Vilja gera mat á vistvænum samgöngum í Garðabæ

Jóna Sæmundsdóttir

Jóna Sæmundsdóttir og Björg Fengir hafa lagt fram tillögu í bæjarstjórn Garðabæjar um að að gera heildstætt mat á vistvænum samgöngum í Garðabæ.

,,Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að fela tækni- og umhverfissviði bæjarins að taka saman greinargerð þar sem fjallað verður með heildstæðum hætti um vistvænar samgöngur í bæjarfélaginu. Í því felst m.a. að tekin verði saman núverandi staða og þær aðgerðir sem samþykktar hafa verið er varða almenningssamgöngur, hleðslustöðvar, rafhjólaleigur og göngu- og hjólastíga. Mun greinar-gerðin m.a. verða grundvöllur aðgerðaáætlunar sem gerð verður í framhaldinu.“

Og í greinagerð sem fylgdi með tillögunni segir:
,,Mikilvægt er að kortleggja stöðuna og þær aðgerðir/framkvæmdir sem nú þegar hafa verið samþykktar með heildstæðum hætti til að hægt verði að móta framtíðarsýnina og þær aðgerðir sem vinna að henni. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki höndum saman til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að standa skil gagnvart Parísarsamkomulaginu en þar skipta vistvænar samgöngur veigamiklu hlutverki. Því þarf áfram öfluga og örugga innviðauppbyggingu fyrir hjólandi og gangandi. Markvisst þarf að vinna að orkuskiptum í almenningssamgöngum og einkabílum. Eitt af markmiðum umhverfisstefnu Garðabæjar er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá umferð. Efla Garðabæ sem sjálfbært samfélag og auðvelda og þar með hvetja fólk til að nota umhverfisvæna ferðamáta auk þess að stuðla að heilsueflingu íbúa.
Vistvænar samgöngur falla vel að markmiðum heilsueflandi samfélagi og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna t.d. nr 3 (heilsa og vellíðan), nr. 11 (sjálfbærar borgir og samfélög) og nr. 13 (aðgerðir í loftlagsmálum). Tryggja þarf aðkomu barna og ungmenna að næstu skrefum sem notendur vistvænna samgöngumáta.”

Forsíðumynd. Björg Fenger

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar