Tónlistarskóli Kópavogs fór í tónleikaferð til Rómar

Hópur framhaldsnemenda við Tónlistarskóla Kópavogs fór nýlega í vel heppnaða ferð til Rómar vegna tónleikahalds í Erasmus+ verkefni skólans.

Verkefnið hófst haustið 2018 og átti að vera tveggja ára samstarfsverkefni þriggja skóla, tónlistarháskólans Santa Cecilia í Róm, tónlistardeildar tækniháskólans í Luleå í Svíþjóð og Tónlistarskóla Kópavogs, en vegna heimsfaraldurs varð að fresta lokaáfanganum þar til nú. Á fyrri stigum tók skólinn í tvígang á móti samstarfsfélögum sínum frá Ítalíu og Svíþjóð til æfinga og tónleikahalds og voru m.a. haldnir sameiginlegir tónleikar í Salnum og í Hörpu á Myrkum músíkdögum 2020, þar sem þátttakendur frumfluttu verk sem tónsmíðanemendur Luleå-tækniháskólans sömdu sérstaklega fyrir hópinn.

Sautján nemenda hópur úr Tónlistarskóla Kópavogs tók þátt í Rómarferðinni 11.-16. desember síðastliðinn; tíu manna flautukór ásamt nemendum á píanó, klarínett, fiðlu, gítar og hörpu og með þeim þrír kennarar skólans, Pamela De Sensi, Eydís Franzdóttir og Ásdís Hildur Rúnólfsdóttir. Haldnir voru þrennir tónleikar; þeir fyrstu í tónleikaröðinni „20 Eventi“ í Santa Lucia kirkjunni, aðrir í hinum fræga tónleikasal “Accademica Sal – Santa Cecilia“ og þeir síðustu í einstökum tónleikasal „Oratorio del Gonfalone“, sem er skreyttur 16. aldar freskum í hólf og gólf. Tónleikarnir tókust allir einstaklega vel og nemendurnir blómstruðu við tónlistarflutninginn. Upplifunin við að halda tónleika umkringdur árþúsunda gamalli menningarsögu Rómar var afar gefandi fyrir ungmennin og skilaði þeim reynslunni ríkari heim á ný. 

Þetta er fyrsta stóra samstarfsverkefnið sem tónlistarskóli á Íslandi hlýtur Erasmus+ styrk til og gríðarlegur innblástur fyrir nemendur skólans.

Nemendur segja frá sinni upplifun úr ferðinni: 
„Dvölin í Róm var sannkallað ævintýri. Kirkjur á hverju götuhorni, hver annarri fallegri og skreyttari, og ennþá fleiri gosbrunnar. Við sáum Colosseum, Péturskirkjuna og margar sögulegar minjar. Salirnir sem við spiluðum í voru allir gullfallegir og heppnuðust allir tónleikarnir vel. 
Ítalía olli ekki vonbrigðum þegar kom að mat. Maturinn var frábær í alla staði og engin yfirgaf veitingastað svangur. Milli tónleika og æfinga höfðum líka tíma til að rölta um göturnar og taka inn stemninguna í Rómarborg. Við vorum heppin með veður og það var svo gott að margir þurftu að kaupa sólgleraugu en úlpurnar voru varla teknar upp. Það var æðislegt tækifæri að fá að fara til annars lands og spila tónlist sem maður elskar og upplifunin að vera með vinum sínum á svona stað er engu öðru lík“.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar