Við köfum djúpt til þess að leita leiða til að verða betri

Úrslitakeppni efri hluta Bestu-deildar karla hefst um helgina og þótt það liggi fyrir hverjir verði Íslandsmeistarar í ár þá er mikil spenna um Evrópusætin svokölluðu, 3. og jafnvel 4. sætið sem gæti gefið þátttökurétt í Evrópkeppninni ef Víkingur vinnur KA í úrslileik Mjólkurbikarsins nk. laugardag.

Þátttaka í Evrópukeppninni gefur þeim félögum sem þangað komast tugi milljóna svo það er mikið undir fyrir Stjörnuna, sem er eins og er í 4. sæti Bestu-deildarinnar, að standa sig vel í úrslitakeppninni, en Stjarnan mun hefja leik á sunnudaginn kl. 19:15 er þeir mæta Val á Hlíðarenda.

Baráttan um Evrópusætið/-in verður hörð þar sem fjögur lið berjast um eitt, hugsanlega tvö Evrópusæti. Breiðablik er þar í bestri stöðu með 38 stig, fjórum stigum á undan Stjörnunni og FH sem eru með 34 stig. KR-ingar eru svo með 32 stig og því sannarlega með í baráttunni.

Garðapósturinn heyrði hljóðið í Jökli Elísubetarsyni þjálfara Stjörnunnar, en eftir nokkuð brösótt gengi í fyrri umferð Bestu-deildarinnar deildarinnar, þar sem liðið var nálægt fallsætunum, þá endaði liðið í 4. sæti deildarinnar eftir frábæra spilamennsku í seinni umferðinni.

Það er engin ein skýring á þessu

Þú hlýtur að vera nokkuð ánægður með hvernig hlutirnir hafa verið að þróast á undanförnum vikum og ertu með einhverja skýringu á þessum viðsnúningi liðsins þegar mótið var rétt rúmlega hálfnað? ,,Ég er mjög ánægður með þróunina á liðinu. Gengið í síðustu 10 leikjum er uppskera mikillar vinnu í leikjunum og æfingunum þar á undan og síðan þá. Það er engin ein skýring á þessu, við höfum unnið mikið í að hækka ákefð, varnarleik, sóknarleik og mörgum litlum atriðum en besta skýringin er framlag og samstaða hópsins. Annað sem við erum hvað ánægðastir með er stuðningurinn sem við höfum fengið frá fólkinu okkar sem hefur verið ótrúlegur,” segir Jökull.

Okkur gekk vissulega ekki betur vegna þess að þeir fóru

Og það sem er líka áhugavert er að þið misstuð bæði Ísak Andra og Guðmund Baldvin, sem höfðu leikið geysilega vel, í atvinnumennsku þegar síðari umferðin er rétt hafin, en það virðist ekki hafa haft áhrif þar sem liðið fór jafnvel að sýna betri frammistöðu og meiri stöðugleika og stigin hrúguðust inn. Það var væntanlega vont að missa þá en greinilegt að leikmannahópurinn er breiður miðað við hvernig hann brást við? ,,Það er alltaf erfitt að missa góða menn og Ísak og Gummi eru það svo sannarlega. Skemmtilegir og öflugir karakterar og voru, hvor á sinn hátt, leiðtogar í hópnum. Okkur gekk vissulega ekki betur vegna þess að þeir fóru heldur þrátt fyrir að þeir hafi farið. Það var búinn að vera mikill stígandi í leik liðsins þegar þeir fóru, þó svo að úrslitin hafi ekki verið að falla með okkur í öllum leikjum. Það sem gerðist þegar þeir fóru var að stígandinn jókst ekki heldur hélt áfram eins og áður og við vissum allan tímann að úrslitin myndu á endanum falla með okkur. Það að liðið hafi náð að halda stígandanum áfram sýnir styrk hópsins.”

Fagna því að leikmennirnir okkar fái tækifæri til þess að láta drauma sína rætast

En var þjálfarinn á nálunum á meðan félagsskiptaglugginn var opinn að þú gætir misst fleiri leikmenn? ,,Þvert á móti. Ég fagna því að leikmennirnir okkar fái tækifæri til þess að láta drauma sína rætast og er tilbúinn til þess að gera allt sem ég get til að hjálpa þeim að komast þangað. Ég styð allar ákvarðanir sem strákarnir taka varðandi framtíð sína, hvort sem það er að fara erlendis eða vera áfram hjá okkur.”

Það eru fleiri mjög spennandi leikmenn að banka á dyrnar

Stjarnan virðist eiga mikið af ungum og efnilegum leikmönnum sem þú hefur verið óhræddur við að nota – eru þetta allt flottir strákar sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig? ,,Þetta eru frábærir strákar sem eru alla daga að leita leiða til þess að verða betri. Þeir hafa auðvitað verið í misstórum hlutverkum en þeirra hlutverk munu bara stækka með tímanum og það eru fleiri mjög spennandi leikmenn að banka á dyrnar sem hafa ekki spilað ennþá og líta út fyrir að vera að taka skref nær liðinu”

En er það ekki frekar óvenjulegt hversu marga unga og efnilega leikmenn Stjarnan á sem eru farnir að spila stóra rullu í meistaraflokki? ,,Ég þekki ekki fjölda ungra leikmanna í öðrum liðum en ég er mjög ánægður með stöðuna hjá okkur. Það sem að gefur þeim líka mikið er að geta komið inn í öflugan hóp eins og meistaraflokkurinn er hjá okkur þar sem menn eru tilbúnir að leiðbeina yngri mönnum og hjálpa þeim að gera öll þau mistök sem þeir þurfa að fá að gera til þess að verða betri. Einnig er hópurinn þannig gíraður að ungir menn sem koma inn geta ekki annað en gefið allt sem þeir eiga og það er dýrmætt fyrir menn að geta komist í þannig umhverfi.”

Gaman að fá marga erfiða leiki

Hvernig líst þér svo á úrslitakeppnina sem er framundan, hvernig ætlið þið að nálgsta hana, búnir að setja ykkur markmið? ,,Mér líst rosalega vel á hana, það er gaman að fá marga erfiða leiki þar sem að stemmningin verður að öllum líkindum mikil. Eina markmiðið okkar er að nota þetta landsleikjahlé fram að næsta leik til þess að verða örlítið betra lið en við vorum í síðasta leik.”

Við gerum rosalegar kröfur til okkar

Nú gæti 4. sæti gefið þátttökurétt í Evrópukeppninni að ári og þá er þriðja sætið innan seilingar sem gulltryggir Evrópuþátttöku að ári liðnu – setur þetta aukna pressu á liðið og leikmenn, mikið undir að komast í Evrópu að ári liðinu? ,,Við gerum rosalegar kröfur til okkar. Við þjálfarateymið gerum rosalegar kröfur til okkar og til leikmanna og leikmenn gera sömu kröfur. Á milli leikja er öll pressan innan frá að verða betri. Við köfum djúpt til þess að leita leiða til að verða betri. Við munum vinna leiki í þessari úrslitakeppni og munum að öllum líkindum tapa líka. Eina sem er á okkar valdi er þróunin á hverjum degi sem við tökum mjög alvarlega.”

Hvernig er annars staðan á leikmönnum, eru allir heilir og tilbúnir fyrir úrslitakeppnina? ,,Staðan er mjög góð. Þorbergur er orðinn heill og er að pússa ryðið í burtu. Baldur Logi er að verða heill eftir að hafa rifið liðþófa fyrr í sumar sem er frábært. Kristian Riis er ennþá að koma sér almennilega í gang og aldrei að vita nema við sjáum hann í hóp í úrslitakeppninni. Halli er eini sem við erum nokkuð vissir um að muni ekki spila á þessu tímabili en við erum að vinna á fullu með honum til þess að hjálpa honum að vera tilbúinn eins fljótt og hægt er.”

Öll þessi umræða um gengi liðsins á útivelli á villigötum og hefur engin áhrif á hópinn

Af fimm leikjum í úrslitakeppninni þá eigið þið þrjá útileiki og fyrstu tveir leikirnir eru úti, á mót Val og FH. Stjarnan er eina liðið sem byrjar á tveimur útileikjum, þrátt fyrir að FH og KR hafi lent fyrir neðan ykkur í deildinni. Getur þetta haft áhrif miðað við gengi Stjörnunnar á heimavelli og útivelli í deildinni, en þið fenguð 25 stig á heimavelli en 9 stig á útivelli? ,,Að mínu mati er öll þessi umræða um gengi liðsins á útivelli á villigötum og hefur engin áhrif á hópinn. Auðvitað er stigaskiptingin afgerandi en eins og ég sé þetta þá er ekki hægt að einfalda það með þessum hætti þó svo að einhverjir hafi eflaust gaman af því. Þetta verða allt erfiðir leikir burt séð frá á hvaða velli þeir eru spilaðir. Við munum í kjölfarið fá tvo heimaleiki í röð sem verður fínt en það að byrja á tveimur útileikjum mun ekki hafa áhrif.”

Held að þetta verði frábær leikur fyrir stuðningsmenn

Og fyrstu leikurinn í úrslitakeppni eftri hlutans er á móti Val á sunndaginn, 17. september, hvernig leggst hann í þig og er stefnan sett á stigin þrjú? ,,Hann leggst ofboðslega vel í mig. Valsliðið hefur verið öflugt og skemmtilegt á tímabilinu og ég held að þetta verði frábær leikur fyrir stuðningsmenn og aðra sem fylgjast með. Við förum inn í hvern einasta leik í úrslitakeppninni og ætlumst til þess að vinna.”

Við munum borga fólkinu okkar til baka með liði sem verður tilbúið að fórna sér fyrir félagið

Og það er mikilvægt að fá góðan stuðning í þessum leikjum sem framundan eru? ,,Stuðningurinn frá fólkinu okkar getur skipt sköpum í öllum þessum leikjum. Við vonumst til þess að fá sem flesta á völlinn, vonum að sem flestir verði tilbúnir að taka undir með Silfurskeiðinni og við munum borga fólkinu okkar til baka með liði sem verður tilbúið að fórna sér fyrir félagið og við munum fagna saman að lokum,” segir Jökull að lokum og það er ekki hægt annað en að taka undir með honum. ,,Allir á völlinn!”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar