Á. Guðmundsson hefur starfað í Kópavogi í 60 ár

Á. Guðmundsson er fjölskyldufyrirtæki sem byggir á sterkum grunni. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á skrifstofu og skólahúsgögnum þar sem íslensk hönnun og handverk er í fyrirrúmi.

Fyrirtækið var stofnað árið 1956 af hjónunum Maríu Sigmundsdóttir og Ásgeiri J. Guðmundssyni húsgagnasmíðameistara. Starfsemin hófst í 40fm2 húsnæði á Eiríksgötu 9 í Reykjavík en flutti svo í stærra húsnæði í Kópavogi árið 1962. Frá árinu 1999 hefur fyrirtækið verið staðsett í Bæjarlind 8-10 í Kópavogi.
Á. Guðmundsson hefur ávallt verið með arkitekta á sínum vegum sem sinna vöruþróun fyrirtækisins. Í fyrstu voru framleiddar ýmsar gerðir húsgagna. Síðar hófst framleiðsla skrifstofuhúsgagna og að endingu bættust skólahúsgögn í vöruhópinn.

Í dag framleiðir Á. Guðmundsson FLEX skrifstofuhúsgögnin sem Guðrún Margrét Ólafsdóttir og Oddgeir Þórðarson hanna. Auk þess framleiðir fyrirtækið fundar- og kaffistofuhúsgögnin SPUNA og SPROTA ásamt SPEKI skólahúsgögnum. Þessar þrjár línur eru hannaðar af Erlu Sólveigu Óskarsdóttir. Einnig eru FAXA fundastólarnir, sem eru hannaðir af Pétri B. Lútherssyni, framleiddir hjá fyrirtækinu.

Starfs í góðri sátt við samfélagið og umhverfið

„Fyrirtækið hefur alltaf lagt mikla áherslu á gæði í framleiðslu sem skilar sér í góðum og vönduðum húsgögnum til viðskiptavina. Íslensk hönnun og handverk hefur verið okkar einkenni frá upphafi. Við höfum verið leiðandi undanfarna áratugi í framleiðslu á skóla- og skrifstofuhúsgögnum. Hjá okkur starfa nú um 20 manns. Við höfum alltaf lagt áherslu á að starfa í góðri sátt við samfélagið og umhverfið,“ segir Ásgeir Haukur Guðmundsson fjármálastjóri fyrirtækisins.

Markaðsstofa Kópavogs og Kópavogspósturinn óska fyrirtækinu og fjölskyldunni til hamingju með 60 ára farsæla starfsemi í Kópavogi, sem setur fyrirtækið í hóp elstu starfandi fyrirtækja í bænum.

Mynd: Íslensk hönnun og handverk hefur verið einkenni fjölskyldufyrirtækisins Á. Guðmundssonar frá upphafi. F.v. Guðmundur Ásgeirsson framkvæmdarstjóri, Ásgeir Haukur Guðmundsson fjármálastjóri og Sigmundur Ásgeirsson rekstrarstjóri

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar