Það stendur upp úr hversu málefnalegir fundir bæjarstjórnar hafa verið og góður andi meðal bæjarfulltrúa

Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari í Garðabæ, lætur af störfum mars næstkomandi, en rétt rúmlega 40 ár eru liðin síðan Guðjón Erling steig fyrst fæti inn á bæjarskrifstofur Garðabæjar, sem bæjarritari.

Fyrsti bæjarráðsfundur sem hann sat og ritaði fundargerð var 10. janúar 1984. Fyrsti fundur sem hann sat með bæjarstjórn var 26. janúar sama ár, en þá kom bæjarstjórn saman til fundar í Garðaskóla. Hans síðasti fundur í bæjarstjórn var fimmtudaginn í síðustu viku í Sveinatungu á Garðatorgi, en þá var hann að sitja sinn 736 fund. Þess ber einnig að geta að Guðjón Erling missti síðast af fundi bæjarstjórnar Garðabæjar í maí 2017.

Guðjón Erling er eðli málsins samkvæmt hokinn af reynslu og uppfullur af fróðleik og þekkingu er kemur að málefnum Garðabæjar og það hefur löngum verið sagt að hann sé sá sem fólk eigi að leita til vilji það fá erindum sínum framgengt.

Og hvað segir svo Guðjón sjálfur á þessum tímamótum, verður eftirsjá af starfinu og starfsfólkinu eða kannski bara ákveðinn léttir að losna? ,,Það verður auðvitað eftirsjá af starfinu sem maður hefur gegnt í svona langan tíma og haft ákveðna ástríðu fyrir,” segir hann.

Starfslýsingin allt frá því að taka öryggiskerfið daglega af á morgnana og gegna staðgengilshlutverki í forföllum bæjarstjóra

En hvert er nú hlutverk bæjaritara og í raun starfsslýsing eða hefur hlutverkið kannski bara mótast með þér og Garðabæ í gegnum þessi 40 ár? ,,Meginhlutverkið er að taka þátt í undirbúningi og afgreiðslu mála sem eru tekin fyrir í bæjarstjórn og bæjarráði. Annars má segja að hlutverkið er fjölbreytt og starfslýsing allskonar, allt frá því að taka öryggiskerfið daglega af á morgnana og gegna staðgengilshlutverki í forföllum bæjarstjóra.”

Guðjón ásamt bæjarfulltrúm á sínum síðasta bæjarstjórnarfundi sl. fimmtudag, það var hans 736 fundur á 40 árum. F.v. Bjarni, Björg, Harpa, Þorbjörg, Almar, Guðjón, Sigríður, Margrét, Sara Dögg, Brynja, Gunnar Valur og Hrannar Bragi

Sá hæfasti var ekki ráðinn

Maður sér reyndar að umsóknarferlið og kröfurnar sem voru gerðar þegar þú sóttir um starf bæjarritara árið 1983 eru ekki alveg þau sömu og í dag? ,,Ég leyfði mér nú á sínum tíma að skoða umsóknir um starfið og þá kom í ljós að sá hæfasti var ekki ráðinn, en einn umsækjandinn var með 10 í vélritun úr Einkaritaraskólanum,” segir Guðjón brosandi.

Skúli Eggert Þórðarson benti mér á auglýsinguna

Þú starfaðir sem fulltrúi hjá embætti Ríkisskattstjóra áður en þú hófst störf hjá Garðabæ – var þetta auðveld ákvörðun, að yfirgefa Ríkisskattstjóraembættið fyrir bæjarritarann og hvað vakti áhuga þinn á þessu starfi? ,,Ákvörðunin var alls ekki auðveld. Mér líkaði mjög vel að starfa með frábæru fólki hjá Ríkisskattstjóra sem ég hugsa oft til. Það var reyndar Skúli Eggert Þórðarson, samstarfsmaður minn á þeim tíma, (síðar ríkisskattstjóri) sem vakti athygli mína á auglýsingunni. Líklega hefur sá ágæti maður séð að þetta gæti verið starf fyrir Garðbæinginn mig þó að ég hafi á þeim tíma búið á ágætum stað í Reykjavík.”

Ég hef heyrt þetta sagt og aldrei líkað það

Það hefur löngum verið sagt að bæjarritarinn sé valdamesti maðurinn innan bæjarins, geturðu tekið undir það, ert þú maðurinn á bak við tjöldin? ,,Ég hef heyrt þetta sagt og mér hefur aldrei líkað það. Kannski er þetta sagt vegna þess að fólk í flestum tilvikum hefur haft greiðan aðgang að mér og ég hef fylgt málum þess eftir eins og kostur hefur verið í hverju tilviki.”

Bæjarstjórn 1982-1986. Fyrsti fundur Guðjóns með bæjarstjórn Garðabæjar var fimmtudaginn 26. janúar 1984 í Garðakóla, en þessi fundur var í félagsmheimilinu í Vídalínskirkju. F.v. bæjarritarinn sjálfur, Guðjón Erling, Jón Gauti Jónsson bæjarstjóri, Árni Ól. Lárusson, Lilja Hallgrímsdóttir, Dröfn Farestveit, Sigurður Sigurjónsson, Agnar Friðriksson, Einar Geir Þorsteinsson, Hilmar Ingólfsson og Eiríkur Bjarnason bæjarverkfræðingur. Mynd: Saga Garðabæjar

Með 95% mætingu yfir 40 ára tímabil

Þú sast alls 736 fundi bæjarstjórnar frá 26. janúar 1984 til 21. mars 2024, en á þessu tímabili voru fundirnir 774. Mætingin var því rúm 95% sem telst nokkuð gott á þessum 40 árum, en hvað með þessa 38 fundi sem þú misstir af, tæplega einn á ári, skrópaðir þú bara? ,,Ég hef ekki nákvæmlega farið yfir það í hverju tilviki en ég man að ég skráði mig einu sinni á sex vikna námskeið og áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á að vikulegir tímar voru á sama tíma og bæjarstjórnarfundir. Síðasti fundur sem ég skrópaði á var 18. maí 2017 en þá var ég við útskrift Ara sonar míns frá Columbia University í New York.”

Farsælt samstarf með öllum bæjarfulltrúum

En er eitthvað eitt sem stendur upp úr af öllum þessum bæjarstjórnarfundum, aldrei nein alvöru uppákoma? ,,Mér finnst það standa upp úr hversu málefnalegir fundir bæjarstjórnar Garðabæjar hafa almennt verið og góður andi meðal bæjarfulltrúa þó að tekist sé á í mögum málum. Sjálfur hef ég átt mjög gott samstarf við bæjarfulltrúa Garðabæjar og mín upplifun er sú að það hefur verið farsælt samstarf.”

Er eitthvað eitt mál sem hefur reynst þér og bæjarstjórninni erfiðara en önnur á þessum tíma? ,,Örugglega en þau koma ekkert upp í hugann núna.”

Gegndi trúnarstörfum fyrir meirihlutann og var hluverki umboðsmanns minnihlutans

Þú hefur bæði starfað með 5 bæjarstjórum á þessum tíma og fjöldanum öllum af bæjarfulltrúum, hefur þeim yfirleitt komið nokkuð vel saman á hverjum tíma þótt þeir hafi verið í ólikum flokkum eða var oft eldfimt ástand á þessum fundum? ,,Í starfi mínu sem bæjarritari hef ég lagt áherslu á að skapa traust og trúnað gagnvart öllum bæjarfulltrúum og hef ekki haft nein afskipti af samskiptum þeirra á milli. Á sama tíma og ég hef gegnt trúnaðarstörfum fyrir meirihlutann hef ég stundum nefnt að ég væri í hlutverki umboðsmanns minnihlutans.”

Sérstök vinátta á milli Guðjóns og Hilmars Ingólfssonar

Eru einhverjir bæjarfulltrúar sem hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá þér sem þú vilt nefna, margt mjög öflugt fólk sem hefur setið í bæjarstjórninni í gegnum árin? ,,Þeir eru allir á sinn hátt í uppáhaldi hjá mér en ég verð að láta það koma fram að á milli okkar Hilmars Ingólfssonar, fulltrúa Alþýðubandalagsins (Kommúnistaflokks Garðabæjar) er sérstök vinátta. Hilmar greiddi reyndar ekki atvæði á sínum tíma með ráðningu minni í starf bæjarritara.”

Guðjón hefur starfað með fimm bæjarstjórum á þessum 40 árum, þeim Jón Gauta Jónssyni, Ingimundi Sigurpálssyni, Ásdísi Höllu Bragadóttur, Gunnari Einarssyni og sl. tvö ár hefur hann starfað með Almar Guðmundssyni

Við Gunnar vorum stundum eins og eineggja tvíburar

Þetta er búinn að vera langur tími, þú varst 29 ára þegar þú hófst störf sem bæjarritari og þú ert að láta af störfum 69 ára gamall. Þú hefur starfað með fimm bæjarstjórum eins og áður kom fram á þessu tímabili, Jóni Gauta Jónssyni, Ingimundi Sigurpálssyni, Ásdísi Höllu Bragadóttur, Gunnari Einarssyni og núverandi bæjarstjóra, Almari Guðmundssyni. Það er væntanlega erfitt að bera bæjarstjórana saman, en áttu þeir allir eitthvað sameiginlegt eða voru jafn ólíkir og þeir voru margir? ,,Þau eiga það sameiginlegt að hafa verið bæjarstjórar. Jón Gauti tók vel utan um mig þegar ég hóf hér störf. Ingimundur kenndi mér og skapaði með mér ákveðna formfestu sem starfið byggir á enn í dag. Það kom fersk-leiki og nýr stjórnunarstíll með Ásdísi Höllu og ég hefði viljað fá að starfa lengur með henni. Við Gunnar vorum stundum eins og eineggja tvíburar og áttum mjög gott með að starfa saman. Kannski vegna þess að við erum báðir úr Hafnarfirði og getur alveg verið að við höfum spilað saman í 6. flokki í FH á gamla Hvaleyrarholtsvellinum. Þá störfuðum við saman við að byggja, með fleira góðu fólki, upp handboltann hjá Stjörnunni á árunum upp úr 1980. Við vorum svo samstarfsmenn á bæjarskrifstofunum áður en Gunnar varð bæjarstjóri. Það er 42 ára samstarf. Með Almari hef ég starfað í bráðum tvö ár og við höfum fundið góðan takt saman.”

Þakklátur fyrir að hafa upplifað traust þeirra allra

En létu þeir allir jafn vel að stjórn spyr blaðamaður glottandi? ,,Ég held að ég svari þessu þannig að ég er þeim þakklátur fyrir að hafa upplifað traust þeirra allra til að ræða við mig erfið mál og leita eftir leiðsögn og leiðbeiningum sem ég vona að hafi í einhverjum tilvikum komið sér vel.”

Ég er ekkert sérstaklega upptekinn af mörgum áhugamálum og hef þau bara fyrir mig

Þú hefur verið vakinn og sofinn yfir málefnum bæjarins, verið mættur fyrstur á morgnana á bæjarskrifstofurnar og oftast farið síðastur, auk þess að taka nokkrar helgarvaktirnar. Eru einhver áhugamál sem þú gast stundað meðfram starfinu þínu og hvað tekur nú við hjá Guðjóni, eitthvað sem þig langar að taka þér fyrir hendur nú þegar þú ert hættur hjá bænum? ,,Ég er ekkert sérstaklega upptekinn af mörgum áhugamálum og ég hef þau bara fyrir mig. Varðandi komandi vikur og kannski mánuði þá hef ég, hafandi komið að öllum kosningum í bæjarfélaginu síðan 1986, gefið kost á mér að halda utan um undirbúning og framkvæmd forsetakosninganna 1. júní nk. Það þarf að vanda vel til kosninganna hér í Garðabæ, við erum að velja okkur íbúa. Svo tekur við EM í fótbolta eitthvað fram á sumar. Það má líka koma fram að ég hef gaman að taka það rólega og hlusta á góða tónlist og fara á tónleika.”

Tímamót urðu í sögu handknattleiksins í Garðabæ á árunum 1982-1983 er karlalið Stjörnunnar, með Guðjón innanborðs, vann sig upp úr 3. deild í 1. deild undir stjórn nýs þjálfara, Gunnars Einarssonar (fyrrverandi bæjarstjóra). Efri röð f.v. Boði Björnsson, formaður Stjörnunnar, Guðmundur Jónsson, formaður handknattleiksdeildar, Guðjón Erling Friðriksson, Eyjólfur Bragason, Eggert Ísdal, Hilmar Ragnarsson, Guðmundur Óskarsson, Magnús Andrésson, ómar Jóhannsson og Gunnar Einarsson. Fremri röð f.v. Einar Einarsson, Sigurjón Guðmundsson, Örn Ólafsson, Birkir Sveinsson og Magnús Teitsson. Mynd: Saga Garðabæjar

Ætlaði að komast í handboltaliðið en endaði sem ritari og aðstoðarmaður þjálfarans

Og þú varst lengi virkur innan handknattleiksdeildar Stjörnunnar eins og tókst þátt í uppbyggingu deildarinnar eins og þú komst inn á. Hvernig kom það til? ,,Þegar ég hafði lokið embættisprófi í lögfræði vorið 1980 mætti ég á æfingu hjá meistaraflokki Stjörnunnar í handbolta og ætlaði auðvitað að koma mér í liðið en endaði sem ritari og aðstoðarmaður þjálfarans, Gunnars Einarssonar, sem var að koma heim úr atvinnumennsku eftir fimm ár. Þannig hófst nú samstarf okkar Gunnars.”

Alveg hættur að hlaupa upp og niður Vífilsstaðaveginn

Og svo stundaðir þú hlaup lengi, ertu enn að hlaupa? ,,Nei ég er reyndar alveg hættur að hlaupa upp og niður Vífilsstaðaveginn eins og ég gerði svo oft áður. Samt ekkert útilokað að ég taki stutt skokk á góðum degi í sumar.”

Ég ætlaði auðvitað að koma mér í handboltaliðið en endaði sem ritari og aðstoðarmaður þjálfarans, Gunnars Einarssonar, sem var að koma heim úr atvinnumennsku eftir fimm ár segir Guðjón, en hérna er hann lengst til hægri eftir bikarsigur Stjörnunnar árið 1989. F.v. Lúðvík Jónasson (lukkutröll), Gunnar Einarsson, Gylfi Birgisson, Sigurjón Bjarnason, Sigurður Bjarnason, Hilmar Hjaltason, Hafsteinn Bragason, Valdimar Tryggvi Kristófersson, Skúli Gunnsteinsson, Einar Einarsson, Þóroddur Ottesen, Magnús Eggertsson, Axel Björnsson, Brynjar Kvaran, Gunnar Erlingsson og Guðjón Erling. Mynd: Saga Garðabæjar

Fer glaður í bragði frá borði

Ef þú lítur yfir farinn veg, ertu þá ánægður með þessi ár þín hjá bænum – Garðabær verið vel rekinn í gegnum árin og þróast á góðann hátt? ,,Ég er mjög sáttur og vænst þykir mér um öll þau góðu samskipti sem ég hef átt í gegnum tíðina við samstarfsfólk mitt hér á bæjarskrifstofunum. Það er ótrúlega góð tilfinn- ing sem ég þakka mínu fólki að gefa mér. Ég fer glaður í bragði frá borði”.

Er eitthvað sem bærinn og bæjaryfirvöld geta bætt sig enn frekar í? ,,Alveg örugg lega og ég treysti bæjarstjórn Garðabæjar til að vinna áfram að því að gera góðan bæ enn betri.”

Garðabær er einstakur bær til að búa í og bærinn mun vaxa og halda áfram að leggja áherslu á að þjóna sínum íbúum vel

Og ertu bjartsýnn fyrir hönd Garðabæjar, miklir möguleikar og vaxtartækifæri í kortunum eða málefni sveitarfélaga almennt að verða mikið þyngri og erfiðari viðureignar? ,,Það er ekki hægt að vera annað en bjartsýnn. Garðabær er einstakur bær til að búa í og bærinn mun vaxa og halda áfram að leggja áherslu á að þjóna sínum íbúum vel. Ég tel að um leið og við byggjum upp okkar bæ með okkar áherslu er mjög mikilvægt að á sama tíma séum við meðvituð um að við erum hluti af höfuðborgarsvæðinu. Allt sem er gott fyrir höfuðborgarsvæðið er líka gott fyrir Garðabæ. Það er þungt yfir mörgu í rekstri sveitarfélaga þessi misserin og þess vegna mikilvægt að þau standi saman við úrlausn sameiginlegra hagsmunamála.”

Um 2.500 fundir í bæjarráði og bæjarstjórn

Og svona að lokum, við erum að tala um að þú hafir setið 736 fundi bæjarstjórnar, en hvað heldurðu að fundirnir séu margir ef þú tekur fundi bæjarráðs með? ,,Hef ekki tölu á þeim en þeir gætu verið um 1.800 og þá samanlagt um 2.500 fundir í bæjarráði og bæjarstjórn.”

Minningar sem ég ætla að varðveita og hugsa um

Eru það ekki aðeins of margir fundir eða var alltaf sama tilhlökkun að sitja þessa fundi; heldurðu að það verði ekki svolítið skrítið að kúpla sig alveg út úr þessu? ,,Á ekki von á því. Allir þessir fundir eru hluti af starfinu sem er að ljúka og ég á góðar minningar frá þeim sem ég ætla að varðveita og hugsa um,” segir Guðjón Erling, bæjarritari Garðabæjar til 40 ára og geri aðrir betur.

Í máli Sigríðar Huldu Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar og Þorbjargar Þorvaldsdóttur, bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans kom fram, er þær fluttu kveðjuorð til Guðjóns og afhentu honum blómvönd að gjöf á fundi bæ-jarstjórnar í síðustu viku, að Guðjón væri mjög vel liðinn af bæði meiri- og minnihlutanum í bæjarstjórn. Honum var hrósað að starfa að miklum heilindum fyrir alla bæjarbúa og þá var sérstaklega minnst á hversu góðan húmor Guðjón hefði.

Forsíðumynd: Bæjarstjórn Garðabæjar 1990-1994. Fv. Valgerður Jónsdóttir, Helga Kristín Möller, Eiríkur Bjarnason bæjarverkfræðingur, Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari, Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri, Laufey Jóhannsdóttir, Benedikt Sveinsson, Erling Ásgerisson, Sigrún Gísladóttir og Andrés B. Sigurðsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar