Uppskeruhátíð bænda á Garðatorgi laugdardaginn 1. október

Næstkomandi laugardag 1. október verður Uppskeruhátíð bænda á Garðatorgi kl. 12.00-18.00 en hápunktur hátíðarinnar verður kl. 14.00-16.00. Þessi viðburður er hluti af störfum undirbúningsnefndar vegna uppbyggingar miðbæjarsvæðis Garðabæjar og skipulagður í samstarfi við rekstraraðila á Garðatorgi. Sú nefnd var skipuð á bæjarstjórnarfundi 16. júní síðast liðinni og hana skipa Ósk Sigurðardóttir varabæjarfulltrúi, Pálmi Freyr Randversson og Sigríður Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar sem fer fyrir nefndinni. Garðapósturinn heyrði í Sigríði Huldu vegna þessa.

Hvers vegna uppskeruhátíð bænda á Garðatorgi? ,,Við viljum styðja við verslun og þjónustu á Garðatorgi og skapa tækifæri fyrir íbúa og aðra til að eiga ánægjulegan laugardag. Á Garðatorgi er fjölbreytt flóra verslana og þjónustuaðila og svæðið býður upp á mikla möguleika. Það væri til dæmis hægt að vera með árlega hátíð á Garðatorgi og efla þannig mannlífið í bænum.“ segir Sigríður Hulda.

Hvað verður um að vera á Uppskeruhátíðinni? ,,Fjöldi verslana verða með frábær tilboð, opið lengur eða frá kl 12.00-18.00, veitingar og kaupauka. Í svokallaðri göngugötu fyrir framan verslunina Me&Mu verða bændur og ýmsir framleiðendur með vörur sínar. Þar verður vísir að grænmetismarkaði, vörur kynntar og gestum boðið upp á að smakka. Milli kl 14.00 og 16.00 má segja að sé hápunktur hátíðarinnar, þá verða aðilar frá Sirkus Íslands á svæðinu, ganga um með skemmtilegheit og glens og bjóða upp á andlitsmálun fyrir börnin. Bitabílar verða á Garðatorgi á sama tíma og þar verður hægt að versla ýmiskonar góðgæti. Frítt verður inn á Hönnunarsafnið sem er með fjórar spennandi sýningar og fjölskylduhlaup Garðabæjar verður sama dag þar sem hlaupið er frá Stjörnuheimilinu kl 11.00.“

Geta bæjarbúar komið skoðunum sínum um þróun á Garðatorgi á framfæri? ,,Já, okkur finnst mjög mikilvægt að vinna þetta í samráði við íbúa, miðbær er og á að vera svæði sem laðar að sér fólk og þetta samtal skiptir miklu máli. Á laugardaginn verður hugmyndakassi á Garðatorgi þar sem bæjarbúar geta skrifað og sett í kassann sínar hugmyndir varðandi þróun Garðatorgs og miðbæjar. Nú hefur verið opnuð samráðsgátt um mótun miðbæjarins á heimasíðu Garðabæjar. Við hvetjum bæjarbúa til þess að senda inn hugmyndir, ábendingar og tillögur sem nýtast til að gera góðan miðbæ í Garðabæ enn betri. Nefndin mun í kjölfarið ásamt bæjarstjóra funda með hagsmunaaðilum á Garðatorgi. Samráðsgáttin á heimsíðu bæjarins verður opin til og með 9. október n.k,“ að sögn Sigríðar Huldu.

Garðapósturinn þakkar Sigríði Huldu fyrir spjallið og hvetur alla Garðbæinga til að leggja leið sína á Garðatorg næsta laugardag og einnig að koma hugmyndum sínum um þróun miðbæjar á framfæri annað hvort í gegnu samráðsgátt á heimasíðu bæjarins eða með því að nýta hugmyndakassann sem verður á Garðatorgi á laugardaginn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar