Tökum þessari áskorun og tileinkum okkur nýja flokkunarsiði

Nú styttist í að nýtt flokkunarkerfi úrgangs verði innleitt á höfuðborgarsvæðinu þegar söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi bætist við söfnun á plastumbúðum, pappír/pappa og blönduðum úrgangi við hvert heimili.
„Breytingin tengist ákvæðum laga um hringrásarhagkerfi sem tóku í gildi í ársbyrjun og felur í sér miklar framfarir í umhverfis- og loftlagsmálum,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. „Okkur er heilmikið verk fyrir höndum en það er mikilvægt að við vinnum þetta í sameiningu.“

Tunnum verður skipt út nú á vormánuðum þegar innleiðing hefst og íbúar mega búast við því að fá þær afhentar heim til sín, en þurfa ekki að sækja þær. Fyrir flest heimili mun lítið breytast varðandi fjölda tunna þar sem mörg heimili flokka nú þegar plast og pappír. Stærsta breytingin er að öll heimili munu fá tunnu fyrir matarleifar og má búast við því að slíkar tunnur byrji að berast íbúum, í nokkrum áföngum í bænum í maímánuði. Áhaldahús bæjarins mun vinna að því að koma tunnum fyrir þessa fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum en í einhverjum tilvikum verður tunnum skipt út fyrir tvær tvískiptar tunnur á seinni stigum.

„Við munum þurfa að tileinka okkur nýja flokkunarsiði, en við erum flest vel undir það búin og tökum þessari áskorun og stöndum saman að góðri innleiðingu,“ segir Almar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar