Vel heppnuð Safnanótt í Garðabæ

Þrátt fyrir leiðinlegt veður voru hátt í 400 gestir sem lögðu leið sína á Garðatorg á Safnanótt sem fór fram föstudagskvöldið 3. febrúar.
 
Viðburðir voru fjölbreyttir og ætlaðir öllum aldurshópum en yngsta kynslóðin gerði hljóðfæri í smiðju á bókasafninu og húsgögn í hönnunarsmiðju í Hönnunarsafninu.

Sýningin Aftur til Hofsstaða var opnuð á Garðatorgi 7 en sýningin verður án efa vel nýtt af skólabörnum og áhugafólki um sögu en saga Garðabæjar frá landnámi til okkar daga er sett fram með margmiðlunartækni sem Gagarín hannaði. Almar Guðmundsson bæjarstjóri opnaði sýninguna en Hringur Hafsteinsson einn af aðalhöfundum sýningarinnar sagði frá gerð og þróun Aftur til Hofsstaða. Eyjólfur Eyjólfsson tenór, langspilsleikari og þjóðfræðingur lék og söng við opnunina.

Þá var opnun sýningarinnar Hönnunarsafnið sem heimili vel sótt og mikil gleði meðal gesta en Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra opnuðu sýninguna.  Við opnun sýningarinnar léku Jelena Ciric, Ásgeir Ásgeirsson og Margrét Arnardóttir. 
 
Tónlist var einnig flutt á Bókasafni Garðabæjar þar sem Skólakór Sjálandsskóla söng og kvöldinu lauk með frábærum flutningi Rebekku Blöndal jazzsöngkonu ásamt Ásgeiri Ásgeirssyni gítarleikara. Í anddyri Hönnunarsafnsins léku raftónlistarmennirnir Otho, Carlo og Wolly hljóð úr ýmsum áttum en í vinnustofunni renndi Ada keramikhönnuður og leyfði einnig gestum að spreyta sig við rennibekkinn.
 
Að sögn Ólafar Breiðfjörð menningarfulltrúa er ljóst að Safnanótt lifir og ljóst að viðburðir í menningarstofnunum í Garðabæ draga fólk að.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar