Blær færir öryggi og vináttu

Í leikskólanum Baugi er vináttuverkefni Barnaheilla Blær ofarlega á baugi í skólastarfinu en það gengur út á að sporna gegn einelti og efla vináttu milli barnanna. Margrét Björk Jóhannesdóttir er leikskólastjóri á Baugi.

,,Kennararnir eru með hugmyndafræði Blæs bak við eyrað í öllu starfinu en það gengur út á að hjálpa börnunum að leysa ágreiningsmál, hjálpa hvort öðru og vera vinir. Kennsluefnið kemur í lítilli tösku sem kennararnir nýta sér í starfinu með börnunum, farið er í vináttustundir og börnin reyna að finna út úr hvernig best er að hjálpa þeim sem lendir í vandræðum eða líður illa og hvað við getum gert þegar okkur sinnast við einhvern,“ segir Margrét og bætir við: „Þetta fléttast inn í allt Við leggjum áherslu á að skapa umhverfi gegn einelti og virkja börnin í athöfnum sem styrkja tilfinningagreind þeirra.Hugmyndafræðin snýst um að leysa vandamál sín á milli og æfa sig í samskiptum sem er helsta áskorunin á þessum aldri.Í töskunni er afmarkað kennsluefni fyrir ólíka aldurshópa sem gefur okkur ákveðinn sveigjanlegan ramma. Við horfum á barnahópinn og sjáum hvað þarf að vinna sérstaklega með og nýtum þá verkefnatöskuna. Námsefnið er ekki niðurnjörvað heldur nýtist jafnt í flæði og skipulögðum vináttustundum.“

Blær ferðast milli skólastiga

Verkefninu fylgir einnig fjólublár bangsi sem öll börnin fá til eignar þegar þau byrja í leikskólanum. „ Þau geyma Blæinn sinn á ákveðnum stað í skólanum og geta alltaf gengið honum að vísum,“ segir Margrét. „Og það getur veirð gott að taka Blæ með sér í aðstæður sem gætu verið óþægilegar eða erfiðar eða þegar bara í hvíldina, þannig að þau hafa bangsann alltaf sem svona haldreipi og öryggisventil. Bangsinn fylgir þeim gegnum alla skólagönguna, þau vinna verkefni kringum Blæinn og gera búninga á hann eða hálsmen. Hann er alltaf inni í öllu skólastarfinu og fær að taka þátt.“ Hún segir Blæinn vera tæki sem er gott fyrir kennara og starfsfólk leikskólans að grípa til. „Námsefnið er mjög ígrundað og mikið á bak við það og svo er líka svo mikilvægt fyrir barnið að hafa eitthvað í hendi sem táknar og staðfestir vináttu og öryggi, þau kannski ekki eins huglæg og við fullorðnu og þurfa tengingu við eitthvað í föstu formi.“
Baugur er stærsti leikskóli Kópavogs, með 143 börn, og þaðan fara nemendur í Hörðuvallaskóla sem er einnig með stærri skólum bæjarins. „Við höfum verið að vinna þróunarverkefni með Hörðuvallaskóla sem gengur út á að brúa bilið milli skólastigana og til þess nýtum við meðal annars Blæ og vináttu-hugmyndafræðinaÞá taka þau Blæinn sinn með sér yfir í grunnskólann og fá þannig áfram þessa teningu og þetta öryggi frá leikskólanum þar.“

Á leikskóla stærstan hluta ævinnar

Á Baugi er leitast við að nálgast öll viðfangsefni á jákvæðan hátt. „Við reynum að segja börnunum ekki hvað þau eiga ekki að gera heldur segja þeim hvað þau eiga að gera og leiðrétta á jákvæðan hátt,“ segir Margrét sem veit hvað hún syngur enda hefur hún verið á leikskóla nánast síðan hún man eftir sér. „Mamma mín er leikskólakennari og þegar hún var að læra þá var ég lítil trítla og fékk að heimsækja hana í leikskólann. Ég held hreinlega að ég hafi fengið bakteríu, ég fór að hjálpa til á leikskólanum þegar ég var tíu ára, byrjaði 18 ára að vinna sem starfsmaður, fór í kennaranámið 25 ára og var að mennta mig meira og minna til 2018 og tók þá við sem leikskólastjóri hér. Þannig að ég er með 36 ára starfsreynslu í leikskóla og búin að vera í þessum bransa frá því ég er 10 ára,“ segir Margrét að lokum og geri aðrir betur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar