Vegna umfjöllunar um smitrakningu og upplýsingagjöf í skólum Garðabæjar

Í grunnskólum Garðabæjar er unnið skv. fyrirmælum almannavarna og reglugerðum heilbrigðisráðuneytisins í tengslum við Covid-19 faraldurinn.  Frá upphafi faraldursins hefur verið mikið samráð á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í hinum ýmsu málaflokkum s.s. innan fræðslumála, velferðarmála, menningarmála, íþrótta- og tómstundamála þar sem viðbrögð og samræmd vinnubrögð hafa verið útfærð undir stjórn almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.

Samræmdar leiðbeiningar á höfuðborgarsvæðinu

Skólar í Garðabæ hafa frá upphafi starfað eftir gildandi reglugerðum og tilmælum og haldið úti skólastarfi með þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi hverju sinni. Fræðslustjórar á höfuðborgarsvæðinu hafa fundað reglulega með almannavörnum höfuðborgarsvæðisins til að fara yfir stöðuna og samræma vinnubrögð.   Sameiginlegar leiðbeiningar fyrir skóla- og frístundastarf á höfuðborgarsvæðinu hafa verið gefnar út af almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins og uppfærðar hverju sinni þegar nýjar reglugerðir hafa verið gefnar út.  Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins heldur úti vefsvæði fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem stjórnendur geta ávallt nálgast nýjustu leiðbeiningar..  

Hagsmunir og öryggi nemenda og starfsmanna

Mikil áhersla hefur verið á að skipuleggja starf skólanna með hagsmuni og öryggi nemenda og starfsmanna að leiðarljósi, gæta sóttvarna og sýna varkárni um leið og festa er í starfinu. Markmiðið hefur verið að halda starfsemi skólanna órofinni en um leið minnka líkur á því að stórir hópar barna og starfsfólks þurfi að fara í sóttkví eða jafnvel einangrun. 

Smitrakning í skólum – samræmt ferli eftir leiðbeiningum almannavarna

Í Garðabæ hefur leiðbeiningum almannavarna verið fylgt í hvívetna er varðar smitrakningu er upp koma smit hjá nemendum eða starfsfólki í skólum.  Um leið og upplýsingar um staðfest smit berast fer af stað samræmt ferli við að rekja hverjir í nærumhverfinu þurfa að fara í sóttkví og hverjir þurfa að fara í smitgát. Smitrakning er samstarfsverkefni stjórnenda grunnskóla og smitrakningarteymis en eðli málsins samkvæmt þekkja stjórnendur skólanna starfsemina best og skólinn þekkir til þess smitaða og hverja hann hefur umgengist.  

Skólastjóri fer strax í að rekja hópa/bekki sem tengjast nemendum og flokka þá sem fara í sóttkví eða smitgát.  Lögð er áhersla á að hringja í alla sem eru að fara í sóttkví og sendur tölvupóstur til þeirra sem fara í smitgát. Þetta á bæði við um starfsmenn og nemendur. Þá eru send sms skilaboð á forráðamenn barna sem eiga að fara í sóttkví. Ef ekki hefur tekist að ná í forráðamenn barna sem fara í sóttkví t.d. sökum þess að það er orðið áliðið kvölds, þá er tekið á móti nemendum að morgni til að tryggja að þeir blandist ekki öðrum í skólanum.  Í öllum tilvikum er tekin ákvörðun með almannavörnum um hvort rakning er samþykkt. Skólastjórnendur upplýsa einnig grunnskólafulltrúa Garðabæjar ef upp koma smit og stuðningsteymi Garðabæjar um smitrakningu, skipað stjórnendum hjá Garðabæ, er skólastjórum einnig innan handar ef á þarf að halda. 

Upplýsingamiðlun og smitrakning

Upplýsingapóstar eru sendir til allra forráðamanna og starfsmanna sem tengjast smitum og er það gert eins fljótt og auðið er.  Einnig eru starfsmenn skóla upplýstir með tölvupósti og almennir upplýsingapóstar eru sendir til forráðamanna í skólunum um að smit hafi komið upp í skólanum og búið sé að hafa samband við þá sem málið varðar og þurfa að fara í sóttkví eða smitgát.  Í allri upplýsingagjöf hafa starfsmenn, forráðamenn og nemendur verið hvattir til að sýna varkárni og huga að persónubundnum sóttvörnum. 

Ferli við rakningu og upplýsingagjöf einstakra smita geta stundum tekið allt að 3-4 klukkustundir og ef upplýsingar berast seint að kvöldi þarf stundum að setja fleiri en færri í sóttkví/smitgát á meðan rakning stendur yfir og hægt að senda út nánari upplýsingar næsta dag.  Það hefur því oft verið gengið lengra en krafist er til að sýna eins mikla varkárni og hægt er í smitrakningunni.

Ljóst er að mikið álag hefur verið á skólastjórnendum og starfsfólki skóla allt frá upphafi faraldursins við að halda úti skólastarfi með þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi hverju sinni.  Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hefur í haust ráðið til sín fleiri starfsmenn til að geta verið stjórnendum skóla innan handar við smitrakningu og er með bakvakt sem skólastjórnendur í Garðabæ sem og annars staðar af höfuðborgarsvæðinu geta leitað til.  Bakvaktin er tengiliður við smitrakningarteymi landlæknis.  

Samkvæmt upplýsingum frá grunnskólum Garðabæjar eru í dag, 11. nóvember,  alls 24 börn á grunnskólaaldri í einangrun sem er innan við 1% grunnskólabarna í átta grunnskólum í bænum.   Eðli málsins samkæmt breytast þessar tölur frá degi til dags.  

Stjórnendur og starfsfólk grunnskóla Garðabæjar hafa af miklum metnaði lagt sig fram við að gera sitt allra besta í að halda úti eins eðlilegu skólastarfi og hægt er á þessum tímum og tryggja að starfsemin geti verið órofinn en um leið huga að öryggi nemenda og starfsfólks með ýtrustu sóttvörnum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar