Í meira en þrjá áratugi hefur Kvennahlaup ÍSÍ stuðlað að lýðheilsu kvenna, en fyrsta kvennhlaupið fór fram 30. júní 1990 í Garðabæ. Á laugardaginn verður kvennahlaupið haldið í 32. skipti, en í dag fer hlaupið víðsvegar um landið.
Frá upphafi hefur fjölmennasta kvennahlaupið ávallt verið í Garðabæ og má reikna með að svo verði áfram í ár. Vegna samkomutakmarkanna var hlaupið með nokkru breyttu sniði í fyrra og Hrönn Guðmundsdóttur, sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, var spurð nánar um kvennahlaupið sem fram fer á laugardaginn, en mikill fjöldi kvenna úr Garðabæ og Kópavogi taka þátt í hlaupinu sem fram fer í Garðabæ.
Hvaða fyrirkomulag og framkvæmd hlaupsins með breyttu sniði í ár vegna samkomutakmarkanna og þurfa konur að hafa einhverjar áhyggjur? ,,Við munum fara eftir sóttvarnarreglum í einu og öllu og krefjumst þess af þeim sem mæta að fólk virði það. En þar sem allir eru orðnir svo sjóaðir í þessari baráttu þá hef ég engar áhyggur af því að það verði nokkuð mál. Við munum setja upp 200 manna hólf og ræsa þau með nokkurra mínútna millibili. Eins munum við biðja fólk um að hópast ekki saman að óþörfu eftir hlaup.”
Þannig að þátttakendur þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur og eiga að geta notið þess að koma saman og hafa gaman? ,,Algjörlega og við vonum svo sannarlega að konur og menn fjölmenni út með okkur og hlaupi saman. Sameinum tvo mikilvæga þætti lífsins, hreyfingu og samveru.”
Það eru meira en þrír áratugir síðan fyrsta kvennahlaupið fór fram, fyrir hvað stendur kvennahlaupið í dag og hefur það eitthvað breyst í áranna rás og með breyttum tíðar-anda? ,,Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Allt frá því fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990 í Garðabæ hafa þúsundir kvenna um land allt notið þess að hreyfa sig saman. Í Kvennahlaupinu koma saman konur á öllum aldri og algengt er að margir ættliðir, vinkonur eða systur hlaupi saman. Kvennahlaup nútímans snýst um hreyfingu sem hentar hverjum og einum, samveru kynslóðanna, líkamsvirðingu, sanngirni, umhverfismeðvitund og valdeflingu. Einkunnarorð Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ 2021 eru líkt og áður „Hlaupum saman.”
Kvennahlaupsbolurinn hefur verið ómissandi hluti af hlaupinu undanfarin ár en nú hefur hugsunin á bak við hann verið endurskoðaður í takt við breyttan tíma – hvernig þá? ,,Eftir að 30 ára afmæli Kvennahlaupsins var fagnað með pompi og prakt árið 2019 var ákveðið að gera breytingar á framkvæmd þess. Þær eru fyrst og fremst gerðar með tilliti til umhverfissjónarmiða, samhliða því að reyna að höfða til yngri kynslóða. ÍSÍ taldi ekki lengur ásættanlegt að bjóða upp á mörg þúsund boli sem hver og einn er pakkaður í plast og ekki með umhverfisvottaða framleiðsluhætti. Þá var einnig tekin ákvörðun um að sleppa verð-launapeningunum þar sem mikið magn af þeim var afgangs ár hvert. Þessar breytingar eru gerðar með það í huga að gera hlaupið sem umhverfisvænast.”
Sameina tvö mikilvægustu þætti lífsins
Og kjörorð hlaupsins í ár er ,,Hlaupum saman“ í hvað vísar það? ,,Þessi gildi okkar og markmið að sameina tvo mikilvæga þætti lífsins, hreyfingu og samveru. Og einnig til að undirstrika það að í Kvennahlaupinu koma saman konur og menn á öllum aldri og allir taka þátt í hlaupinu á sínum forsendum og áhersla er lögð á að allir fari á sínum hraða og með bros á vör.”
Og þótt talað sé um kvennahlaup, með áherslu á hlaup, þá koma konur og taka þátt í hlaupinu á sínum forsendum s.s. fara á sínum hraða, gangandi, hlaupandi, bara að njóta? ,,Jú mikið rétt eins og áður sagði þá fara allir á sínum forsendum og sínum hraða og það er engin tímataka. Bara vera saman, njóta og hafa gaman. Og minnum á að öll kyn eru velkomin.”
Fjölmennasta hlaupið hefur ávallt verið í Garðabæ, hvernig er og verður dagskrá á Garðatorgi á laugardaginn vegna samkomutakmarkanna? ,,Það verðu í raun bara upphitun. Öll önnur dagskrá hefur verið lögð til hliðar að þessu sinni en vonum svo sannarlega að á næsta ári verði hægt að blása til glæsilegrar hlaupaveislu.”
Og þú hvetur allar konur til að vera með? Allir geta tekið þátt og allir eru velkomnir. Hugum að heilsunni og hlaupum eða göngum saman á laugardaginn.”
Hvenær hefjast svo leikar á laugardaginn á Garðatorgi í Garðabæ? ,,Upphitun hefst kl. 10:30 og ræsing hefst svo klukkan 11 og hólfin ræst koll af kolli með nokkurra mínútna millibili eins og áður sagði,” segir Hrönn að lokum.