Þær sögur hafa nú verið staðfestar, sem hafa gengið í töluverðan tíma að Viðreisn hefur nú klofið sig formlega úr Garðabæjarlistanum og mun bjóða fram sjálfstæðan lista í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæjarlistanum og Viðreisn, en aðalfundur Garðabæjarlistans fór fram í kvöld. Því mun Garðabæjarlistinn og Viðreisn bjóða fram sitthvorn listann í sveitarstjórnarkosningunum í Garðabæ í maí á næsta ári.
Garðabæjarlistinn var stofnaður í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018 með aðkomu félagsmanna úr Samfylkingunni, Vinstri græn, Viðreisn, Bjartri framtíð, Pírötum og óháðum og náðu listinni inn þremur fulltrúum í bæjarstjórn af ellefu.
Ingvar og Sara Dögg sækjast eftir oddvitasæti
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur Ingvar Arnarson, sem skipaði 2. sæti á lista Garðabæjarlistans áhuga að leiða listann nú við brotthvarf Söru Daggar. Að sama skapi sækist Sara Dögg Svanhildardóttir eftir að leiða lista Viðreisnar en hún leiddi Garðabæjarlistann fyrir síðustu kosningar og hefur verið fulltrúi Viðreisnar í því samstarfi allt þetta kjörtímabil. Þá hefur sú saga einnig gengið að Harpa Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi, sem skipaði þriðja sætið á lista Garðabæjarlistans. muni fylgja Söru Dögg eftir í Viðreisn.
Forsíðumynd: Reiknað er með að Ingvar Arnarson muni sækjast eftir að leiða lista Garðabæjarlistans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí.