Stóri plokkdagurinn fer fram um allt land á laugardag og taka flest sveitarfélög þátt í þessu skemmtilega verkefni.
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar vill hvetja félagsmenn til að fá sér góðan göngutúr um GKG völlinn á laugardaginn með poka og góða hanska að vopni, og tína upp það rusl sem verður á vegi þeirra. ,,Þannig sláum við nokkrar flugur í einu höggi. Við gerum völlinn okkar snyrtilegan fyrir opnun og sjáum þær nýjungar og lagfæringar sem vallarstarfsmenn hafa verið að vinna við völlinn í vetur,“ segir Úlfar Jónsson íþróttastjóri GKG og bætir við: ,,Svo er upplagt að mynda okkur leikskipulag og sjá fyrir okkur öll góðu höggin sem við munum slá í sumar.“