Öllum boðið góðan ,,dæinn” sama hvað klukkan er!

Dæinn er nýtt og vinalegt kaffihús og vínbar í Urriðaholti í Garðabæ, en Dæinn er staðsett ur að Vinarstræti 14, við Urriðaholtsskóla. Það eru félagarnir Davíð Sigurðsson og Alexander Sindrason sem eiga og reka staðinn.

Sól frá morgni til kvölds

Hvernig kom það til að þið opnuðu kaffihús og vínbar í Urriðaholti? ,,Við vorum lengi búnir að vera skoða að gera eitthvað sjálfir og fara út í daglegan rekstur. Þegar þetta húsnæði kom upp þá vorum við ekki lengi að stökkva af stað og tryggja okkur þetta rými. Þetta húsnæði býður upp á gott útisvæði og við fáum sólina frá morgni til kvölds sem er draumi líkast. Sem miklir kaffi- og vínunnendur þá var aldrei spurning en bjóða fólki gott kaffi og gott vín með það fyrir sjónarmiði að búa til félagsmiðstöð fyrir íbúa hverfisins sem og aðra sem vilja vera í notalegum umhverfi,” segir Alexander.

Davíð Sigurðsson skenkir í eitt gott rauðvínsglas

Viljum búa til góðar minningar

Hafið þið félagar áður komið að rekstri kaffihúss eða veitingastaðar? ,,Já, Davíð hefur komið að rekstri veitingastaðar áður. Kveikjan af þess kemur frá þeirri löngun að vilja búa til góðar minningar. Fólk kemur hingað og á gæðastund með vinum, fjölskyldu eða sjálfum sér. Við höfum brennandi áhuga að því að bjóða fólki upp á þess konar minningar og notalegt andrúmsloft.”

Bjóða upp á holla valkosti í bland við sætindi

En staðurinn er bland af kaffihúsi og vínbar – fer þetta sama og hvað er svona almennt í boði á Dæinn? ,,Já, það er rétt, staðurinn er blanda af kaffihúsi og vínbar og fer það mjög vel saman þar sem áhersla er lögð á að bæði kaffið og vínið sé fyrsta flokks. Á daginn er meiri áhersla á þessa kaffihúsamenningu þar sem boðið verður uppá holla valkosti í bland við sætt með kaffinu, en að dönskum sið er ekkert að því að fá sér vínglas ef fólk er í stuði fyrir það. Kvöldin eru meira gædd góðu léttvíni, kampavíni, bjór og koteilum í bland við osta, væn og dæn stemning. Íþróttaviðburðir verða ekki sýndir hjá okkur, við viljum skapa notalegt umhverfi fyrir unga sem aldna þar sem fólk getur skapað minningar, annars geta allir tekið með sér símtækið og legið yfir boltanum,” segir hann brosandi.

Dýrkum kaffihúsamenningu

Eruð þið sjálfir mikið fyrir góðan kaffisopa og hvaða kaffibolli er vinsælastur hjá ykkur? ,,Já, heldur betur, við drekkum alltof mikið af kaffi ef þú spyrð einhverja aðra en okkur. Við erum löngu hættir að telja bollana sem við fáum okkur á hverjum degi,” segir Alexander og brosir. ,,Við dýrkum þessa kaffihúsamenningu, og förum mikið á kaffihús til að skeggræða heimsmálin. Okkar vinsælasti kaffibolli er Cappucino og er ýmist tekinn með venjulegri eða haframjólk”.

Og þið hvetjið náttúrlega þá Garðbæinga sem búa í Urriðaholti eða gera sér ferð í Urriðholti og Kauptún til kíkja í einn kaffibolla? ,,Að sjálfsögðu. Við hvetjum alla til þess að koma og kíkja í kaffi eða vín og njóta þess að vera til. Það verður öllum boðið góðan dæinn sama hvað klukkan er,” segir hann að lokum en Dæinn er opinn mánudaga til miðvikudaga frá 9-17, fimmtudaga og föstudaga frá 9-22, laugardaga 10-22 og sunnudaga 10-16.

Forsíðumynd: Félagarnir Davíð Sigurðsson og Alexander Sindrason eiga og reka staðinn Dæinn í Urriðaholti

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar