Vill láta gera reglulegar púlsmælingar á starfsfólki Garðabæjar

Guðlaugur Kristmundsson, varabæjarfulltrúi Viðreisnar vill láta gera áætlanir um kannanir meðal starfsmanna á starfsumhverfi, líðan, samskiptum og vinnuaðstöðu með púlsmælingum.

,,Markmið púlsmælinga er að lækka starfsmannaveltu til þess að draga úr kostnaði og viðhalda í þekkingu núverandi starfsmanna en ekki síður til þess að greina tækifæri til þess að bæta líðan, auka afköst og greina tækifæri til starfsþróunar. Þá má nýta niðurstöður til þess að greina tækifæri til þjálfunar og endurmenntun starfsmanna annars vegar og markvissrar og einstaklingsmiðaðra tækifæra til stjórnendaþjálfunar. Sé ekki til þekking meðal stjórnenda eða mannauðsteymis Garðabæjar í púlsmælingum þá skuli ráðgjafi fenginn til aðstoðar við þessa áætlanagerð,“ segir í tillögu Kristmundar og greinagerð fylgdi tillögunni kemur m.a. afram að starfsmenn séu Garðabæ mikilvægir og nauðsynlegt að huga að mannauðsmálum með nýstárlegum aðferðum til þess að tryggja þróun starfsumhverfis. ,,Púlsmælingar eru framkvæmdar reglulega, til dæmis mánaðarlega. Með áþreifanlegum gögnum er hægt að fara í mikilvægan og verðmætan samanburð milli stofnana eða tímabila til þess að sjá árangur inngripa eða stuðnings.
Með reglulegum og skipulögðum könnunum meðal starfsmanna má greina vandamál fyrr og stíga inn í áður en þau skapa óþarfa kostnað eða tími þeirra fer til spillis. Stjórnendur sjá tækifæri til úrbóta í eigin störfum og hvar endurmenntun henti þeim best til þess að ná betri tökum á starfi sínu.
Það er trú okkar í Viðreisn að púlsmælingar gætu reynst mikilvægt tæki til þess að halda aftur af kostnaði, minnka starfsmannaveltu, auka ánægju starfsmanna og halda áfram að laða að hæft starfsfólk til Garðabæjar.“

Almar Guðmundsson

Verklag til staðar sem gerir reglulegar kannanir undir nafninu Starfsmannapúlsinn og Skólapúlsinn

Almar Guðmundsson, tók til máls um framkomna tillögu og lagði fram eftirfarandi bókun. „Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir mikilvægi þess að gerðar séu kannanir á vinnuumhverfi, samskiptum og líðan starfsmanna bæjarins. Mannauðsstefna Garðabæjar, lýðheilsu- og forvarnarstefna bæjarins og þau heimsmarkmið sem Garðabær hefur ákveðið að innleiða styðja við þetta. Til staðar er verklag þar sem gerðar eru reglulegar kannanir undir nafninu starfsmannapúlsinn og skólapúlsinn, sem hefur verið að styrkjast í sessi. Það liggur þó fyrir að eðlilegt er að þróa notkun samræmdra og tíðari vinnustaðamælinga og unnið hefur verið að því á mannauðs- og kjaradeild.
Framkomin tillaga þarfnast nánari vinnu eins og fram kemur í efni hennar, auk þess sem eðlilegt er ræða fjárhagsleg mál henni tengd. Er því lagt til að tillögunni verði vísað til bæjarstjóra og til gerðar fjárhagsáætlunar.“

Bæjarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til bæjarráðs, bæjarstjóra og til afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.

Forsíðumynd: Guðlaugur Kristmundsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar