópur fari stækkandi ekki er í skipulögðu námi eða vinnu. Með aukinni áherslu á geðrækt og aðstöðu til afþreyingar, fræðslu og þátttöku til skapandi verkefna aukum við líkur á virkni, heilbrigði og góða líðan ungs fólks í sveitarfélaginu,“ segir Amanda K. Ólafsdóttir, deildarstjóri frístundadeildar Kópavogsbæjar.  

Mynd: Amanda K. Ólafsdóttir, deildarstjóri frístundadeildar Kópavogsbæjar og Katrín Ýr Erlingsdóttur formaður Ungmennaráðs Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar