Ótrúlega skemmtilegt mót

Ein besta knattspyrnukona landsins, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir varð Símamótsmeistari árið 2011, en hún tók þátt á mótinu í 7., 6. og 5. flokki

Það hafa sjálfsagt flestar ef ekki allar ungar og efnilegar knattspyrnukonur tekið þátt í Símamótinu í gegnum árin enda eru 37 ára liðin síðan fyrsta Símamótið var haldið.

Ein þeirra sem hefur tekið þátt á Símamótinu og látið af sér kveða er hin magnaða Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sem átti frábært ár með Breiðablik og íslenska landsliðinu á síðasta tímabil. Árangur hennar í fyrra varð til þess að stórliðið Bayern Munchen keypti hana í byrjun árs og varð Karólína Lea þýskur meistari á sínu fyrsta ári auk þess sem liðið datt út í undanúrslitum meistaradeildarinnar.
Karlólína Lea er aðeins 20 ára en hefur engu að síður leikið 94 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 15 mörk auk þess sem hún hefur leikið 8 A-landsliðsleiki og skorað þrjú mörk. Þá eru ótaldir tæplega 50 landsleikir með yngri landsliðum Íslands.

Karólína Lea á Símamótinu fyrir 10 árum

Símamótið var hápunktur sumarsins

En man Karólína Lea, sem var í yngri flokkum FH, vel eftir þátttöku sinni á Símamótinu og hvernig gekk. Voru þetta skemmtilegt mót? ,,Ég man mjög vel eftir Símamótinu. Það var alltaf hápunktur sumarsins. Það var Símamótið 2011 sem ég man sérstaklega eftir en þá var ég í 6. flokki og við unnum mótið,“ segir Karólína Lea.

Eru einhverjar stelpur sem voru með þér í liðinu enn að spila í dag? ,,Já, hellingur ef ekki allar. Við vorum mjög góður árgangur hjá FH og unnum nánast öll mót sem við tókum þátt í.“

Þetta var alvöru barátta og kjaftur á þeim

Og einhverjir minnistæðir andstæðingar? ,,Já, ég man eftir að spila á móti Hildi Þóru í Breiðablik og Sveindísi sem var með Keflavík. Það var alltaf hundleiðilegt að mæta Keflavík en þar voru Íris Una og Katla María fremstar í flokki ásamt Sveindísi auðvitað. Það var alvöru barátta og kjaftur á þeim,“ segir hún brosandi

Karólína Lea á Símamótinu árið 2011 en það mót er henni sérstaklega eftirminnilegt enda sigraði FH á mótinu

Mögnuð umgjörð í kringum Símamótið

Þegar þú lítur til baka hvað var það helst sem Símamótið skildi eftir sig? ,,Mögnuð umgjörð alltaf í kringum mótið. Mikil stemming og svo er ekkert skemmtilegra en að spila fótbolta fyrir framan fjölskylduna sem hvetja mann endalaust áfram. Maður tekur því sem sjálfsögðum hlut þegar maður er lítill en þegar maður eldist þá áttar maður sig á því hvað stuðningur er mikilvægur.“

Það var draumur minn að komast í atvinnumennsku

En þú ert kominn á aðeins annan stað í dag – hvernig kanntu við þig hjá Bayern Munchen? ,,Rosalega vel. Það hefur alltaf verið minn draumur að komast í atvinnumensku. Bayern Munchen tók vel á móti mér og það hefur verið skemmtilegt að æfa með bestu leikmönnum heims.“

Er þetta ekki mikið stökk fyrir svona ungan leikmann eins og þú ert – að fara ein erlendis og til eins besta félagsliðs Evrópu? ,,Klárlega. Mjög erfitt fyrst en ég náði að koma mér vel fyrir og er heppin með klúbb sem er rosalega fagmannlegur í að taka á móti ungum leikmönnum. Þessi fyrstu skref hafa verið krefjandi en skemmtileg.“

Það var alltaf draumur Karólínu Leu að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Draumurinn rættist svo í byrjun árs þegar hún samdi við Bayern Munchen og hún vann þýska meistaratitilinn með liðinu á sínu fyrsta ári og auk þess sem liðið komst í undanúrslit meistaradeildarinnar.

Hvernig er dagur í lífi Karólínu Leu í Þýskalandi? ,,Ég vakna um 07:45 og fæ mér hafragraut svo keyri ég á æfingasvæðið þar sem við æfum frá 09:45-12:00 en svo er hádegismatur á æfingasvæðinu. Svo er oft önnur æfing kl 15:00 eða maður fer í nudd til að vera ferskur í öllu æfingaálaginu. Svo fer ég heim og elda mér góðan kvöldmat. Svo heyri ég í kærastanum og fjölskyldunni áður en ég fer að sofa. Það er ekki flóknari en það.“

En nú ertu komin heim í sumarfrí. Er þetta langt stopp, á að gera eitthvað skemmtilegt og hvenær ferðu aftur út? ,,Ég fór beint í landsliðsferð eftir tímabilið úti þannig þetta er sirka 4 vikna frí sem ég fæ. Ég er búin að eyða tímanum með fjölskyldunni og vinum en það finnst mér mjög dýrmætt. Ég fer svo aftur út núna 11. júlí og þá fer allt á fullt.“

Ætlar að mæta á nokkra leiki í Símamótinu

Og ætlar þú að mæta eitthvað á Símamótið og fylgjast með þessum ungu og efnilegum stelpum? ,,Ég ætla reyna mæta á nokkra vel valda leiki.“

Viltu gefa þátttakendum á Símamótinu einhver holl og góð ráð fyrir mótið og fyrir framtíðina í fótboltanum? ,,Gangi ykkur rosalega vel á Símamótinu stelpur, njótið þess í botn og hugsið um að bæta ykkur með hverjum leiknum,“ segir Karólína Lea að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar