Barnasáttmálinn leiðarstef í öllu starfinu – Leikskólar í Kópavogi

Leikskólinn Kópahvoll er einn af fimm leikskólum í Kópavogi sem er að vinna að því að verða Réttindaskóli Unicef og er það í fyrsta sinn sem leikskólar fá tækifæri til þess að vinna að því verkefni.

„Það er töluvert síðan við byrjuðum að vinna með Barnasáttmálann og þegar var auglýst eftir skólum sem hefðu áhuga á að fara í þetta verkefni vorum við mjög tilbúin og spennt fyrir því að taka þátt,“ segir Halla Ösp Hallsdóttir, leikskólastjóri Kópahvols. Þegar skóli gerist Réttindaskóli ákveður hann að setja sér markmið um að starfsfólk skilji um hvað barnasáttmálinn er og hvað sú réttindanálgun sem í honum býr snýst um. Mikilvægi þess að börn læri um réttindi sín, hafi skilning á þeim og nýti sér þau á lífsleiðinni. Vinna með Barnasáttmálann hefur bein áhrif á líf barna og er mikilvægt að sú vinna fljóti sem mest milli allra þeirra uppeldisstofnanna sem barnið sækir.

Raddir barnanna skipta máli

Í Kópahvoli er einnig unnið eftir stefnu sem kallast Uppeldi til ábyrgðar sem rímar vel við áherslur í Barnasáttmálanum en þar er miðað að því að horfa alltaf út frá barninu og hvað er best fyrir það. „Deildarstjórarnir og starfsfólkið hafa unnið mikið útfrá verkefnabók sem kemur frá Unicef og er verkfæri sem við nýtum okkur í þróunarvinnunni við að verða Réttindaskóli. Verkefnin snúa bæði að börnunum og kennurunum sjálfum, „segir Halla Ösp. „ Ég held að það sé mikilvægt að við séum góðar fyrirmyndir svo að börnin læri af okkar og séu mótækileg fyrir því sem unnið er að.“

Hún bendir á að Barnasáttmálinn er efni sem á alltaf við. „Þetta er ekki bara verkefni sem varir í eitt ár og er svo búið. Við viljum að Barnasáttmálinn verði hluti af leikskólanum og að alltaf sé horft til hans í vinnu með börnunum. Við reynum að smita allt okkar fólk af þessari hugsjón, að horfa alltaf á rétt barnsins og að raddir barnanna heyrist.“

Börn vita oft svo miklu meira en fullorðni

Hún neitar því hlæjandi þegar blaðamaður spyr hvort það þýði að það eigi að segja já við öllu. „Nei, alls ekki, en það er mikilvægt að þau finni að við heyrum það sem þau hafa fram að færa, ræðum við þau og hlustum á þau. Notum tækifærið til að kenna þeim samskipti og hvað er rétt og rangt. Börn vita oft svo miklu meira en fullorðnir gera sér grein fyrir. Við hvetjum þau til að hafa skoðanir á t.d hvaða leikefni verið er að vinna með hverju sinni sem og að hafa skoðanir á því sem betur má fara í starfinu. Við erum í þeirri vinnu núna.“

Hvött til að taka eftir umhverfinu og bera virðingu fyrir öllum

Verkefnavinnan með börnunum er fjölbreytt og felst meðal annars í því að hvetja þau til að taka eftir umhverfinu og bera virðingu fyrir öllum og öllu í kringum sig. „Við vinnum þetta mest með tveim elstu árgöngunum en svo erum við að útfæra einfaldari leiðir fyrir yngri börnin.“

Og starfsfólkið fær líka verkefni. „Við höfum verið með verkefna vinnu fyrir starfsfólk á skipulagsdögum, þar sem t.d eitt verkefnið er að reyna flokka greinarnar í barnasáttmálanum í flokka eftir mikilvægi þeirra, sem er mjög erfitt því allar greinarnar eru mikilvægar,“ „segir Halla og bætir við: „Svo ræðum við af hverju við veljum þessa grein eða hina sem opnar möguleika til túlkunar og víðsýni.“

Halla segir að markmiðið sé að allir kennarar og starfsfólk þekki Barnasáttmálann og nýti hann sem leiðarstef í öllu starfinu. „Hér eru mjög flottir kennarar sem eru alltaf að búa til skemmtileg og skapandi verkefni fyrir börnin.“ „Við leggjum áherslu á að öll okkar vinna gangi útfrá Barnasáttmálanum.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar