1400 umsóknir hafa borist

Í sumar býðst unglingum í Kópavogi fæddum á árunum 2004-2007 að vinna hjá Vinnuskóla Kópavogs. Spennandi sumar er framundan þar sem rúmlega 1400 umsóknir hafa borist til Kópavogsbæjar. Til viðmiðunar má nefna það að sumarið 2019 störfuðu í kringum 930 ungmenni í Vinnuskólanum. Vinnuskólinn er útiskóli þar sem flest verkefni snúast um garðyrkju og umhirðu í hefðbundnu hópastarfi.

Umhverfisfræðsla, jafningjafræðsla ásamt fræðslu frá ASÍ

Í sumar býðst nemendum gríðarlega fjölbreytt fræðsla, meðal annars umhverfisfræðsla, jafningjafræðsla ásamt fræðsla frá ASÍ er snýr að réttindum og skyldum á vinnumarkaði. Starfið hófst í síðustu viku þegar elsti hópurinn mætti til starfa. Elstu nemendum skólans býðst að sækja um hjá félögum og stofnunum í sveitarfélaginu. Þeir nemendur sem vinna á þessum stöðum eru undanþegnir tímabilum Vinnuskólans og vinna í samráði við stjórnendur á vinnustað þá tíma er vinnuskólinn heimilar. Fyrsti starfsdagur hjá unglingum fæddum á árunum 2005–2007 er þann 14. júní. ,,Við erum full tilhlökkunar yfir því að taka á móti nemendum sumarsins og vonumst eftir ánægjulegu samstarfi,“ segir Iðunn Berta Magnúsdóttir hjá Vinnuskóla Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar