Bein skilaboð og fimiþjálfun

Þróunarsjóður grunnskóla Garðabæjar var stofnaður árið 2015 og  hefur sl. 6 ár úthlutað yfir 100 milljónum til verkefna í grunnskólum Garðabæjar. Markmið sjóðsins er að stuðla að öflugu og framsæknu skólastarfi  í bænum og gefa fagfólki tækifæri til að þróa fagsvið sitt í framsæknu stafi með börnum og ungmennum. Úthlutað hefur verið til yfir 100 verkefna sem snerta ýmsa fleti skólastarfsins auk hinna hefðbundnu námsgreina. Árið 2018 var send spurningakönnun til fagfólks í grunnskólum bæjarins, til að fá álit þeirra á sjóðnum og áhrifum hans á skólastarfið. Samkvæmt þeirri könnun telja yfir 90% að áhrif sjóðsins á skólastarf í Garðabæ séu góð og sama hlutfall telur að styrkir sjóðsins auki tækifæri til starfsþróunar og framsækni i skólastarfi. Ávinningurinn sé öflugra skólastarf og fyrir nemendur og eftirsóttara starfsumhverfi.

Hér verður veitt innsýn í þróunarverkefni í Urriðaholtsskóla um kennsluaðferðir sem kallast bein skilaboð og fimiþjálfun. Í næstu blöðum Garðapóstsins verða kynnt fleiri þróunarverkefni grunnskólanna í Garðabæ.

Frá upphafi hefur Urriðaholtsskóli unnið að því að innleiða ákveðna kennsluhætti í íslensku og stærðfræði samhliða því að vinna með hagnýta atferlisgreiningu í starfi. Þróunarsjóður Garðabæjar hefur stutt ríkulega við þessa innleiðingu.

Bein fyrirmæli og fimiþjálfun

Þessir kennsluhættir eru bein fyrirmæli (e. Direct Instruction) og fimiþjálfun. Ávinningur verkefnisins er að auka þekkingu og færni kennara á raunprófuðum kennsluaðferðum sem rannsóknir hafa sýnt að skila bestum árangri – og þannig auka námsárangur nemenda. Lögð er áhersla á að kennarar nái tökum á kennsluaðferðum með meðferðartryggðum og meðferðarheldum aðferðum. Hugtökin vísa til þess að mælingar eru gerðar á því hvernig inngripi eða meðferð er framfylgt bæði af þeim sem þiggja hana og þeim sem veita hana.

Erlendir sérfræðingar

Þróunarsjóður hefur gefið skólasamfélaginu kost á að fá til landsins erlenda sérfræðinga í þessari aðferðafræði. Þeir hafa haldið námskeið fyrir kennara, aðstoðað við innleiðingu kennsluháttanna auk þess að veita handleiðslu. Þetta hefur gefið góða raun og framfarir nemenda mælast góðar. Í fyrstu var meiri áhersla á að innleiða þessa kennsluhætti í lestrarkennslu en í vetur hafa þessir kennsluhættir einnig verið teknir upp í stærðfræði. Sérfræðingur frá Seattle er væntanlegur til landsins meðal annars til að veita skólanum ráðgjöf um næstu skref.

Orðaforðakennsla og læsi

Meðal næstu skefa í þessu verkefni er innleiðing  orðaforðakennslu og ákveðnar áherslur í undirbúning læsis hjá börnum á leikskólastigi (e. Early Childhood Literacy). Það verkefni er byggt upp undir handleiðslu erlendra sérfræðinga.

Niðurstaða

Þetta verkefni er gott dæmi um hvernig Þróunarsjóður Garðabæjar gerir skólum og skólasamfélaginu í bænum kleift að þróa nýjar leiðir sem byggja á rannsóknum. Að fá erlenda sérfræðinga sem skilja eftir þekkingu og færni meðal starfsmanna skólanna er ávinningur fyrir nemendur, kennara og skólasamfélagið allt.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar