Kortleggja frístunda- og tómstundastarf

Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar hafa lagt fram tillögu um úttekt á stöðu frístunda- og tómstundastarfs fyrir börn á gunnskólaaldri í Garðabæ.

Fram kemur í tillögunni að úttektin nái annars vegar yfir starf frístundaheimila grunnskóla og tengda starfsemi og hins vegar yfir framboð sumarnámskeiða fyrir börn á grunnskólaaldri. ,,Í úttektinni skal frístunda- og tómstundastarf fyrir þennan aldurshóp sem er í boði innan Garðabæjar kortlagt með hlið-sjón af þörfum barna og fjölskyldna, faglegum kröfum og hverjir veita þjónustuna. Áhersla skal lögð á börn á yngsta stigi grunnskóla og þjónustu á þessu sviði við fötluð börn. Markmið úttektarinnar er að kalla fram gögn sem styðja við frekari ákvörðunartöku varðandi framþróun frístunda- og tómstundastarfs þannig að það mæti þörf-um barna á ýmsum aldri og auki stöðugleika í starfi.”

Að auki er fræðslu- og menningarsviði falið að koma með ábendingar um hvar þörf er á aukinni eða betri þjónustu og hvernig unnt er að mæta því.

Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs (á mynd) og Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar hafa lagt fram tillögu um úttekt á stöðu frístunda- og tómstundastarfs fyrir börn á gunnskólaaldri í Garðabæger

Í greinagerð með tillögu Bjargar og Sigríðar Huldu segir: ,,Í Garðabæ eru starfrækt frístundaheimili við grunnskóla sem þjóna mjög mikilvægu hlutverki við að veita börnum á yngsta stigi verkefni og viðfangsefni við hæfi eftir að skólatíma lýkur.

Yfir sumartímann er boðið upp á fjölbreytta flóru námskeiða fyrir börn. Þessi námskeið eru aðallega haldin af frjálsum félögum í bænum með stuðningi frá sveitarfélaginu.

Mikilvægt er að þróa ofangreint starf áfram þannig að vetrarstarfið henti vel fyrir einstaka aldurshópa og sé eftirsótt af þeim. Fyrir liggur að börn í 3. og 4. bekk eru síður líkleg til að skrá sig á frístundaheimilin og skoða þarf hvort tilefni er til viðbragða við því.

Skoða þarf námskeiðsframboð að sumri með það fyrir augum að meta hvort framboð sé nægt, námskeið séu fjölbreytt og að þau dekki sumarleyfistíma barnanna. Þá þarf að skoða hvernig hægt er að mæta þörfum barna og fjölskyldna í Garðabæ betur með frístundastarfi í þeirra nærsamfélagi.

Úttektarvinnan er nauðsynleg forvinna þess að skoðað verði að Garðabær auki stuðning við frjálsu félögin þegar kemur að frístundastarfi barna á sumrin þannig að framboð á þjónustu verði fjölbreyttara og mæti sem allra best þörfum barnafjölskyldna. Að sama skapi þarf að skoða hvernig hægt er að bæta frístundastarf barna eftir skólatíma t.d. með aukinni samvinnu við frjáls félög.”

Bæjarstjórn samþykkti framkomna tillögu.

Forsíðumynd: Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar