Viðburðaríku menningarári í Garðabæ lokið

Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar var beðin um að líta yfir menningarárið 2021 sem hefur sannarlega litast af heimsfaraldri sem enn sér ekki fyrir endann á.

„Frá byrjun september gátum við boðið almennum gestum að sækja viðburði á Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og í Tónlistarskóla Garðabæjar en dagskráin á vorönn 2021 var að mestu einskorðuð við móttöku á skólahópum“ segir Ólöf.

Í maí fékk Menning í Garðabæ ríflegan styrk úr Barnamenningarsjóði sem gerði mögulegt að bjóða uppá veglega viðburði fyrir fjölskyldur en sú dagskrá ber yfirskriftina Við langeldinn/Við eldhúsborðið. Ókeypis viðburðir eru haldnir tvisvar í mánuði, annarsvegar í Hönnunarsafni Íslands og hinsvegar á Bókasafni Garðabæjar en allir viðburðir tengjast á einhvern hátt landnámsskálanum í Minjagarðinum að Hofsstöðum. Í september hóf einnig göngu sína hádegistónleikaröðin Tónlistarnæring sem er samstarfsverkefni menningar- og safnanefndar við Tónlistarskóla Garðabæjar. Einn miðvikudag í mánuði er boðið uppá ókeypis tónleika með einvala liði tónlistarmanna en nú síðast í desember kom Kristinn Sigmundsson fram.
„Við höfum sannarlega ekki geta haldið okkar striki að öllu leiti, t.d. féll aðventuhátíð niður annað árið í röð, Tónlistarhátíð í skammdeginu sömuleiðis og tónleikar fyrir grunnskólabörn frestast yfir á nýtt ár. Við erum samt bara ánægð með alla þá sem við höfum geta glatt, bæði skólabörn, fjölskyldur og þá sem sækja hádegistónleika. Á milli jóla og nýárs kom svo út nýr dagskrárbæklingur út en hann var borinn í hús. Þeir sem ekki fengu hann inn um lúguna geta sótt hann í þjónustuver, á bókasafn eða Hönnunarsafn eða einfaldlega skoðað á vef Garðabæjar. Dagskrá janúar verður etv. eitthvað skert ef faraldurinn heldur sínu striki en við horfum bara fram á veginn til bjartari tíma og bregðumst bara við þeim aðstæðum sem koma uppá“ segir menningarfulltrúinn glöð í bragði.

Mynd: Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi ásamt samstarfskonum sínum Sigríði Sigurjónsdóttur forstöðumanni Hönnunarsafns Íslands, Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur viðburðastjóra Bókasafns, Margréti Berndsen forstöðumanni Bókasafns Garðabæjar og Þóru Sigurbjörns sérfræðingur á Hönnunarsafni Íslands.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar