Öflugt félagsstarf í MK þrátt fyrir samkomutakmarkanir

Félagslíf Menntaskólans í Kópavogi gekk vel sl. haust þrátt fyrir samkomutakmarkanir og viðvarandi grímunotkun.

Nýnemar fóru í hefðbundna nýnemaferð þar sem þau gistu eina nótt á Flúðum. Ferðin fór í alla staði vel fram enda eru nemendur í MK bæði kurteisir og prúðir. Það var margt brallað í ferðinni, spilað og leikið bæði úti og inni þar sem vinaböndin fyrir komandi menntaskólaár voru styrkt.

Nemendur á öðru ári fóru ekki í nýnemaferð í fyrra þar sem skólahald var takmarkað vegna Covid-19 faraldursins. En úr því var bætt í haust og árgangur 2004 fór líka í „næstumþvínýnemaferð“ í Vatnaskóg. Svona er lífið í MK þessi misserin, við þurfum bara að njóta á meðan samkomutakmarkanir leyfa.

Guðríður skólameistari og Guðni forseti með hluta af nemendum á afreksbraut

Kosningum til Alþingis voru gerð góð skil að vanda og mikið lagt upp úr því að nemendur skólans fylgdust með kosningunum og mynduðu sér skoðun úr frá eigin brjósti. Í framhaldinu voru haldnar skuggakosningar í skólanum sem hvatti enn frekar til umræðu meðal nemenda um íslensk stjórnmál og samfélagsleg málefni.

Skólinn hefur verið í góðu samstarfi við Molann ungmennahús þetta haustið. Nemendur í MK hafa farið í heimsókn og skoða aðstæður í minni hópum til þess að allir fái gott tækifæri á að kynnast starfseminni. Í framhaldi þess var svo haldið nýnemakvöld í Molanum.

Aðstaða nemenda í skólanum er alltaf að verða betri og í haust var vígt nýtt rými fyrir nemendur þar sem þau geta skemmt sér á milli kennslustunda. Þar má finna poolborð, borðtennisborð, píluspjald og fleira. Í viðbót við það geta nemendur nú fengið lánuð borðspil á bókasafninu, það er ekki síður hluti af náminu í MK að gera sér eitt og annað til skemmtunar á skólatíma og spilamennska upp á gamla mátann er ágætis lífsleikni þar sem nemendur æfa samskipti og samstarf í gegnum spilamennskuna.

Í fyrsta skiptið þetta haustið var haldin hin árlega kokteilakeppni (óáfeng auðviðað). En í þessari keppni fengu allir nemendur skólans tækifæri til að kynnast því hvað nemendur í matvælaskólanum eru að gera í sínu námi. Þessi keppni sló algjörlega í gegn og allar líkur á að þetta verði árlegur viðburður. Í framhaldinu er stefnt að því að kynna fleiri deildir matvælaskólans fyrir nemendum í almennu bóknámi.

Sigurvegarar í óáfengu koktailakeppninni.

Forvarnir eru mikilvægur hluti af starfinu í MK. Á forvarnadeginum 6. október var mikil dagskrá í skólanum, nemendur fengu fræðslu frá barnahúsi, samfélagslögreglunni og Eva Ruza fyrrverandi nemandi skólans og samfélagsmiðlastjarna kom og sagði sína sögu um áfengislausan lífsstíl.
Hápunkturinn fyrir flesta nemendur skólans var þó heimsókn frá Forseta Íslands. Forsetinn ávarpaði nýnema og skoðaði skólann. Það var eins og að fylgja rokkstjörnu í gegnum skólann þar sem nemendur sóttu í að fá að taka „sjálfu“ af sér og forsetanum. Það leikur þó grunur á því að uppáhaldsstaður forsetans í skólanum hafi verið bakaríið, en Ásgeir og Árni bakarar tóku á móti forsetanum og föruneyti með góðgæti sem bakaranemar höfðu bakað.

Nýnemaballið var haldið á Spot og fór vel fram í alla staði.

Umhverfisdagar voru haldnir að vanda sem enduðu með Pizzuveislu og kom Dj. Dóra og skemmti nemendum í hádeginu. Í íþróttavikunni var keppt í fótbolta, körfubolta og bekkpressu og auðvitað var haldið óþróttapöbbkviss, nema hvað. Nemendur er á fullu að undirbúa þátttöku í Gettu betur og Morfís en gengi MK í Gettu betur í fyrra var mjög gott og komst lið skólans í sjónvarpið. Það er auðvitað stefnt að því að endurtaka þá frægðarför.

Það er ljóst að það leiðist engum í MK, þar slær hjartað

Pizzur mættar í seinni nýnemaferð.
Nemendur sóttu í að fá að taka „sjálfu“ af sér og forsetanum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar