Framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg sumarið 2021
Vegagerðin og Garðabær hafa undanfarið unnið við endurbætur á Vífilsstaðavegi og Hafnarfjarðarvegi. Næsta skref í þessum framkvæmdum er að gera undirgöng undir Hafnarfjarðarveg á móts við Lækjarás. Hraunsholtslækurinn verður leiddur í gegnum göngin og lagðir verða nýir göngustígar að göngunum. Eftir þessar framkvæmdir verður hægt að komast undir Hafnarfjarðarveg á tveimur stöðum sem eykur öryggi gangandi vegfarenda.
Um miðjan apríl verður byrjað á undirbúningi fyrir þetta verk og reiknað með að undirgöngin verði tilbúin áður en skólar byrja í haust. Undirgöngin verða sett saman úr forsteyptum einingum en til þess að koma þeim fyrir þarf að rjúfa Hafnarfjarðarveg og lækka klöpp í gangastæðinu.
Á meðan á þessum framkvæmdum stendur verður bílaumferð um Hafnarfjarðarveg beint um framhjáhlaup utan við gangastæðið. Fjórar akreinar verða í framhjáhlaupinu og hámarkshraði verður takmarkaður við 30 km/klst.
Töluverðar breytingar verða á gönguleiðum á meðan á þessu stendur og er sérstaklega vakin athygli á að ekki verður hægt að komast yfir Hafnarfjarðarveg við Lyngás. Á myndinni eru mögulegar gönguleiðir sýndar með grænum línum.
Þegar þessum hluta framkvæmdanna er lokið verður farið í endurbætur á vegamótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngás þar sem skipt verður um umferðarljós og vegamótin breikkuð og lagfærð, en þar verða tvær vinstri beygjuakreinar út úr Lyngás til norðurs.
Sjá upplýsingar um framkvæmdir á vef Garðabæjar og Vegagerðarinnar