Veturinn var okkur ekki hliðhollur til útiverka

segir Guðmundur Árni Gunnarsson vallarstjóri GKG

Sumarið er handan við hornið og það styttist í að golftímabilið utandyra hefjist. Hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) er undirbúningur vallarins kominn á fullt og starfsmenn hafið störf. Það er ávallt fróðlegt að vita þegar fer að vora hvernig völlurinn hefur komið undan vetri og hver áform sumarsins eru. ,,Veturinn var okkur ekki hliðhollur til útiverka þar sem töluvert frost var í jörðu, en nú er frostið á undanhaldi og við erum því byrjaðir í verkefnum sem verða tilbúin fyrir opnun vallarins,“ segir Guðmundur Árni Gunnarsson vallarstjóri GKG og bætir við: ,,Völlurinn er engu að síður að koma vel undan vetri, það er hins vegar ómögulegt að segja hvenær hann opnar því það stjórnast alfarið af veðrinu næstu tvær til þrjár vikurnar.”

Guðmundur Árni vallarstjóri að störfum sl. sumar

Munu félagsmenn sjá einhverjar breytingar á vellinum eftir veturinn? ,,Þær breytingar sem félagsmenn munu sjá eru fjölmargar. Við verðum með nýjar teigmerkingar og teigasett. Við unnum ýmis umbótaverkefni á efri hluta Leirdalsvallar, við erum að leggja kantsteina við teiginn á annarri á Mýrini og fyrstu á Leirdalnum og það stendur til að malbika tenginu á fyrsta teig á Mýrinni við brautina ásamt 47 teiginn ávið fyrstu braut á Leirdalsvelli. Fimmta holan á Mýrinni mun í framtíðinni spilast sem par 4 hola en á móti breytist sjöunda holan í par 5 holu. Ný brú yfir rásina á 16. Braut er að líta dagsins ljós þannig að það verður án efa töluverð upplifun fyrir félagsmenn að spila vellina okkar nú í upphafi sumars.”

Tryggð jafn góð aðstaða

Nú er að rísa fjölnota íþróttahús í bakgarðinum hjá ykkur og uppbygging í Vetrarmýr-inni er framundan. Hvaða áhrif mun það hafa á ykkur? ,,Nýtt fjölnota íþróttahús er að rísa í bakgarðinum hjá okkur og eðli málsins samkvæmt hefur það töluverð áhrif á okkur einkum og sér í lagi þá missum við æfingasvæðið fyrir löngu höggin og fimmta holan á Mýrinni styttist í par 4 holu. Garðabær tryggir það að við GKG-ingar séum að minnsta kosti jafn vel sett á eftir og höfum við nú tekið í notkun glæsilega innanhússaðstöðu sem rúmar 20 golfherma. Með þeim hætti höfum við í raun flutt æfingasvæðið innandyra og munum við veita þeim sem eiga skráðan rástíma hjá okkur að hita upp í golfhermunum gegn 500 króna greiðslu.”

Mikil tilhlökkun

Nú hefur Covid sjáfsagt haft mikil áhrif á ykkar starf í vetur, en með hækkandi sól og bólusetningum hljótið þið að horfa fram á gott golfsumar? ,,Það er mikil tilhlökkun í félagsmönnum að komast út á golfvöllinn. Sem betur fór gátum við spilað golf allt síðastliðið sumar og létti það lund félagsmanna verulega og ekkert bendir til annars en sumarið í ár verði með sama hætti. Golf er líka besta leiðin til að njóta útivistar á tímum Covid, engin hætta er á hópamyndum þar sem við hleypum fjórum aðilum í einu út á völlinn með 10 mínútna millibili,” segir Guðmundur að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar