Vilja hækka hvatapeninga upp í 75 þúsund krónur

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans hefur lagt það til að hvatapeningar muni hækka umtalsvert fyrir árið 2023, en Ingvar lagði fram eftirfarandi tillögu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku ásamt Þorbjörgu Þorvaldsdóttur.

„Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að hækka hvatapeninga úr 50.000 kr. í 75.000 kr. fyrir árið 2023. Jafnframt verði eftirleiðis leitast við að hækkun hvatapeninga fylgi vísitölu neysluverðs frá ári til árs.“
Greinagerð fylgdi tillögu Ingvar. ,,Íþróttir, æskulýðsstarf og tónlistarnám er afar mikilvægur þáttur í lífi barna og ungmenna, stuðlar að bættri lýðheilsu og hefur sterkt forvarnargildi. Garðabær hefur getið sér gott orðspor sem sveitarfélag sem styður sérstaklega vel við þennan málaflokk og ekki að ástæðulausu. Garðabæjarlistinn vill sjá Garðabæ áfram í fremstu röð hvað þetta varðar og leggur þess vegna til hækkun á hvata-peningum upp í 75.000 kr., en það er í samræmi við nýlega hækkun í Reykjavík.

Tilgangurinn með tillögunni er að stuðla að auknu fjárhagslegu svigrúmi fyrir barnafjölskyldur og að auka þátttöku barna í sveitarfélaginu í skipulögðum tómstundum, þá sérstaklega þeirra sem sökum efnahags eða félagslegra aðstæðna hafa ekki jafn greiðan aðgang að m.a. því öfluga starfi sem boðið er upp á í Garðabæ og styrkt af sveitarfélaginu. Mikilvægt er í framhaldinu að stuðla beint að því að gjöld íþrótta- og æskulýðsfélaga í sveitarfélaginu verði ekki hækkuð í kjölfar þessara breytingar á hvatapeningum, heldur fylgi æfinga- og þátttökugjöld verðlagi og hvatapeningarnir þá sömuleiðis, líkt og lagt er til.”

Almar Guðmundson, bæjarstjóri lagði til að tillögunni yrði vísað til fjárhagsáætlunar 2023, sem bæjarstjórn samþykkti.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar