Vilja fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að skipa undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ, en markmið nefndarinnar er að vinna að undirbúningi þess að fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg.

Samkvæmt tillögunni á nefndin m.a. huga að heildarsýn fyrir Garðatorgssvæðið, framkvæmdum og tengingum frá Hofsstöðum auk nærliggjandi svæða, gatna og stíga þar sem markmiðið er aðlaðandi umhverfi og miðbæjarsvæði sem virkar. Þá á nefndin að skoða hvernig hugmyndasamkeppni geti nýst í þeirri vinnu. Þá skal nefndin kanna og rýna mögulegar áfangaskiptingar framkvæmda og tímaramma. Nefndin skal leggja áherslu á náið samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu.

Nefndin verður skipuð 3 kjörnum fulltrúum (2 úr meirihluta og 1 frá minnihluta) og hefur bæjarráð samþykkt að skipa þau Sigríði Huldu Jónsdóttur (formaður nefndarinnar), Pálma Frey Randversson og Ósk Sigurðardóttur í undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ. Með nefndinni starfi svo viðeigandi starfsmenn bæjarins. Nefndin getur einnig leitað til sérfræðinga eða kallað þá á fund til sín.

Nefndin á að skili fyrstu niðurstöðum um miðjan október 2022 þannig að unnt verði að styðjast við þær við gerð fjárhagsáætlunar 2023-2026, en vinni síðan áfram og leggi fram fullgerðar hugmyndir á fyrri hluta árs 2023.

Aðlaðandi miðbær eflir bæjarbrag, laðar að fólk, fyrirtæki og þjónustu

Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að mikilvægt sé að skipuleggja og áfangaskipta framkvæmdum við aðlaðandi miðbæ í Garðabæ, við og í kringum Garðatorg, þar sem horft er á miðbæjarsvæðið heildstætt. Hugað verði að framkvæmdum, tengingum og virkni nærliggjandi gatna og stíga. ,,Farið verður yfir gögn sem liggja fyrir, tækifæri sem felast í hugmyndasamkeppni og öðru vinnulagi þar sem leitast er eftir nútímalegri hönnun sem styður við jákvæða upplifun og fjölbreytt mannlíf á samtengdum svæðum. Aðlaðandi miðbær eflir bæjarbrag, laðar að fólk, fyrirtæki og þjónustu. Þar stendur íbúum til boða fjölbreytt verslun og þjónusta, vettvangur til samveru, afþreyingar og lista. Undirbúningsnefnd um uppbyggingu heildstæðs miðbæjar í Garðabæ vinnur að því að móta sýn fyrir Garðatorg auk hönnunar og tengingar við nærliggjandi svæði til framtíðar í samstarfi við bæjarbúa, fagaðila og hagsmunaaðila. Í því felst m.a. að endurgera yfirbyggða hluta torgsins (göngugatan og við bókasafn), huga að aðkomu, bílastæðum, aðgengi, merkingum, hljóðvist og lýsingu. Skilgreina framkvæmdir, ásýnd, og tengingar nærliggjandi svæða, gatna og stíga.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar