84 tilboð bárust í 26 lóðir í Kumlamýri

Alls bárust um 84 umsóknir í 26 parhúsalóðir í Kumlamýri á Álftanesi, en Garðabær auglýsti um miðjan nóvember til sölu byggingarrétt parhúsalóðir í Kumlamýri á Álftanesi.

Tilboðin voru opnuð í morgun á fundi bæjarráðs Garðabæjar. Garðabær óskaði í auglýsingunni eftir tilboðum í óskilgreindar samliggjandi lóðir og gat sami einstaklingurinn aðeins boðið í eina lóð. Lágmarksverð fyrir byggingarréttinn fyrir hverja lóð var 10 milljónir króna, auk þess sem gatnagerðargjald leggst ofan á og miðast það við byggða fermetra.

26 lóðir í Kumlamýri voru boðnar út, en alls bárust 84 tilboð í lóðirnar

Frábær staðsetning

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ er ánægður með þennan mikla áhuga á lóð-unum. ,,Þessi áhugi kemur ekki á óvart enda lóðirnar í Kumlamýri mjög vel staðsettar,” sagði Gunnar.

Fær Garðabær um 400 milljónir fyrir lóðirnar?

Reikna má með miðað við lóðarskort á höfuðborgarsvæðinu að flest tilboðin munu vera töluvert hærri en 10 milljónir fyrir lóð, en þeir tveir einstaklingar sem eiga hæsta sameiginlega tilboð í tvær samliggjandi lóðir fá fyrsta rétt til að velja lóðir á svæðinu. Næsta valrétt eiga þeir sem eiga næst-hæsta tilboð og svo koll af kolli. Þeir tilboðsgjafar sem ekki fá valrétt veru settir á biðlista. Garðabær mun fá minnst 260 milljónir króna fyrir bygginarréttinn, en miðað við áhugann og hversu fáar lóðir eru í boði á höfuðborgarsvæðinu má reikna með að Garðabær fái jafnvel um og yfir 400 milljónir fyrir lóðirnar þ.e.a.s. að umsóknaraðilar munu bjóða töluvert hærra en 10 milljónir í hverja lóð.

Sveit í borg

Heildarskipulag svæðisins miðar að því að framtíðarbyggð verði í sem bestu samræmi við umhverfið og taki mið af hugmyndinni um Álftanes sem „sveit í borg“. Þannig er gert ráð fyrir lifandi og fjölbreyttri byggð í góðum tengslum við skóla og útivistarsvæði.

Kumlamýri, ný gata, liggur í suðurátt frá Suðurnesvegi og frá henni kvíslast botnlangar. Parhús við Kumlamýri verða áþekk einbýlishúsum í útliti með mæni og nýtanlegu risi. Parhúsin eru staðsett saman í þyrpingu með sameiginlegu götu- og íverusvæði í miðju. Húsin verða 1 hæð og ris.

Einungis einstaklingar gátu gert tilboð í lóðirnar

Fram kom í tilboðslýsingu að einungis einstaklingar gátu gert tilboð í lóðirnar og þurftu tveir einstaklingar saman að gera sameiginlegt tilboð í tvær samliggjandi parhúsalóðir og eru sameiginlega ábyrgir fyrir greiðslu byggingarréttargjalds fyrir báðar lóðirnar. Tilboðsfjárhæð í hvora lóð átti að vera sú sama í báðum tilvikum. Þeir sem eru skráðir á sama heimili, eins og hjón og fólk í sambúð gátu aðeins staðið saman að einni umsókn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar