Álagið er víða

Það er eru allir orðnir þreyttir og álagið er víða. Hjá Kópavogi starfa fjölmargir einstaklingar í velferðarþjónustu sem hafa þurft að sýna mikla útsjónarsemi í að halda úti viðkvæmri velferðarþjónustu. Starfsmenn hafa því miður þurft að forgangsraða þjónustunni á ýmsum stigum. Töluverðar áhyggjur eru af stöðu barna í faraldrinum sem búa við misjafnar aðstæður. Því hefur verið lögð áhersla á að viðhalda eins eðlilegri þjónustu barnaverndar og hægt er sem kallar á mikla nálægðarþjónustu og um leið áhættu á sóttkví og einangrun ráðgjafa.

Enn sem komið er hefur ekki þurft að leita til ættingja til að létta undir starfsálagi starfsmanna en til þess gæti komið ef heldur áfram sem horfir. Það er einnig ljóst að „hefðbundin“ sóttvarnarhús fyrir viðkvæma hópa myndu ekki duga því hefur verið í myndinni að leita til gistiheimila ef smit greinast á sambýlum. Það er tilefni til þess að hrósa starfsfólki bæjarins sem hefur af einurð, festu og brugðist vel við erfiðum aðstæðum að viðhalda mikilvægari nærþjónustu sem bærinn veitir, hvort sem það er í velferðarþjónustu eða í menntakerfinu.

Viljayfirlýsing um hjúkrunarheimili í Sunnuhlið.
Það var mikið fagnaðarefni að á síðasta bæjarstjórnarfundi, var viljayfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis samþykkt einróma. Málið er samt ekki einfalt því rétt við rætur um hugmynd að nýju hjúkrunarheimili er staðsett mikilvæg starfsemi Arnarskóla sem þjónustar af alúð fötluð börn allan ársins hring. Það var því samþykkt einnig tillaga Viðreisnar um að fara í mikilvæga þarfagreiningu á þjónustu við fötluð börn í Kópavogi og um leið að skoða möguleg kaup á landi ríkisins við hlið lóðar Kópavogs.

Framundan er mikil þörf á fjölgun hjúkrunarrýma á Íslandi. Mannfjöldaspár benda til þess að okkur haldi áfram að fjölga og sífellt stærri hópar munu þurfa á aðhlynningu heimaþjónustu að halda sem er á vegum sveitafélaga en einnig þarf að mínu mati að huga að nýjum úrræðum sem gætu verið í anda dvalarheimila fyrri tíma. Þar sem að fólk kemst jafnvel inn á stofnun sem er ekki aðframkomið af heilsuleysi og háum aldri. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir að stefna stjórnvalda sé að sem flestir búi sem lengst heima með heimaþjónustu að þá einfaldlega hentar það ekki öllum. Einmanaleiki háir mörgum sem á efri ár eru komnir, og margir hverjir eiga erfitt með að sækja félagsstarf og hreyfingu utan heimilis en eru ekki komnir svo langt að komast inn á hjúkrunarheimili. Hvernig slíkt úrræði gæti átt sér stað og á hvaða forræði veit ég ekki, en umræðuna um það myndi ég vilja taka lengra.

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar